Frásagnir barna af kórónuveirunni

Það er mikilvægt að börn fái tækifæri til þess að taka þátt í samfélagslegri umræðu. Í starfi umboðsmanns barna er áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að tekið sé tillit til sjónarmiða barna, enda búa þau yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

 

Við lifum á sögulegum tímum þar sem ýmsar samfélagslegar breytingar hafa orðið í kjölfar kórónuveirufaraldursins (COVID-19). Í samstarfi við KrakkaRúv óskaði umboðsmaður barna eftir frásögnum barna og ungmenna af því hvernig það er að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvernig faraldurinn hefur haft áhrif á daglegt líf þeirra. Það voru ekki gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn hvött til þess að senda myndir, skriflegar frásagnir eða myndskeið. Yfir 60 frásagnir bárust frá börnum á öllum aldri víðsvegar að af landinu, flestir sem sendu inn frásögn voru á grunnskólaaldri. Mest var af skriflegum frásögnum en einnig voru sendar inn myndir, dagbókarfærslur og ljóð. Þá var nokkuð sent af myndskeiðum með frásögnum, viðtölum og leiknu efni. Hér er búið að flokka umfjöllun barnanna eftir þeim þemum sem voru hvað algengust, er það gert í þeim tilgangi að gefa yfirsýn yfir frásagnir barnanna. Textinn er birtur í óbreyttri mynd.

„Núna veira er í gangi
Heimsfaraldur er það satt?,
En ég sit bara í mömmu fangi
Sat þar áður en ég datt.

Í Kína fyrst fannst þessi veira
Ekki veit ég hvaðan hún kom
En ef þú vilt vita meira
Nánari upplýsingar á covid.com

Heima ég sit alla daga
Ekki oft við förum í búð
Hungrið er að æra maga
Mig langaði bara í snúð“

 

Almennt um lífið á tímum kórónuveirunnar

Af svörum barnanna má merkja að kórónuveiran hafi haft mikil áhrif á daglegt líf þeirra. Mörgum fannst lífið búið að vera skrýtið og sumir upplifðu að heimurinn væri öðruvísi. Þau voru meðvituð um að margir hefðu smitast af veirunni og einnig að ástandið væri sérstaklega erfitt í ákveðnum löndum og að margir hefðu dáið vegna kórónuveirunnar í heiminum. Almennt voru börnin ekki hrædd við að fá veiruna sjálf og gerðu sér grein fyrir að það væri líklegra að eldra fólk verði meira veikt og margir höfðu því áhyggjur af afa sínum og ömmu. Börn voru dugleg að einblína ekki einungis á neikvæð áhrif kórónuveirunnar og sáu mörg þeirra jákvæðar hliðar á þeim breytingum sem höfðu orðið vegna hennar. Samverustundir fjölskyldunnar væru fleiri og þá hefðu þau lært mikið á þessum tíma, t.d. hvað vinátta skiptir miklu máli, hvað það er mikilvægt að gera gott úr hlutunum, hugsa jákvætt og finna sér eitthvað að gera.

dagbókarfærsla

Efni frá börnum

Lífið á tímum kórónuveirunnar

Þetta höfðu börn að segja almennt um lífið á tímum kórónuveirunnar. 

 • Lífið á tímum kórónuveirunnar er allt öðruvísi en venjulega. 

 • Líf mitt hefur breyst mjög mikið út af covid 19 t.d. það eru engar íþróttir, sundlaugin er lokuð og ég má ekki hitta vinkonur mínar sem eru í hinni stofunni. Skólinn hefur líka breyst mjög mikið. Núna er skólinn helmingi stittri, kennararnir koma með okkur út og við meigum ekki hitta aðra hópa. 

 • Mér er búið að líða óþægilega og skringilega. Þetta er stressandi en samt líka spennandi. Þetta er sorglegt út af þeim sem eru að deyja. Pirrandi og leiðinlegt að geta ekki farið í skólann eða leikið við vini mína. Á sama tíma er þetta pínu skemmtilegt. Ef ég ætti að lýsa þessu í einu orði væri það SKRÍTIÐ! Mér líður allskonar.

 • Fyrst þegar kóróna veiran varð til var ég ekki það hrædd vegna þess að þetta var bara einhversstaðar í Kína, en svo fyrst þegar hún kom til Íslands varð ég smá hrædd en aðallega vegna þess að ég bý með níutíu og þriggja ára langömmu minni. Mér finnst fínt að vera í skólanum en hann er svolítið skrítinn og okkur er skipt í tvennt. Ég hlakka til þegar skólinn verður aftur venjulegur þann 4. maí.

 • Það var mjög leðinlegt þegar kórunuveiran kom til Íslands. Þá fór bara allt í frost fótboltavöllurinn lokaði íþrótta húsið lokaði sundlaugin lokaði veitinga húsin lokuðu og bara alt nema skólinn. Fyrst mátti ég bara leika við bekkinn minn svo mátti ég bara leika við stofuna mína og svo var stofunni skipt upp í tvennt. Ég æfði mjög mikið 7sinnum í viku. Ég æfði fótbolta körfubolta og skíði. Þannig að það var mjög erfit að æfa ekki neitt. Ég er mjög glaður hvað ég fæ miknn tíma með fjölskyldunni. Svo reynndi ég að æfa mig í fótbolta og körfubolt en ekki skíði það vantaði snjóinn. Mér finnst þetta eru mjög undarleigir tímar og frekar skrýtnir. Ég reynni að lesa einns og ég gett og skrái í tími til að lesa það hjálpar mér að drepa tíman. En ég hlakka til þegar 4 maí kemur þá fer alt á stað og ég hlakka mjög mikið til.

 • Þetta byrjaði hjá mér með því að ég mátti ekki hitta krakkana í næstu stofu og þá hættu fóboltaæfingar. Þá fórum við strákarnir í fótbolta á vellinum lékum okkur, en á því tímabili þá frétti ég að það mátti ekki heimsækja hjúkrunarheimili og langaafinn minn er með alsæmi og honum þykir gott að fá heimsóknir og mér leið ekkert mjög vel eftir það. Þetta varð en leiðinlegara þegar það var lokað vellinum og skipt bekknum upp í fjóra hluta. Það var skóli annan hvorn dag eftir það. Það gerðist ekkert mikið eftir það nema að ég var bara heima. Nokuð löngu eftir það var leift að fara á völlin en bara í fylgd með fullorðnum og það máttu bara vera 15 á vellinum. Það var gaman. Svo var skipt bekknum aftur í tvo hluta og það var geggjað. Þá fórum við strákarnir aftur að leika. Ég hlakka mjög mikið til 4. Maí. 

 • Mér finnst covid-19 ekki mjög skemmtilegt. Mér finnst ekki gaman að maður má ekki hitta vini sína eins mikið og maður fer ekki eins mikið í sund, búðina og svoleiðis. Það er samt gaman að ég er svolítið mikið með mömmu minni en leiðinlegt að ég má ekki fara til afa og ömmu eins og ég er vön. Ég hef ekki verið í skólanum á þessu tímabili svo ég þarf að læra allt heima sem er ekki mjög gaman en ég veit að þetta mun allt batna einhverntímann.

 • Þetta er búinn að vera mjög skrítinn tími. Það er allt svo öðruvísi. Ég fer minna í skóla, fæ ekki að leika við vinkonur mínar, er alltaf að spritta á mér hendurnar og þvo hendurnar. En við fjölskyldan erum búin að gera mikið saman eins og að fara til Atlavík, fara að hjóla eða labba, setja upp trampólín, spila og margt fleira. En mikið hlakka ég til þegar þetta er búið. 

 • Í fyrstu var þetta bara svona eins og frí, varla enginn skóli færð bara að chilla heima, horfa á sjónvarpið, sofa út, o.s.frv. En svo eftir svona 2 vikur þa var þetta orðið alveg frekar leiðinlegt... Maður gerir bara ekkert alla daga og ég finn það bara andlega og líkamlega hvað ég þarf mikið á æfingum og félagslífi að halda.

 • Ég bara fæ ekki motivationið fyrir því að koma mér í gang og byrja að hreyfa mig. Vanalega er ég á æfingum 3-4 sinnum á viku og ég finn bara að mér líður miklu betur þá. Svo er ég líka farin að borða óhollar og líður bar ekkert sérstaklega vel líkamlega meðan við áður. Svo er ég farin að sakna vina minna svo mikið!! Það er svo skrýtið að fá ekki að hitta vini mína á hverjum degi. Kennari minn er í áhættuhópi svo ég er ekki búin að fá að mæta neitt í skólan svo einu manneskjurnar sem ég er búin að hitta eru mamma mín, pabbi minn, systir mín, bróðir minn og kærastan hans.

 • Mér fannst lífið erfiðara ég gat ekki hitt vini mína og gat ekki fengið almennilega menntun og það að vita að maður gæti dáið frá þessu var hræðileg tilfinning einn dag fannst mér allt breytast það var ekkert skemmtilegt og sú tilfinning að vita að maður mun vera heima i næstu 2 mánuði frá sú tíma er allt 2 metra á milli , max 10 manneskjur mér fannst eg missa allt sem eg lærði og þegar við komum aftur i skólan gat engin hist eins og við gerðum alltaf.

 • Nema samt mikil breyting en á góðan hátt ég náði að gera hluti sem ég hafði ekki tíma til að gera eins og að raða í skúffur.Ég fór oftar í göngutúr og eyddi meiri tíma með fjölskyldunni.

 • Enginn skóli engar íþróttaæfingar má ekki fara út í búð og stanslaus ný tilfelli og dauðsföll sérstaklega í Bandaríkjunum Bretlandi og í Frakklandi.


dagbókarfærsla

dagbókarfærsla

dagbókarfærsla

 

 

Næsti kafli - skólinn


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica