Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Hvernig er að vera barn á Íslandi?

Bókin Hvernig er að vera barn á Íslandi? var gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Barnasáttmálans, 20. nóvember 2009. Bókin inniheldur myndir og texta leik- og grunnskólabarna og endurspeglar sýn barnanna á samfélagið, kosti þess og galla. Í verkunum segja börnin frá reynslu sinni, skoðunum og tjá sig almennt um það hvernig er að vera barn á Íslandi.

Bókina má nálgast Smellið hér til að opna bókin Hvernig er að vera barn á Íslandi? á PDF formi. 

Mynd Af Kápu Bókarinnar Hvernig Er Að Vera Barn Á Íslandi 2010

Markmið verkefnisins

Skólaverkefni umboðsmanns barna Hvernig er að vera barn á Íslandi? stóð yfir veturinn 2008 til 2009. Markmið verkefnisins var að heyra raddir barna og gefa þeim tækifæri til að tjá sig með þeim hætti sem þeim hentar best. Verkefnið tók mið af 12. og 13. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en sáttmálinn hefur mikið vægi í öllu starfi umboðsmanns barna.

Megininntak 12. greinar Barnasáttmálans:

Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Megininntak 13. greinar Barnasáttmálans:

Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Með verkefninu vildi umboðsmaður gefa börnum tækifæri til að láta sínar raddir heyrast á fjölbreyttan hátt. Formið var gefið nokkuð frjálst til að koma til móts við þarfir sem flestra. Myndlistarformið var vinsælast enda hentar það öllum aldurshópum.

Hvernig var verkefnið unnið?

Öllum grunn- og leikskólum landsins var boðin þátttaka í verkefninu. Umboðsmaður barna útvegaði skólunum póstkort í A4-stærð og stór veggspjöld úr pappa sem börnin gátu teiknað, litað, skrifað eða límt á. Yfir eitt þúsund verk grunn- og leikskólanemenda úr 23 skólum bárust umboðsmanni.

Kennarar og nemendur höfðu frjálsar hendur um það hvernig verkefnið var unnið. Þema verkefnis var í flestum tilfellum nærsamfélagið, skólinn, fjölskylda og vinir. Margir kusu að vinna verkefnið í kringum Barnasáttmálann sem vakti oft miklar umræður um réttindi barna. Einnig höfðu sumir til grundvallar þær spurningar sem umboðsmaður barna lagði til:

• Hvernig eiga góðir foreldrar að vera?
• Hvernig er góð mamma? Hvernig er góður pabbi?
• Hvernig á góður kennari að vera?
• Þegar ég er í skólanum finnst mér best þegar . . .
• Þegar ég er í skólanum finnst mér verst þegar . . .
• Hvernig er að vera barn á Íslandi?

Hver var afraksturinn?

Afraksturinn var fjölbreytt safn listaverka og skilaboða frá börnunum til hinna fullorðnu.

Í bókinni er að finna brot af verkum og hugmyndum íslenskra barna veturinn 2008 til 2009, veturinn sem er mörgum Íslendingum minnisstæður fyrir efnahagsþrengingar og ólgu í samfélaginu. Úr verkunum má lesa ýmislegt um hugmyndaheim barnanna, s.s. um vináttu, mikilvægi fjölskyldunnar, hlutverk kynjanna, áhrif kreppunnar auk þess sem inn á milli eru skýr skilaboð um það sem þeim finnt betur mætti fara í samfélaginu.

Ég vil að mamma og pabbi segi fyrirgefðu hvort við annað

Vinir og fjölskylda er fallegasta í heimi, þó að kreppan sé í gangi og við missum peninga. En það er eitt sem við missum aldrei, það er fjölskyldan og vini. Látum guð blessa okkur fyrir þetta tvennt!

Að vera barn, ég er góð og hjálpsöm og mér finnst gaman að leika mér.

Nennið þið að passa að engu barni líður illa?

Ég vil að þú vakir yfir einelti og rugluðu fólki.

Mér finnst gott að vera barn á Íslandi. Mér finnst Ísland mjög heppið af því að það er t.d. ekki stríð, flest börn eiga foreldra, við fáum föt, nóg af mat og umhyggju.

Góðir kennarar eiga að vera glaðir og þolinmóðir.

Af hverju er lífið dálítið leiðinlegt í skóla? HREKKJUSVÍNIN.

Gleðilega kreppu og farsælt komandi gjaldþrot.

Í bókinni er umslag með fjórum póstkortum sem myndskreytt eru með listaverkum úr bókinni.

Haldin var sýning á vinnu barnanna í tengslum við Dag barnsins á Íslandi, sem er haldinn hátíðlegur síðasta sunnudag í maí ár hvert. Verk barnanna voru sýnd í Gerðubergi sumarið 2009 og á skrifstofu umboðsmanns barna frá Menningarnótt og fram á haust.

Umboðsmaður vill þakka eftirfarandi skólum, nemendum og starfsfólki þeirra kærlega fyrir gott samstarf: Leikskólunum Fálkaborg, Álfaborg og Gullborg, Heilsuleikskólanum Króki, Leikskólanum Regnboga, Holti, Nóaborg, Sólbrekku, Síðuseli og Hólaborg, grunnskólunum Rimaskóla, Víkurskóla, Austurbæjarskóla, Grunnskólanum í Sandgerði, Stóru-Vogaskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, Víðistaðaskóla, Snælandsskóla, Seyðisfjarðarskóla, Fellaskóla í Fellabæ, Svalbarðsskóla, Öskjuhlíðarskóla og Fossvogsskóla.