28. október 2011

Yfirlýsing Viku 43 - undirritun með velferðarráðherra

Í tilefni af Viku 43, Vímuvarnaviku 2011 hafa fulltrúar tuttugu félagasamtaka, umboðsmaður barna og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirritað yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að réttur barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu sé virtur.

Í tilefni af Viku 43, Vímuvarnaviku 2011 hafa fulltrúar tuttugu félagasamtaka, umboðsmaður barna og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirritað yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að réttur barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu sé virtur. Kveðið er á um þennan rétt barnanna m.a. í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnumörkun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Í yfirlýsingunni er bent á mikilvægi þess að börn og ungmenni hafni neyslu áfengis og annarra vímuefna, enda stafi þeim ýmis hætta af neyslu þeirra. Sterk tengsl séu á milli áfengis- og vímuefnaneyslu annars vegar og ofbeldis, óábyrgs kynlífs, umferðarslysa og ýmissa slysa og óhappa, hins vegar. Einnig er bent á að mörg börn og ungmenni verði einnig fórnarlömb neyslu annarra, innan fjölskyldu sem utan, s.s. vegna vanrækslu, fátæktar, ofbeldis, misnotkunar og sundraðra fjölskyldna.

Það er ósk þeirra sem standa að yfirlýsingunni að fram fari umræða um hvernig þessi réttur barnanna er virtur á ýmsum sviðum samfélagsins, s.s. við stefnumótun og lagasetningu, í uppeldis- og skólastarfi, íþrótta- og tómstundastarfi og hvarvetna þar sem börn koma við sögu.

Vímuvarnavikan – Vika 43 er árlegt samstarfsverkefni fjölmargra félagasamtaka sem starfa að forvörnum, vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns. Vímuvarnavikan í ár er sú áttunda sem efnt er til.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica