Innleiðing barnasáttmálans

Niðurstaða könnunar 2022

  • barn á hlaupahjóli

Upplýsingar um stöðu á innleiðingu barnasáttmálans hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum í lok árs 2022 

Umboðsmaður barna - 24. apríl 2023

Inngangur

Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, skal umboðsmaður vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Umboðsmanni barna ber jafnframt að fylgjast með þróun og túlkun barnasáttmálans og því að hann sé virtur sbr. 3. gr. laga nr. 83/1994. Mikilvægur þáttur í innleiðingu barnasáttmálans er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn. Þekking á sáttmálanum er jafnframt grundvallarforsenda þess að réttindi barna séu virt í framkvæmd.

Í október 2022 sendi umboðsmaður barna bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana, með beiðni um þátttöku í könnun um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013. Þetta er í annað sinn sem könnunin er framkvæmd en það var fyrst gert í janúar 2020. Meginmarkmið þessarar könnunar er að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn. Markmiðið er jafnframt að fá yfirlit yfir þekkingu og vitund starfsmanna um sáttmálann og þau réttindi sem þar er kveðið á um. Könnunin er einnig liður í því að meta ávinninginn af lögfestingu barnasáttmálans. Með því að endurtaka könnunina með reglubundnum hætti verður hægt að bera saman niðurstöður og leggja mat á þær breytingar sem verða á starfsemi stofnana og ráðuneyta er miða að innleiðingu barnasáttmálans.

Bréf sent til allra ríkisstofnana þann 13. október 2022

Efni: Innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Sem aðili að barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, ber íslenska ríkinu að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum komi til framkvæmda, en kveðið er á um það í 4. gr. sáttmálans.

Samkvæmt lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna, ber umboðsmanni barna að stuðla að því að barnasáttmálinn sé virtur og vinna að því að tryggja þátttöku barna í allri stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum barna hjá ríki og sveitarfélögum.

Áframhaldandi innleiðing barnasáttmálans er viðvarandi verkefni sem krefst þess að allar stofnanir sem aðkomu hafa að málefnum barna með einum eða öðrum hætti eða vinna að málefnum sem börn láta sig varða, vinni að því að bæta aðgengi barna að þjónustu og upplýsingum og tryggi nauðsynlega þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og stefnumótun þar sem við á. Umboðsmaður barna hyggst því afla upplýsinga um þær aðgerðir sem ráðuneyti og stofnanir hafa gripið til í því skyni að innleiða barnasáttmálann í starfsemi sinni, til þess að unnt sé að leggja mat á stöðu innleiðingar sáttmálans og þörfina á frekari aðgerðum.

Þess er því farið á leit að stofnunin geri grein fyrir þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til og sem miða að því að innleiða barnasáttmálann í starfseminni með því að svara rafrænni könnun á meðfylgjandi hlekk. Má þar sem dæmi nefna kynningarstarf fyrir börn, aðgengi að barnvænum upplýsingum á t.d. heimasíðu, aðgerðir sem miða að því að gera húsnæði eða þjónustu viðkomandi stofnunar aðgengilegri fyrir börn, þær leiðir sem farnar hafa verið í samráði við börn, upplýsingar um fræðslu til starfsmanna um réttindi barna og barnasáttmálann og þjálfun starfsmanna í að vinna með og eiga í samskiptum við börn og hvort stofnunin leggi sérstaklega mat á áhrif tillagna, breytinga eða annarra aðgerða á börn.

Embætti umboðsmanns barna hyggst gera grein fyrir niðurstöðunum í skýrslu og þá verður niðurstöðunum fylgt eftir með frekari könnunum á næstu árum til þess að fylgjast með framþróuninni. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2020, en niðurstöður hennar má nálgast hér.

Tekið skal fram að samkvæmt 5. gr. laga um umboðsmann barna er stjórnvöldum skylt, þrátt fyrir þagnarskyldu, að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Þess er óskað að svar við ofangreindri könnun berist embætti umboðsmanns barna ekki síðar en 15. nóvember. Embættið er reiðubúið að aðstoða stofnanir við að leggja mat á innleiðingu barnasáttmálans og/eða veita starfsmönnum fræðslu um inntak hans.


Samantekt og helstu niðurstöður

Könnunin var send til 152 stofnana en af þeim voru 89 sem svöruðu könnuninni. Fleiri svör bárust þegar könnunin var lögð fyrir árið 2020 en þá var hún send til 155 stofnana og bárust 132 svör. Umboðsmaður barna vill færa sérstakar þakkir til ríkisstofnana fyrir þátttökuna og til starfsfólks þeirra sem veittu verkefninu liðsinni sitt með því að svara könnuninni.

Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að áhuga er að finna meðal stofnana og ráðuneyta að taka næstu skref í innleiðingu barnasáttmálans og að ákall er eftir fræðslu og leiðbeiningum sem gera þeim kleift að stíga þau skref. Embætti umboðsmanns barna mun m.a. bregðast við því ákalli með því að gefa út leiðbeiningar um hvernig eigi að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu þegar taka á ákvörðun eða ráðast á í aðgerðir sem varða börn, með beinum eða óbeinum hætti. Þá mun umboðsmaður veita stofnunum fræðslu um notkun leiðbeininganna.

Samkvæmt 3. gr. barnasáttmálans ber ávallt að leggja mat á það hvað er barni fyrir bestu við alla ákvarðanatöku eða ráðstafanir sem varða börn. Það ber að gera óháð því hvort áhrifin eru bein eða óbein. Mat á því sem er barni fyrir bestu á ávallt að liggja til grundvallar ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera.

Könnunin virðist hafa vakið starfsfólk margra stofnana til umhugsunar um þá þætti starfseminnar sem snúa beinlínis að börnum eða varða þau með óbeinum hætti og er það afar jákvætt. Í einhverjum tilvikum gáfu svör til kynna að könnunin hafi þegar orðið hvati að umræðum hjá stofnunum um frekari aðgerðir sem miða að innleiðingu barnasáttmálans og aukinni þátttöku barna.

ungt fólk að mynda hjörtu með höndunum

Ljóst er að niðurstöður könnunarinnar gefa tilefni til að taka sérstaklega til skoðunar tiltekna þætti eins og fræðslu til starfsfólks og forsvarsmanna stofnana um barnasáttmálans. Þá er einnig brýnt að efla þjálfun starfsfólks í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn, sem er einn lykilþáttur í áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans.

Það þarf að vinna að innleiðingu barnasáttmálans með samræmdum og markvissum hætti. Þá þarf að leita frekari leiða til samstarfs og innleiða þarf ferla og verklagsreglur sem tryggja að ávallt fari fram mat á hagsmunum barna þegar við á og að þátttaka þeirra sé tryggð í málum sem varðar þau. Embætti umboðsmanns barna hyggst fylgja þessari skýrslu eftir með áframhaldandi samtali við ríkisstofnanir. Könnunin verður framkvæmd með reglubundnum hætti til þess að hægt sé að fylgjast með innleiðingu barnasáttmálans og leggja mat á nauðsynlegar aðgerðir.

Málefnasvið stofnana og málefni barna

Í könnuninni voru stofnanir beðnar um að svara því hvort málefni barna væru hluti af málefnasviði viðkomandi stofnunar. Af þeim 89 stofnunum sem svöruðu töldu 55 (62%) að svo væri, 32 (36%) svöruðu því neitandi og 2 (2%) stofnanir áttu erfitt með að leggja mat á það hvort málefni barna væru hluti af málefnasviði þeirra. Sjá mynd 1.0.

Mynd 1.0 málefnasvið

Mynd 1.0: Eru málefni barna hluti af málefnasviði stofnunarinnar?

Tilgangur þessarar spurningar er m.a. að hvetja stofnanir til þess að taka til skoðunar hvaða málefni á þeirra starfssviði varða börn. Það er ekki alltaf augljóst með hvaða hætti ákveðin málefni varða börn en það er mikilvægt að hafa í huga að flest málefni samfélagsins hafa áhrif á börn með beinum eða óbeinum hætti.

Samkvæmt 12. gr. barnasáttmálans skulu aðildarríki hans tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska barnsins.

Þegar barnasáttmálinn var saminn var því hafnað að takmarka mál sem varða börn samkvæmt 12. gr. við tiltekna málaflokka. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með framkvæmd barnasáttmálans og veitir leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd hans, lýsti því yfir í almennri athugasemd nefndarinnar nr. 12, að með málum sem varða börn sé ekki eingöngu átt við þau málefni sem fjallað er um í barnasáttmálanum. Því eiga aðildarríki sáttmálans að leita eftir sjónarmiðum barna í öllum málum þar sem reynsla þeirra og innsýn geta bætt gæði lausna eða ákvarðana, enda felast miklir möguleikar til framþróunar og nýsköpunar í þátttöku barna.

Þekking á efni barnasáttmálans

Spurt var um það hvort góð þekking væri hjá viðkomandi stofnun á efni barnasáttmálans. Af þeim sem svöruðu voru 8% mjög sammála því að góð þekking væri hjá stofnuninni á efni barnasáttmálans, 34% voru sammála, 45% svöruðu hvorki né, 13% voru ósammála og 2% mjög ósammála. Sjá mynd 1.1.

Mynd 1.1 þekking

 

Mynd 1.1: Hjá stofnuninni er góð þekking á efni barnasáttmálans.

Af svörunum má ráða að almennt er takmörkuð þekking til staðar meðal starfsfólks ríkisstofnana um barnasáttmálann og þau réttindi sem þar er fjallað um. Í svörum stofnana við opnum spurningum könnunarinnar má greina skýran áhuga á því að bæta þekkingu starfsmanna á þessu sviði sem er afar jákvætt. Ein mikilvægasta forsenda þess að barnasáttmálinn verði innleiddur á öllum stigum stjórnsýslunnar er að starfsfólk stofnana þekki efni hans og þær skyldur sem hann leggur á aðildarríkin. Einnig þarf að tryggja að starfsfólk fái leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd hans.

börn að leika sér

Aðildarríkjum barnasáttmálans ber að skila skýrslu til barnaréttarnefndarinnar um innleiðingu sáttmálans. Í kjölfarið gefur nefndin út lokaathugasemdir þar sem farið er yfir þau atriði sem nefndin telur að þurfi að bæta til þess að ríki geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til Íslands vegna 5 og 6 skýrslu Íslands til nefndarinnar vekur nefndin athygli á nauðsyn þess að tryggja markvissa fræðslu um réttindi barna til faghópa sem starfa með börnum eða í þágu þeirra. Hafa þarf í huga að barnasáttmálinn er lifandi plagg sem ber að túlka til samræmis við það. Þá þarf að efla meðvitund stofnana um þær leiðbeiningar sem er að finna í almennum athugasemdum barnaréttarnefndarinnar um framkvæmd sáttmálans sem og niðurstöðum nefndarinnar í kærumálum samkvæmt þriðju valfrjálsu bókuninni við barnasáttmálann.

Mynd 1.2 Fræðsla og kynning

Mynd 1.2: Starfsmenn hafa fengið fræðslu eða kynningu á efni barnasáttmálans.

Spurt var að því hvort starfsmenn hafi fengið fræðslu eða kynningu á efni barnasáttmálans. Hjá 16 (18%) stofnunum höfðu starfsmenn fengið slíka fræðslu, hjá 65 (73%) hafði slík fræðsla ekki farið fram og hjá 8 (9%) stofnunum var ekki vitneskja um það. Sjá mynd 1.2. Það er ljóst að þörf er á aukinni fræðslu til fagstétta sem vinna með börnum en einnig þarf að huga að því hvernig standa megi að sífræðslu starfsfólks stofnana.

Mynd 1.3 þjálfun starfsfólks

Mynd 1.3: Starfsmenn hafa fengið þjálfun í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn.

Spurt var að því hvort starfsmenn hafi fengið þjálfun í að vinna með og eiga í samskiptum við börn. Yfirgnæfandi meirihluti stofnana svaraði því til að starfsfólk hafi ekki fengið slíka þjálfun eða 59 (66%) stofnanir, hjá 28 (31%) stofnunum hafði starfsfólk fengið þjálfun í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn en hjá 2 (2%) stofnunum var ekki vitneskju um þetta atriði. Sjá mynd 1.3.

Til þess að hægt sé að auka samráð við börn og þátttöku þeirra í stefnumótun og ákvarðanatöku í málum sem varðar þau, þarf starfsfólk að fá þjálfun í því að vinna með börnum og eiga í samskiptum við þau. Umboðsmaður barna setti fram tillögur til úrbóta á þessu sviði í skýrslu um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku, sú skýrsla er aðgengileg á vefsíðu embættisins, barn.is.

Mynd 1.4. áhugi á kynningu

Mynd 1.4: Er áhugi á að fá frekari kynningu á efni barnasáttmálans?

Stór hluti svarenda lýsti yfir áhuga á því að fá kynningu á efni barnasáttmálans eða 60 (67%) stofnanir, sem er ánægjulegt og því ljóst að meirihluti stofnana telur efni barnasáttmálans eiga erindi til starfsmanna. Af niðurstöðum könnunarinnar má jafnframt ráða að mikil eftirspurn er eftir fræðsluefni fyrir aðila sem vinna með börnum. Það þarf að taka til skoðunar hvernig hægt er að bæta framboð af aðgengilegu og fjölbreyttu fræðslu- og upplýsingarefni fyrir starfsfólk stofnana um barnasáttmálann og réttindi barna.

Aðgengi

Húsnæði stofnana

Af framkomnum svörum má ráða að stofnanir eru almennt staðsettar í húsnæði sem er aðgengilegt börnum og að hugað hefur verið að því að gera húsnæðið barnvænt með ýmsum hætti. Aðeins 5% stofnana töldu húsnæði stofnunarinnar óaðgengilegt börnum, en ekki er fyllilega ljóst hvernig sá skortur á aðgengi lýsir sér. Aðgengi barna í víðu samhengi er ein af meginreglum barnasáttmálans. Taka þarf til skoðunar hvort gátlisti fyrir barnvænt aðgengi geti auðveldað stofnunum að verða aðgengilegri. Með því að tryggja aðgengi barna senda stofnanir þau skilaboð til barna að ekki sé aðeins gert ráð fyrir þeim heldur séu þau jafnframt velkomin.

Mynd 1.5 Húsnæði

Mynd 1.5: Húsnæði stofnunarinnar er aðgengilegt fyrir börn.

Vefsíða og kynningarefni

Samkvæmt 12. gr. barnasáttmálans eiga börn rétt á upplýsingum við hæfi sem er jafnframt ein af nauðsynlegum meginforsendum fyrir þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum sem varðar þau. Til þess að það sé mögulegt, þurfa stofnanir að taka upplýsingastefnu sína til endurskoðunar, út frá hagsmunum og þörfum barna.

stelpa með síma

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru einungis 11% stofnana með texta á vefsíðum sínum sem er á einföldu máli sem börn skilja. Þá hafa einungis 18% stofnana gefið út kynningarefni sem er barnvænt. Við vinnslu og framsetningu kynningar- og fræðsluefnis sem og efni á vefsíðum stofnana, þarf að huga að því að gera í það minnsta hluta efnisins aðgengilegt börnum. Það er liður í því að börn geti sjálfstætt og á eigin forsendum leitað sér upplýsinga um eigin réttindi, þjónustu og önnur tiltæk úrræði. Þá ber að líta til þess að upplýsingaefni sem er á einföldu og auðskildu máli nýtist jafnframt öðrum hópum og því getur ávinningurinn af því að setja fram efni með þessum hætti orðið margfaldur.

Mynd 1.6 vefsíða

Mynd 1.6: Vefsíða stofnunarinnar er á einföldu máli sem börn skilja.

Mynd 1.7 Kynningarefni stofnunar

Mynd 1.7: Kynningarefni stofnunarinnar er barnvænt.

Mat á áhrifum á börn

Í könnuninni voru stofnanir spurðar að því hvort lagt væri sérstaklega mat á áhrif tillagna eða aðgerða á börn. 52% svarenda sögðu stofnunina framkvæma slíkt mat, 42% sögðu það ekki vera gert og 8% vissu það ekki. Sjá mynd 1.8.

mynd 1.8 mat á áhrifum


Mynd 1.8: Leggur stofnunin sérstaklega mat á það hvaða áhrif tillögur hennar eða aðgerðir hafa á börn?

Samkvæmt barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna er þörf á því að meta með kerfisbundnum hætti áhrif lagafrumvarpa, stefna eða ráðstafana opinbers fjármagns á börn. Mat á áhrifum á börn er jafnframt liður í því að meta stöðu innleiðingar barnasáttmálans. Þar af leiðandi þarf að festa slíkt ferli í sessi á öllum stigum stjórnsýslunnar og matið þarf ávallt að fara fram á fyrstu stigum umræðu eða ákvarðanatöku.

súperhetja

Árið 2013 gaf barnaréttarnefndin út almenna athugasemd nr. 14 sem fjallar um 3. gr. sáttmálans og meginregluna um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Þar kemur fram að ákvarðanataka sem varðar barn, hóp barna eða börn almennt, á að byggja á mati á mögulegum áhrifum á það barn eða þau börn sem um ræðir. Þar kemur fram að til að tryggja að bestu hagsmunir barna séu í forgangi við setningu löggjafar, mótun stefnu og veitingu þjónustu á öllum stigum, þurfi að vera til staðar viðvarandi ferli um mat á áhrifum á börn, til þess að unnt sé að sjá fyrir áhrif tillagna á börn og tryggja að þau eigi möguleika á að njóta réttinda sinna.

Mat á því sem er barni fyrir bestu

Í lokaathugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til Íslands vegna 5 og 6 skýrslu íslands til nefndarinnar kemur fram að þó 3. gr. sáttmálans hafi verið lögfest hafi nefndin áhyggjur af ómarkvissri beitingu þessarar grundvallarreglu við meðferð mála hjá stjórnsýslunni og dómstólum. Þá skorti einnig fullnægjandi þekkingu á reglunni meðal starfsfólks sem vinnur með börnum.

Samkvæmt 3. gr. barnasáttmálans ber ávallt að leggja mat á það hvað er barni fyrir bestu við alla ákvarðanatöku eða ráðstafanir sem varða börn. Það ber að gera óháð því hvort áhrifin eru bein eða óbein. Mat á því sem er barni fyrir bestu á ávallt að liggja til grundvallar ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera. Slíkt mat ber að framkvæma áður en ráðist er í aðgerðir sem varða börn með einum eða öðrum hætti.

Með það að markmiði að auka þekkingu innan stjórnsýslunnar á 3. gr. barnasáttmálans og auðvelda starfsfólki að leggja mat á það sem er barni fyrir bestu mun embætti umboðsmanns barna gefa út leiðbeiningar um hvernig eigi að framkvæma mat á því sem er barni fyrir bestu þegar taka á ákvörðun eða ráðast á í aðgerðir sem varða börn, með beinum eða óbeinum hætti. Þá mun umboðsmaður veita stofnunum fræðslu um notkun leiðbeininganna.

Innleiðing barnasáttmálans í starfsemi stofnana

Í almennri athugasemd barnaréttarnefndarinnar nr. 5, um almennar aðgerðir við innleiðingu barnasáttmálans, er fjallað um þær ráðstafanir sem aðildarríkjum ber að grípa til við innleiðingu sáttmálans þannig að börn fái notið til fulls þeirra réttinda sem hann tryggir þeim. Meðal þeirra aðgerða sem þar er fjallað um er lagasetning, stofnun samhæfingar- og eftirlitsaðila, söfnun tölfræðiupplýsinga, þjálfun og fræðsla til starfsfólks sem vinnur með og fyrir börn, og innleiðing barnvænnar stefnu, þjónustu og aðgerðaáætlunar. Meðal þeirra aðgerða sem nefndin telur að hafi verið hvað árangursríkastar við innleiðingu barnasáttmálans er að fjölbreyttar stofnanir ríkis og sveitarfélaga vinni samkvæmt barnvænni hugmyndafræði og leggi sérstaka áherslu á börn í allri sinni starfsemi.

Hefur stofnunin gripið til ráðstafana með það markmið að innleiða barnasáttmálann?

Af þeim 60 stofnunum sem svöruðu þessari spurningu höfðu 36 þeirra ekki gripið til sérstakra ráðstafana sem stuðla að innleiðingu barnasáttmálans í viðkomandi starfsemi. Algengt var að vísað væri til þess að starfsemi stofnunarinnar varðaði ekki málefni barna. Alls greindu 24 stofnanir frá því að gripið hafi verið til einhverra aðgerða sem miði að innleiðingu barnasáttmálans. Var þar um mismunandi umfangsmiklar og markvissar aðgerðir að ræða. Í sumum tilvikum hafði verið gripið til aðgerða sem ætlað er að tryggja aðgengi barna að viðkomandi stofnun og að börn fái að tjá sig. Nokkrar stofnanir greindu frá því að það væri almennt tekið mið af ákvæðum barnasáttmálans í starfsemi stofnunarinnar þó hann hafi ekki verið innleiddur með formlegum hætti. Fram kom að þó barnasáttmálinn hafi ekki verið formlega innleiddur væru starfsmenn meðvitaðir um þarfir barna og áhersla hafi verið lögð á að gera allt innra umhverfi stofnunarinnar barnvænt.

Af svörum stofnana við því hvort gripið hafi verið til ráðstafana með það að markmiði að innleiða barnasáttmálann má ráða að almennt hafa stofnanir ekki gripið til formlegra aðgerða með markvissum hætti. Lítil breyting er á svörum stofnana frá því árið 2020. Þá svöruðu 75 stofnanir þessari spurningu og af þeim greindu 21 frá því að gripið hafi verið til ráðstafana, með einhverjum hætti, sem miði að innleiðingu barnasáttmálans. Það er ljóst að þörf er á að stofnunum sé gerð grein fyrir því að þeim beri skylda til þess að innleiða barnasáttmálann með markvissum hætti og að veita þarf stofnunum fræðslu og leiðbeiningar um það hvernig þær geti unnið að innleiðingunni. Af framkomnum svörum má greina vilja forsvarsmanna og starfsfólks stofnana til úrbóta og er það jákvætt.

Börn við vatn

Til Hvaða ráðstafana hefur stofnunin gripið til?

Dæmi um svör

  • Verið er að leggja aukna áherslu á Barnasáttmálann og að stofnunin sé barnvæn. Verið er að stefna að því að leitast eftir ráðgjöf frá börnum og jafnvel að stofna ráðgjafahóp vegna innleiðingar á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.
  • Nei, Barnasáttmálinn hefur ekki verið innleiddur með formlegum eða sérstökum hætti í starfseminni. Hins vegar hefur embættið á liðnum árum gripið til ýmissa aðgerða í því skyni að gera þjónustu embættisins aðgengilegri fyrir börn
  • Nei ekki sérstaklega en stofnunin á að þjónusta börn og gerir það.
  • Stofnunin hefur sett sér ákveðnar verklagsreglur sem stuðst er við þegar unnið er með ákvarðanir er varða börn.
  • Nei, en við höfum óskað eftir fræðslu og viljum gera vel.

Samráð við börn

Réttur barna til að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós í öllum málum sem þau varða, er ein af grunnreglum barnasáttmálans, sem taka þarf tillit til, er til álita koma önnur ákvæði sáttmálans. Samkvæmt almennri athugasemd barnaréttarnefndarinnar nr. 12., eiga aðildarríki að hvetja börn til þess að mynda sér skoðanir og ber að búa börnum aðstæður og umhverfi sem styður við rétt barna til þess að láta í ljós skoðanir sínar. Það er skylda aðildarríkja að viðurkenna þennan rétt barna og stuðla að því að hann sé virtur með setningu eða endurskoðun laga þar að lútandi.

Mynd 1.9 samráð við börn

Mynd 1.9: Hefur stofnunin haft samráð við börn í sínu starfi?

Spurt var að því hvort stofnunin hafi haft samráð við börn í sínu starfi. 39% (34) sögðu samráð hafa farið fram, 55% (48) svöruðu að það hafi ekki verið gert en 7% (6) vissu það ekki. Í könnuninni gafst stofnunum tækifæri til þess að veita nánari upplýsingar um þær aðferðir sem nýttar hafa verið til samráðs við börn en greint var frá fjölbreyttum leiðum. Af framkomnum svörum að dæma er algengara að samráð sé haft við börn í einstaklingsmálum sem varða þau með beinum hætti en hvað varðar almenna starfsemi stofnunarinnar og þá þjónustu sem þar er veitt. Þó voru nokkrar stofnanir sem greindu frá því að samráð hafi verið haft við börn við gerð kynningar- og fræðsluefnis. Þá höfðu stofnanir farið mismunandi leiðir við samráð. Var þar m.a. nefnt rafrænt samráð, samráðsfundir, fókushópar/rýnihópar, samstarf við grunnskóla, félagasamtök, ungmennaráð og ráðgjafarhópa. Greint var frá fjölbreyttu kynningarstarfi stofnana fyrir börn og ungmenni og ljóst að nokkur áhersla er lögð á að fræða og virkja börn með fjölbreyttum leiðum sem er jákvætt. Það er ljóst að lítið er um virkt og raunverulegt samráð við börn og úr því þarf að bæta.

Hvaða leiðir hefur stofnunin nýtt til þess að eiga samráð við börn?

Dæmi um svör

  • Við útgáfu kynningarefnis var haft óformlegt samráð við börn um hvernig efni þau teldu að væri hentugast og þau fengin til að lesa yfir texta í kynningarefni(bæklinga o.fl.). Einnig hefur verið litið til þess sem hefur komið frá ráðgjafarhóp umboðsmanns barna, m.a. á málþingi.
  • Á námskeiðum sem við höfum boðið upp á fyrir börn þá höfum við leyft þeim að hafa áhrif á hvaða málefni eru tekin fyrir. En við viljum gjarnan vera í meira samráði við börn.
  • Stofnunin hefur nýtt fjölda leiða, rafrænt samráð, stærri samráðsfundi, fókushópa, samstarf við ungmennaráð sveitarfélaga og félagasamtaka og samstarf við grunnskóla.
  • Í nokkrum tilfellum hafa verið stofnaðir rýnhópar með börnum

 


Stofnunum var einnig veitt tækifæri til þess að greina frá því hvort þær hafi í hyggju að leita samráðs við börn. Svörin gefa til kynna að margar stofnanir hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort framvegis verði leitað samráðs við börn en fram kom í þó nokkrum tilvikum að vonir stæðu til þess að það yrði gert og að áhuginn væri til staðar. Nokkrar stofnanir svöruðu því með afgerandi hætti að það stæði til að hafa samráð við börn. Á meðan aðrar tóku fram að þær hefðu ekki í hyggju að leita samráðs við börn. Hér ber til þess að líta að starfssvið þeirra stofnana sem um ræðir er afar fjölbreytt, og því ekki víst að samráð við börn eigi við í öllum tilvikum.

Hvaða LEIÐIR HEFUR STOFNUNIN NÝTT TIL ÞESS AÐ EIGA SAMRÁÐ VIÐ BÖRN?

Dæmi um svör

  • Gagnlegt væri að leita álits barna á þjónustunni.
  • Nei höfum ekki hugsað það en gæti verið áhugavert, höfum tekið virkan þátt í norrænu samstarfi við hönnun á fræðsluefni fyrir börn í efstu bekkjum grunnskóla, mér er ekki kunnugt um hvort þar var haft samráð við ætlaðan notendahóp.
  • Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um það en hins vegar væri ágætt að fá leiðbeiningar frá umboðsmanni barna um í hverju slíkt samráð gæti falist.
  • Ekki eru áform um slíkt sem stendur. Samstarf og aukið samráð við önnur stjórnvöld og aðila sem fara með málefni barna er hins vegar meðvitað og vaxandi.

Með þátttöku barna er hægt að bæta þjónustu og tryggja snemmtæka íhlutun í málum barna, á þeirra forsendum, sem leiðir til hagkvæmari lausna, betri meðferðar á opinberu fjármagni og þar með til betri árangurs. Embætti umboðsmanns barna mun halda áfram að vinna að því að þátttaka barna sé tryggð í öllum málum sem þau varðar í samræmi við 12. gr. barnasáttmálans.

Annað

Í lok könnunarinnar gafst stofnunum færi á því að koma á framfæri athugasemdum um könnunina og innleiðingu barnasáttmálans. Þar kom fram að þörf væri á fræðslu fyrir starfsfólk stofnana um efni barnasáttmálans. Þá voru aðrar stofnanir sem þökkuðu fyrir áminninguna og áréttuðu að starfsmenn séu boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum til að vinna áfram að málefnum barna. Umboðsmaður barna þakkar fyrir framkomnar athugasemdir og þann áhuga og samstarfsvilja sem þar má greina.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Dæmi um svör

  • Það mætti kynna samninginn um réttindi barnsins mun betur efnislega fyrir stofnunum.
  • Könnunin ýtir við okkur og við þökkum fyrir það.
  • Gott væri að fá kynningu á barnasáttmálanum.
  • Já, við höfum óskað eftir fræðslu frá umboðsmanni barna en ekki fengið. Við viljum að sjálfsögðu gera betur. Sáttmálinn er til á íslensku táknmáli og þýddur af starfsfólki Samskiptamiðstöðvar. Við viljum gjarnan fá fræðslu um hvernig við eigum að snúa okkur í því að gera svo vel sé.

Viðauki - spurningar

Bakgrunnsspurningar:

1. Nafn stofnunar.

2. Nafn þess sem svarar.

3. Netfang.

4. Eru málefni barna hluti af málefnasviði stofnunarinnar?

Almenn þekking:

5. Hjá stofnuninni er góð þekking á efni Barnasáttmálans.

6. Starfsmenn hafa fengið fræðslu eða kynningu á efni Barnasáttmálans.

7. Starfsmenn hafa fengið þjálfun í því að vinna með og eiga í samskiptum við börn.

8. Er áhugi á að fá frekari kynningu á efni Barnasáttmálans?

Aðgengi:

9. Húsnæði stofnunarinnar er aðgengilegt fyrir börn.

10. Vefsíða stofnunarinnar er á einföldu máli sem börn skilja.

11. Kynningarefni stofnunarinnar er barnvænt.

12. Leggur stofnunin sérstaklega mat á það hvaða áhrif tillögur hennar eða aðgerðir hafa á börn?

13. Hefur stofnunin gripið til ráðstafanna með það markmið að innleiða Barnasáttmálann í starfseminni? Ef svo er, hvaða?

Samráð við börn:

14. Hefur stofnunin haft samráð við börn í sínu starfi?

15. Ef já við sp. 14. Hvaða leiðir hefur stofnunin nýtt til þess að eiga samráð við börn?

16. Ef nei við sp. 14. Hyggst stofnunin leita samráðs við börn?

Annað:

17. Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Mynd með frétt


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica