10. júní 2011

„Ekki má gleymast að hlusta á raddir unga fólksins“

Formanni stjórnalagaráðs, Salvöru Nordal, voru nú í hádeginu afhentar niðurstöður frá þingi ungmennaráða um stjórnarskrána sem fram fór í vor. Með þessu gefst stjórnlagaráði einstakt tækifæri til að kynna sér sjónarmið ungmenna á aldrinum 13-18 ára við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

3894476 Gjorningur A Austurvelli 061Skýrsla með niðurstöðum af þingi ungmenna, sem haldið var undir yfirskriftinni Stjórnlög unga fólksins, var afhent Salvöru Nordal, formanni stjórnalagaráðs, í hádeginu í dag. Afhendingin fór fram með táknrænum hætti við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli.  Hildur Hjörvar, formaður ungmennaráðs UNICEF, flutti erindi og viðstöddum var veittur innblástur með útblæstri þegar skilaboðum ungmenna var dreift yfir hópinn.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að stjórnarskráin skiptir verulegu máli og mannréttindakafli hennar er sá mikilvægasti. Forsetinn er mikilvægt sameiningartákn þjóðarinnar en hann má aldrei vera sjálfkjörinn – sitjandi forseti verður því að hljóta ákveðið hlutfall greiddra atkvæða til að ná endurkjöri. Ráðherrar verða að hafa menntun og reynslu á því sviði sem ráðuneyti þeirra annast og auðlindir skulu vera í eigu þjóðarinnar. Ekki má gleymast að hlusta á raddir unga fólksins! 

3894482 Gjorningur A Austurvelli 065Það eru UNICEF á Íslandi, umboðsmaður barna og Reykjavíkurborg sem standa að Stjórnlögum unga fólksins. Verkefnið miðar að því að tryggja að skoðanir barna og ungmenna fái að heyrast og séu teknar til greina við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Gott að búa á Íslandi
Ítrekað kom fram í máli ungmennanna að þau teldu sig heppin að búa hérlendis; hér væru skilyrði barna og ungmenna betri en í flestum öðrum löndum og mannréttindi þeirra væru virt. Lýðræðislegt stjórnarfar væri mikils virði og að því yrði að hlúa.

Einnig þótti flestum  þingfulltrúum stjórnarskráin að grunninum til nokkuð vel úr garði gerð og margir töluðu fyrir endurskoðun, lagfæringum og smávægilegum umbótum fremur en róttækum breytingum. Hins vegar væri endurskoðun tímabær og þyrfti að uppfæra stjórnarskránna og gera nútímalegri, sér í lagi hvað orðalag og framsetningu varðaði.

3894485 Gjorningur A Austurvelli 078Á meðal annarra niðurstaðna eru:

  • Forsetaembættið er eðlilegt fyrirkomulag í lýðræðislegu samfélagi.
  • Neitunarvald forsetans er mikilvægt öryggistæki í stjórnkerfi landsins.
  • Fagleg sjónarmið verða að ráða við skipan ráðherra.
  • Vinskapur, flokkspólitískar ástæður og klíkuskapur mega ekki liggja á bak við skipan ráðherra.
  • Samræma þarf kosningaaldur, sjálfræðisaldur, aldur til áfengiskaupa og giftingaraldur.
  • Tryggja þarf börnum þátttöku í lýðræðislegri umræðu.
  • Skapaður verði markviss og skipulagður vettvangur þar sem ungmenni geta haft áhrif á samfélagið.
  • Stofnað verði Ungmennaráð Íslands sem kæmi að ákvarðanatöku í málefnum sem snerta ungt fólk.
  • Aukið upplýsingaflæði vantar frá Alþingi og beinna samband milli þjóðar og þings.
  • Jafna verður atkvæðavægi.
  • Þjóðin fái að segja sína skoðun í umdeildum og mikilvægum málum sem varða þjóðarhag, til dæmis varðandi inngöngu í Evrópusambandið.
  • Íslenska ríkið framselji ekki ákvörðunarvald sitt til ríkjasambanda.
  • Ítrekaður sé réttur fólks til lífs og frelsis óháð fötlun og kynhneigð.
  • Mörkuð verði skýrari stefna í jafnréttismálum.
  • Réttindi fólks af erlendum uppruna verði betur tryggð.
  • Sjálfkrafa skráning í trúfélag verði afnumin enda samræmist hún ekki ákvæðum um trúfrelsi eða lýðræðislegum gildum.

Taka skal tillit til skoðana barna
Ungmennin töluðu mikið um að þau vildu taka virkan þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins og koma að ákvarðanatöku, sérstaklega í málum sem snerta þau beint. Til hliðsjónar Stjórnlögum unga fólksins er einmitt 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem segir að börn eigi rétt á því að hafa áhrif á mál sem þau varða og að taka skuli tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Nánar má lesa um verkefnið hér og á heimasíðu verkefnisins.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica