3. desember 2008

Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Í dag, 3. desember, er alþjóðlegur dagur fatlaðra. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nánar til tekið í 23. gr., er fjallað um réttindi barna með fötlun og skyldur aðildarríkjanna til að tryggja börnum með fötlun réttindi sín án mismununar af nokkru tagi

Í dag, 3. desember, er alþjóðlegur dagur fatlaðra. Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, nánar til tekið í 23. gr., er fjallað um réttindi barna með fötlun og skyldur aðildarríkjanna til að tryggja börnum með fötlun réttindi sín án mismununar af nokkru tagi

Í grein félags- og tryggingamálaráðherra í Morgunblaðinu í dag kemur fram að nú sé sjónum beint að nýjum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Samningurinn var staðfestur af Íslandi með undirritun hans þann 30. mars 2007 sem felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarrétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun er víða fjallað um réttindi barna með fötlun, sbr. 7. gr. en þar segir að aðildarríkin skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn. Í öllum aðgerðum sem snerta börn með fötlun skuli fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. Börnum með fötlun skal tryggður réttur til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð, þar sem tekið er tillit til fötlunar þeirra og aldurs. Í samningnum er einnig fjallað um réttindi barna með fötlun til menntunar, sbr. 24. gr., réttin til viðunandi lífskjara og félagslegrar verndar sbr. 28. gr. og þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda-, og íþróttastarfi.

Í haust hófst verkefni á vegum umboðsmanns barna sem ber heitið Hvernig er að vera barn á Íslandi? Tilgangur verkefnisins er að gefa börnum tækifæri til að láta raddir sínar heyrast og var leitað eftir samstarfi við grunnskóla um þetta verkefni. Meðal þátttakenda er Öskjuhlíðarskóli sem er sérskóli fyrir börn með þroskahömlun og fjölfötlun á aldrinum 0 – 16 ára. Er það von umboðsmanns barna að þátttaka Öskjuhlíðarskóla í þessu verkefni verði til þess að raddir barna með fötlun komi fram sem og sýn þeirra á samfélagið og mótun þess. Jafnframt er bent á að enn geta skólar tekið þátt í verkefninu og treystir umboðsmaður barna því að grunnskólar sem koma til með að taka þátt  tryggi  jafnframt þátttöku barna með fötlun í verkefninu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica