Frásagnir barna IV - sóttvarnaráðstafanir

Heimsfaraldur og sóttvarnaráðstafanir undanfarinna ára hafa haft stórtæk áhrif á líf barna og ungmenna. Grípa hefur þurft til umfangsmikilla takmarkana til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þær takmarkanir hafa haft mikil áhrif á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og tómstundastarf barna. Börn og ungmenni hafa sýnt mikla þrautseigju og ítrekað þurft að laga sig að breyttum aðstæðum. Markmið þess að safna frásögnum barna og ungmenna, er að afla sjónarmiða þeirra, og koma þeim á framfæri og í opinbera umræðu. Þá veita þessar frásagnir mikilvæga innsýn í daglegt líf og líðan barna og ungmenna á tímum heimsfaraldurs og gefa skýra mynd af því hvernig þau hafa upplifað sóttvarnaráðstafanir. 

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og unnið að því markmiði að við mótun stefnu og töku ákvarðana sem varða börn, verði ávallt leitað eftir og tekið tillit til sjónarmiða þeirra, enda búa börn yfir einstakri reynslu og þekkingu sem og innsýn í málefni og reynsluheim barna.

Umboðsmaður barna sendi öllum grunnskólum bréf í apríl 2022 þar sem óskað var eftir frásögnum barna og ungmenna af upplifun þeirra af sóttvarnaráðstöfunum. Var sjónum sérstaklega beint að sóttkví, einangrun, sýnatöku og bólusetningum. Einnig var óskað eftir frásögnum frá börnum gegnum samfélagsmiðla. Ekki voru gerðar sérstakar kröfur um form frásagna og voru börn m.a. hvött til þess að senda myndir, skriflegar færslur eða myndskeið. Umboðsmanni bárust 93 svör frá börnum víðsvegar að af landinu.

Þetta er í fjórða sinn sem umboðsmaður barna safnar frásögnum barna og ungmenna af reynslu þeirra á tímum heimsfaraldurs. Vorið 2020 óskaði umboðsmaður fyrst eftir frásögnum barna og ungmenna af því að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á daglegt líf þeirra. Alls bárust 116 svör frá börnum og ungmennum. Veturinn 2020 óskaði umboðsmaður í annað sinn eftir frásögnum barna og ungmenna þar sem áhersla var lögð á líðan og samskipti við fjölskyldu og vini. Á þeim tíma var mikið um smit í samfélaginu og grípa varð til umfangsmikilla ráðstafana til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þá hafði börnum og ungmennum verið gert að bera grímu en slík krafa var ekki gerð þegar fyrri bylgjur faraldursins gengu yfir. Alls bárust svör frá 287 börnum og ungmennum. Vorið 2021 óskaði umboðsmaður í þriðja sinn eftir frásögnum barna og þá var lögð áhersla á framtíðarsýn þeirra eftir lok kórónuverufaraldursins varðandi samfélagslegar aðstæður, skólastarf, þátttöku í tómstundum og aðstæðum heima fyrir en þá bárust 45 svör frá börnum og ungmennum.

Mikill meirihluti frásagna hafa verið skriflegar en einnig hafa borist myndir, dagbókarfærslur og ljóð. Þá barst nokkuð af myndskeiðum með frásögnum, viðtölum og leiknu efni. Fjallað var um frásagnirnar í fréttum á KrakkaRÚV auk þess sem þar voru birt nokkur myndbönd.

Mynd með færslu

Ljóð

 

Þegar covid kom fékk ég leið á því um leið.

Ég varð bogin skeið.

Einangrunin var ekki góð

Komst varla út á lóð.

Við covid var ég í glímu

Fékk litla hjálp frá minni grímu

Ekki leið mér vel

Er priki var troðið í mitt nef.

Covid var ég einu sinni með,

Mér leið eins og lítið peð.


 

barn að labba í poll 

Almennt um sóttvarnaráðstafanir

Í frásögnum barna og ungmenna kom fram að þau telji að sóttvarnaráðstafanir hafi haft mikil áhrif á alla hvort sem þeir hafi fengið COVID-19 eða ekki. Einnig var það nokkuð samróma álit barnanna að heimsfaraldurinn muni setja mark sitt á samfélagið um ókomna tíð. Skiptar skoðanir komu fram um sóttvarnaráðstafanir, sumum fannst þær ganga of langt en öðrum ekki nógu langt. Börnum fannst jákvætt þegar ekki þurfti lengur að fara í sóttkví og einangrun en tekið var fram að það þurfi samt sem áður áfram að huga að eldra fólki og þeim sem eru í áhættuhópum. Nokkur börn greindu frá því að þau hafi fundið fyrir auknum kvíða og sýklafælni, það voru einnig börn sem tóku fram að það hafi verið streituvaldandi að mæta í skólann, af því að þau hafi verið hrædd um að smitast af COVID-19. Algengt var að börn hafi haft áhyggjur af því að smita aðra, sérstaklega ömmu og afa. Það var lítil ánægja með grímuskyldu og takmörkuð trú á notagildi þeirra. Nokkrum ungmennum fannst mikill hræðsluáróður hafa verið rekinn og að afleiðingar COVID-19 hafi verið ýktar. Líkt og áður hefur komið fram í frásögnum barna urðu mörg börn og ungmenni fyrir miklum vonbrigðum með að komast ekki til útlanda.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Þegar lengra leið fannst mér alltaf sýkla kvíðinn aukast og ég var farin að spritta símann minn eftir hvern skóladag og mér finnst ég vera miklu meira meðvituð um sýkla og skít eftir þetta spritt æði og ég vildi að það væri ekki þannig því mér fannst bara miklu meira frelsi þegar mér var alveg sama um sýkla.“

„Mér fannst stressið í kringum COVID, þ.e.a.s. kvíðinn um að bera smit til ömmu minnar og afa mjög mikill og óþægilegur. það var óþægilegt að fara í skólann og þannig út af kvíða fyrir að smita.„

„Ég skil vel að sumum hafi liðið illa í samkomubanninu t.d. hefði ég alls ekki getað verið svona mikið heima ef heimilisaðstæðurnar mínar hefðu verið eins og þær hafa verið á þessu ári.“

„Fannst bara grímuskylda asnaleg en það er samt gott að það var látið spritta og halda fjarðlægð, það gerir miklu meira heldur en að hafa einhverja grímu sem leifir mér ekki að anda frísku lofti (sem ég þarf líka ef ég vil vera heilbrigð gegn COVID) en fannst gott að það var lokað skólanum.“

„Ég er 15 ára og hef ekki fundið fyrir neinum sérstökum áhrifum frá COVID. Fann aldrei fyrir neinum svokölluðum heilsukvíða eða neitt svoleiðis, en mér fannst virkilega mikill hræðsluáróður hérlendis.“

„Af því að frá minni reynslu var ekki þess virði að vera lokaður heima og ekki mega gera neitt í 3 ár bara til þess að sleppa að fá smá hita.“

„Allt sem COVID-19 er búin að sýna okkur mikilvægt og er eitthvað sem ég mun muna allt mitt líf. Það er að nýta líf sitt vel meðan maður getur. Því aldrei er vitað hvenær maður lendir í sóttkví eða einangrun og er fastur heima í eina til tvær vikur."

„Það sem að var gott við þetta allt saman að maður varð nátturúlega klikkað góður í öllum tölvuleikjum þar sem að maður gerði ekkert annað á daginn.“ 

„COVID-19 Sóttkví: Ég held ég fór 3x (=15 dagar) árið 2020, 3x (=15 dagar) árið 2021 og 2x (=14 dagar) árið 2022. Mér fannst fyrstu tvö skiptin sem á fór í sóttkví mjög lengi að líða og það var ekkert að gera nema læra og horfa á sjónvarpið. En svo öll hin skiptin eftir það þá var ég orðin frekar vön því.“


barn að lesa

Sóttkví

Börn og ungmenni höfðu skiptar skoðanir á sóttkví. Sumum fannst ekkert mál að fara í sóttkví og tóku fram að það hafi verið notalegt að vera inni í rólegheitum og horfa á bíómyndir og sjónvarpsþætti. Öðrum fannst verulega íþyngjandi og erfitt andlega að vera í sóttkví. Dæmi voru um að börn og ungmenni finndu fyrir auknum kvíða á meðan þau voru í sóttkví. Algengt var að fram kæmi að það hafi verið notalegt til að byrja með en það hafi síðan orðið erfitt og leiðinlegt að vera í sóttkví til lengdar, sérstaklega af því það var ekki hægt að leika við vini sína. Sum börn tóku fram að þau hafi verið hrædd við að lenda í sóttkví því þá gætu þau ekki verið með vinum sínum. Þá kom einnig fram að það hafi verið erfitt að vera frá skólanum á meðan sóttkví stóð yfir og þau hafi misst mikið úr náminu.

Börnum og ungmennum fannst erfitt að geta lítið farið út úr herberginu sínu og það mátti merkja létti hjá þeim sem fóru með öðrum fjölskyldumeðlimum í sóttkví. Þau sem fóru í sóttkví á þeim tíma þegar heimilt var að fara út nýttu sér það og fóru út að hjóla eða ganga. Fram kom að það hafi verið erfitt þegar ekki mátti fara út og að betur hefði farið á því að heimila fólki að fara út að hreyfa sig, þó það væri í sóttkví, allan þann tíma sem kórónuveirufaraldurinn stóð yfir.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Mér fannst ofboðslega erfitt að vera í sóttkví vegna þess að þá fékk ég enga kennslu og datt bara aftur úr, samt fór ég bara tvisvar.“

„Sóttkví og einangrun eru eitthvað sem ég hef ekkert á móti en fannst hins vegar fáránleg regla þegar bólusettir þurftu ekki að fara í sóttkví þegar nokkuð augljóst er að þeir smitast og smita alveg nákvæmlega jafn mikið.“

„Það gat verið huggulegt að vera í sóttkví að horfa á bíómyndir og þætti þá gat það líka verið mjög þreytandi og manni leiddist mikið.“

„Ég var í sóttkví í tvær vikur sem var ótrúlega langur tími og svo þegar ég losnaði þá var nánast lokað á allt skólastarf og þá mátti ekki fara á æfingar sem var ótrúlega leiðinlegt.“

„Ég lenti einu sinni í sóttkví í viku og það var mjög leiðinlegt og skrýtið ég fór oft út að labba og hjóla. síðan var systir mín í sóttkví og ekki við hin þannig það var líka mjög skrýtið.

„Sóttkví fannst mér alveg frekar huggulegt en þegar maður var búin að vera lengi læstur inni herbergi þá var maður byrjaður að sakna vini sína og vera úti.“

„Mér fannst fyrstu tvö skiptin sem á fór í sóttkví mjög lengi að líða og það var ekkert að gera nema læra og horfa á sjónvarpið. En svo öll hin skiptin eftir það þá var ég orðin frekar vön því.“

„Ég var ekki með mjög góða reynslu í sóttkví vegna andlegum ástæðum. Það er ekki gott fyrir fólk að þurfa vera læst inni í herbergi/húsi í daga, sérstaklega ekki fólk sem á við andleg veikindi að stríða. Fólk hefði átt að mega fara út í göngutúra eða bíltúra að fá að dreifa huganum.“

„Mig langar ekki að þurfa að fara í sóttkví eða einangrun því þá get ég ekki hitt vini mína.“

„Ég fékk COVID en þurfti að vera í sóttkví í tvær vikur áður en ég greindist vegna smits á heimilinu, þá missti ég úr 3 vikum úr skóla og átti mikið eftir að vinna, ég reyndi að gera það sem ég gat en sumt skildi ég ekki og þá var erfiðara að læra heima.“


mynd af bangsa

Einangrun

Líkt og með sóttkví voru skiptar skoðanir um einangrun. Sumum fannst ekkert erfitt að vera í einangrun og tóku fram að það hafi verið notalegt og þau hafi fengið frið. Þau sem voru í einangrun með öðrum úr fjölskyldunni reyndu að stytta sér stundir saman. Þá voru börn og ungmenni sem tóku fram að einangrun hafi verið það allra versta við sóttvarnaráðstafanir. Það hafi verið erfitt að fá ekki að hitta neinn og erfitt að vera lokuð inni. Einnig hafi verið leiðinlegt að vinir og ættingjar hafi þurft að fara í sóttkví. Sum börn fundu fyrir létti þegar þau greindust með COVID-19, þó sum hafi orðið fyrir vonbrigðum með að smitast þrátt fyrir að vera bólusett. Það var mismunandi hversu veik börn og ungmenni urðu en margir lýstu því að hafa fengið hita, kvef og höfuðverk. Þá hafi þau fundið fyrir því að vera með minna þol í nokkurn tíma eftir greiningu.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Ég var heima í 5 daga, með hita og kvef. Heppilega missti ég ekki úr miklu námi en það var samt eitthvað sem stressaði mig mikið. Ég tók því rólega og horfði mikið á sjónvarp. Áhrifin eftir COVID voru væg, en ég fann það að þolið mitt var í rugli, sérstaklega á æfingu. Ég fann fyrir kvíða stundum, en var samt minna kvíðin en margir í kringum mig.“

„Ég smitaðist með COVID í febrúar 2022 og mér fannst það bara frekar gaman. Ég var veikur til að byrja með en síðan fékk ég bara að gera það sem að ég vildi. Ég horfði á fullt af bíómyndum og spilaði mikið af tölvuleikjum og lærði það sem að ég þurfti. Eina sem að ég var hræddur um var að smita einhvern en ég smitaði samt bara bróður minn. Ég er eiginlega frekar fegin að ég er búin að smitast. Það er ákveðin léttir að vera búin að fá COVID ég er ekkert stressaður lengur eftir að ég er smitaður.“

„Ég fékk COVID og veiktist mjög mikið. Ég var fjarverandi í skólanum í tæplega þrjár vikur. Ég var með hita, beinverki, fékk uppköst, hálsbólgu, kvef, ég var bara með allt. Loks þega ég hélt að ég væri orðin fín mætti ég aftur í skólann í viku en eftir það varð ég aftur veik. Ég varð miklu meira veik og það leið yfir mig.“

„Gott að vera í einangrun, svo mikill friður.“

„Svo fékk ég loksins COVID í janúar 2022 og þá var ég í einangrun í eina viku. Mér leið þá frekar illa fyrir að hafa sent vinkonur og bekkjarsystur mínar í sóttkví.“

„Ég var fékk COVID og fór þá í einangrun. Það var mjög furðulegt ég var bara lokuð inn í herbergi og þurfti að borða þar og þrífa allt sem ég snerti inn á baðherberginu. Síðan þegar að ég var búin með tvo daga í einangrun greindist mamma mín. Síðan greindist systir mín þegar ég var að klára einangrun. Mér leið mjög skringilega í einangrun þegar ég var veik en það var skrítið.“

„Mér fannst það mjög næs því maður fékk bara að vera í friði og þurfti ekkert að hafa áhyggjur af neinu nema skóla. Þurfti ekkert að sjá um systur mína, né hafa áhyggjur af neinu tengdu fjölskyldunni.“

„Ég hef farið einu sinni í einangrun og það var alveg næs að hangsa með mömmu að horfa á sjónvarpið og fá allan mat afhentan að hurðinni okkar. Ég varð samt frekar veik og fannst alveg fúlt að vera í einangrun.“

„Einangrun er allra verst maður má ekkert fara út að hitta fólk sem er meira að segja búin að fá COVID“

„Ég lenti í einangrun og öll fjölskyldan með mér. Mér fannst það bara fínt, mér finnst gaman að vera með fjölskyldunni minni við spiluðum mikið og gerðum gott úr því að vera í einangrun.“


Barn að taka covid próf

Sýnataka

Algengt var að börn og ungmenni hafi þurft að fara margoft í sýnatökur, bæði PCR- og hraðpróf. Fram kom að það hafi valdið þeim streitu að fara í sýnatöku og einnig að þurfa að bíða eftir niðurstöðum. Það hafi hins vegar vanist eftir því sem þau þurftu að fara oftar. Þá hafi verið mjög mismunandi hversu óþægileg framkvæmd sýnatökunnar var. Þrátt fyrir að sýnatakan hafi verið íþyngjandi fannst börnum og ungmennum almennt gott að geta farið í PCR- eða hraðpróf til að fá að vita hvort þau væru með COVID, þá hafi þau ekki þurft að hafa áhyggjur af því að smita annað fólk.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Ég fór mjög oft í sýnatökur, bæði PCR og hraðpróf, sem var stressandi en ég vandist því fljótt, ég fór oft þegar ég ferðaðist, en líka þegar ég fann fyrir einkennum.“

„Ég held að ég hafi farið í svona fjórum til fimm sinnum í pcr próf og mjög mörg hraðpróf. Það var mjög skrítið að bíða í röð eftir að einhver myndi stinga einhverjum pinna í nefið og munninn. Það var líka mjög stressandi að bíða eftir niðurstöðum. „

„Mér fannst sýnatökur bara allt í lagi, já það var smá óþægilegt í svona fimm mínútur en svo bara hunsar maður það bara og er búinn. Það er ekki eins og þetta sé það versta sem gerist í lífinu. Finnst mér“

„Ég hef farið svo oft í sýnatökur að ég er hætt að telja, stundum fæ ég sýnatökur sem ég fann ekkert fyrir en sumar voru svo slæmar að ég fór næstum því að gráta.“

„Sýnatökur urðu þreytandi smám saman en ég skil að það var mikilvægt.“

„Ég hef farið frekar oft í sýnatöku vegna þess að ég er mjög oft með hálsbólgu og það er alltaf betra að vera viss um að maður sé ekki með COVID heldur en að maður sé með COVID og fer að hitta fullt af fólki og smita þau af COVID.“

„Ég hef aldrei verið hrædd þegar ég verð veik en núna þá verð ég alltaf mjög hrædd um að vera með veiruna þannig ég fer alltaf í sýnatöku.“

„Mér finnst persónulega ekki óþæginlegt að fara í sýnatöku.“

„Ég fór í mjög mjög margar sýnatökur mér fannst það gott því að það vissi ég að ég væri ekki með COVID.“


Mynd með færslu

Bólusetning

Þau börn og ungmenni sem tóku ákvörðun ásamt foreldrum sínum um að fá bólusetningu, fundu almennt fyrir létti eftir að henni lauk. Sum voru hrædd við að láta bólusetja sig af því þau höfðu heyrt sögur um neikvæðar afleiðingar bólusetninga og alvarlegar aukaverkanir. Fram kom að það hafi verið óraunverulegt að sitja í stórum sal og bíða eftir því að fá bólusetningu. Þá hafa börn sem tóku ákvörðun um að fara ekki í bólusetningu fundið fyrir fordómum í þeirra garð. Bent var á að það væri ósanngjarnt að sumir hafi fengið tvær eða þrjár bólusetningar þegar stór hluti heimsbyggðarinnar hafi enn ekki fengið neina bólusetningu. Eins og fram hefur komið urðu sum barnanna fyrir vonbrigðum með að smitast af kórónuveirunni þrátt fyrir bólusetningu.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Ég fann ekki fyrir miklum kvíða yfir því að veikjast en þegar okkur var boðið upp á bólusetningu fannst mér það mjög áhyggjufullt. Ég var hrædd þar sem ég hafði heyrt allskonar sögur um bólusetninguna, flestar eitthvað bull en samt var ég kvíðinn yfir því þar sem sumir voru að mótmæla henni. Ég fékk samt bólusetningu á endanum og er núna tví bólusett.“

„Ég fékk mér bólusetningu strax þegar ég gat, og það var frekar skrítið process en ég var mjög feginn að ég fékk það. Mér leið svolítið eins og eitthvað vélmenni í verksmiðju þegar það var verið að sprauta mig. Seinna meir var ég frekar vonsvikinn hversu illa bólusetningarnar virkuðu en síðan fattaði ég að það verndar man kannski ekki fyrir sjúkdómnum maður verður kannski ekki jafn veikur.“

„Að fara í COVID bólusetningu var eitt af því furðulegasta sem ég hef gert að setja inn í einhverjum sal með fullt af krökkum að bíða eftir að einhver myndi stinga þér með nál. Ég varð líka veik eftir bólusetninguna.“

„Mér finnst gott að það er komið bóluefni og gott að flestir eru með það. Ég fann ekkert fyrir sprautunni fara inn en ég fann mjög mikið fyrir henni eftir að ég fékk hana.“

„Sjálf er ég óbólusett og hef fundið fyrir kannski smá svona neikvæðum skoðunum sem mér finnst ömurlegt.“

„Ég ákvað að láta ekki bólusetja mig þar sem að það eru fleiri börn að díla við aukaverkanir af bólusettningunum heldur en COVID sjálfu. Það er stór hópur fólks sem reynir endalaust að tjá sig um aukavekanir sínar eftir bólusetningarnar og eru endalaust ignoruð en um leið og um er að ræða aukaverkanir af COVID þá eru allir til í að fjalla um það eins og ekkert sé. Þetta finnst mér mjög spes. Ég hef mjög sterka skoðun á þessu bara vegna þess að ég þekki til svo margra sem eru að díla við þetta eftir bólusetninguna. Annars er mér alveg sama hvað fólk ákveður að setja i líkamann sinn, það kemur mér ekkert við, en við skulum amk tala um báðar hliðar á málinu.“

„Ég var mjög glöð að verða bólusett af því mér leið verndaðri og ég komst til útlanda.“

„Þessa bólusetningar eru svolítið ógnvekjandi, fyrst áttu veikir að fara í eina sprautu, sem virkaði ekki svo allir voru sendir í tvær og núna er komin þriðja sprautan. Getur ekki bara allt orðið venjulegt aftur.“

„Mér finnst til dæmis klikkað að sumir eru komnir með 2-3 sprautur þegar en mörg hundruð milljónir eru ekki einu sinni búin að fá séns að fá fyrstu.“

„Ég er búinn að fá tvær bólusetningar og ég hef ekki fengið neina alvarlega eftir verki frá þeim, bara smá verki í vöðvum og beinum og smá hausverk sem fór innan við nokkra daga.“


Mynd með færslu


Skólinn og tómstundir

Heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á skólagöngu barna og ungmenna en sóttvarnaráðstafanir hafa verið í gildi stóran hluta af skólagöngu margra nemenda. Þau börn sem voru að hefja nám í áttunda bekk þegar heimsfaraldurinn hófst, lýstu yfir óánægju með það hversu mikil áhrif sóttvarnaráðstafanir höfðu á nám þeirra og starfsemi skólanna, sum ungmenni voru hrædd um að vera ekki nógu vel undirbúin undir það að fara í menntaskóla. Þá hafi þessar ráðstafanir einnig haft umfangsmikil áhrif á félagslíf þeirra sem hafi verið verulega takmarkað í rúmlega tvö ár. Fram kom að það hafi verið erfitt að laga sig að breyttum aðstæðum en sóttvarnaráðstafanir hafi tekið stöðugum breytingum og um leið og þau hafi vanist ákveðnu fyrirkomulagi hafi því verið breytt. 

Líkt og í fyrri frásögnum kom fram að það hafi fyrst verið spennandi og gott að þurfa ekki að mæta í skólann eða að skóladagurinn væri styttri en vanalega. Það hafi hins vegar orðið leiðinlegt nokkuð fljótt og þá hafi þau saknað þess að hitta alla vini sína í skólanum. Einnig hafi verið erfitt að læra mikið heima. Greint var frá því að minni áhersla hafi verið lögð á námið í skólanum og að ekki hafi verið gerðar jafn miklar kröfur til nemenda. Mikið var talað um þá ráðstöfun að skipta skólanum upp í minni hópa en nemendum var ráðið frá því að umgangast samnemendur sem voru ekki með þeim í hóp. Þá lýstu börnin yfir óánægju með það hve lengi hafi ekki verið hægt að stunda tómstundir.

Frásagnir

Frásagnir frá börnum og ungmennum

„Þegar það var samkomubann og skólinn var skrítin. það var mjög skrítið að þurfa að vera með grímu í skólanum og ekki mega sitja við hliðin á neinum. Það var stundum mjög einmanalegt. Mér fannst stundum bara fínt að vera hálfan daginn í skólanum. En ég var mjög mikið með fjölskyldunni minni sem var fínt en ég var byrjuð að fá smá leið á þeim. En síðan það var þetta allt bara frekar stressandi.“

„Í byrjun faraldursins hér á landi var ég í 8. bekk og við vorum send heim í nokkrar vikur í fjarnám. Það var mikið öðruvísi en að læra í skóla, athyglin var ekki eins mikið á náminu og námið sjálft var afslappað.“

„Stuttu eftir skíðaferðina var skólastarfsemi minnkuð í mínum skóla. Við mættum þá á öðrum hverjum degi í skólann og vorum bara til hádegis Til að byrja með fannst mér það bara fínt að vera minna í skólanum, en ég var frekar óvanur að læra mikið heima þannig að það var oft erfitt fyrir mig að taka upp bækurnar mínar og byrja. Það leið líka ekki langur tími þangað til að ég byrjaði að sakna þess að vera í frímínútum í skóla og að hitta vini mína almennt“

„Það var samt frekar pirrandi hversu óstöðugt þetta var vegna bylgjanna. Þegar maður var nýbúin byrjaður að venjast venjulega skólalífsins aftur þar sem maður flakkaði milli stofa og mætti reglulega kom ný bylgja.“

„Þegar Covid-19 faraldurinn skall á var ég 14 ára. Ég var mjög spennt að fá frí skólanum í nokkrar vikur. Eftir viku af fríi vegna COVID var ég orðin þreytt á því og vildi fara aftur í skólann, vildi hitta ömmu og afa og var stanslaust að kíkja inná covid.is að fylgjast með smitum.“

„Mér fannst þetta hafa mikil áhrif á lærdóm minn og hvernig ég er undirbúin fyrir menntaskóla. Ég missti af mikið af skóla og fannst ég læra mun minna en ég ætti. Mér fannst hafa getið skipulagt skólann aðeins meira og námið sem er að færa okkur vegna þetta er mikilvægt fyrir okkur. Mér langaði að hafa lært meira þar sem við fórum varla i skólann eða lærðum ekkert heima á einum tímapunkti“

„Það var tekið af mér æfingar sem mér fannst mjög erfitt og hafði neikvæð áhrif á mig. Ég fékk þunglyndi og er enn að glíma við það. Mér leið illa og hafði það mjög erfitt bæði félagslega og líkamlega séð. Ég átti ekki mikið af vinum og þess vegna var ég eiginlega alveg ein í þessu hafði engan til að vera með og leið illa.“

„Núna er COVID mjög alvarlegt á Íslandi og við þurfum að skipta bekkjunum í tvennt og sumir geta ekki hitt vini sína í skólanum þess vegna.“

„Við höfum þurft að vera í hópum í skólanum og ekki fengið að mæta á æfingar og ekki gera hluti sem var hægt að gera áður og þetta er mjög leiðinlegt.“

„En sem betur fer þá byrjaði skólinn aftur en núna var hann orðinn svo skrítinn, ég mátti bara vera öðru megin í skólanum, það voru engin skemmtileg hópverkefni, við vorum í skólanum svo stutt og fengum mikla heimavinnu.“


börn við vatn



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica