5. nóvember 2014

Yfirlýsing um börn og fátækt

Í síðustu viku var haldinn árlegur fundur tengslanets umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC). Fundurinn var að þessu sinni haldinn í Skotlandi. Margrét María Sigurðardóttir sótti fundinn en þar var skipst á upplýsingum og skoðunum um ýmis málefni sem snerta börn. Aðalumræðuefni fundarins var fátækt og áhrif efnahagsþrenginga undanfarinna ára á velferð barna.

Á fundinum var samþykkt yfirlýsing sem er hér birt í lauslegri þýðingu.

Yfirlýsing tengslanets umboðsmanna barna í Evrópu (ENOC) varðandi börn og örbirgð

Við lýsum yfir djúpum áhyggjum af áhrifum fátæktar og örbirgðar á stöðu barna ungs fólks.

Viðbrögð ríkja við nýlegum efnahagsþrengingum hafa haft neikvæð áhrif á lífsgæði og mannréttindi barna. Að búa við fátækt í barnæsku hefur ekki aðeins áhrif á barnæskuna sjálfa og upplifun barnsins á henni, áhrifin teygja anga sína út fyrir barnæskuna og hafa áhrif á lífsgæði á fullorðinsárum. Áhrif fátæktar geta einnig valdið því að barn nær ekki fullorðinsárum vegna ýmiss skorts sem skapast vegna fátæktar í barnæsku.

Á meðan réttindi barna hafa að öllu jöfnu verið tekin alvarlega í löndum Evrópu, er það skýrt að efnahagsþrengingar síðastliðinna ára hafa gert það að verkum að barnafátækt og félagsleg einangrun hefur aukist víða.  Barnafátækt eftir efnahagskreppuna hefur í mörgum löndum Evrópu aukist til muna og oft meira heldur en fátækt á meðal borgara almennt.  

Evrópuráðsþingið hefur lýst því yfir að það sé agndofa yfir reglulegum fréttum af vannærðum börnum, börnum sem eru yfirgefin af foreldrum sem í neyð leita sér atvinnu í öðrum ríkjum, mikilli aukningu á atvinnuþátttöku barna ásamt því að þáttaka og frammistaða barna í framhaldsskóla hefur víða beðið hnekki.

Til viðbótar við ofantalin atriði hefur fjármálakreppan einnig haft neikvæð áhrif á réttindi barna á margan annan hátt í sumum ríkjum Evrópu. Má einna helst nefna skerðingu á velferðarþjónustu og skerðingu á ýmiss konar félagslegum úrræðum, niðurfellingu styrkja og hækkun á sköttum og gjöldum á nauðsynjavöru. Þessi atriði hafa ollið því að réttindi barna til fæðis, klæðis og húsaskjóls eru víða ekki uppfyllt.

Neikvæðra áhrifa hefur einnig  gætt á menntun, heilbrigðisþjónustu, vernd gegn ofbeldi, fjölskyldulíf, umönnun, réttindi barna með sérþarfir svo og skoðana- og tjáningafrelsi barna. Þessi atriði hafa komið skýrt fram hjá þeim börnum sem hafa veitt innsýn í líf sitt þegar áhrif efnahagskreppunnar á líf barna hafa verið könnuð.

Í 4. grein Barnasáttmálans er fjallað um skyldu ríkja til þess að taka tillit til sáttmálans í lögum og framkvæmd ríkisvaldsins. Þegar kemur að efnahagsþrengingum eiga ríki sem hafa undirritað Barnasáttmálann að tryggja að réttindi barna séu ekki skert vegna efnahagsþrenginga. Ríkjum ber að haga forgangsröðun þannig að lífskjör barna sem verst standa skerðist sem minnst.

Það er mjög mikilvægt að ríki sem eru í einhverskonar samstarfi vegna efnahagsþrenginga tryggi að samstarfsaðilar starfi í samræmi við Barnasáttmálan þegar ákvarðanir eru teknar. Á þetta til dæmis við um samstarf ríkja við Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Tengslanet umboðsmanna barna í Evrópu harmar að hvorki Evrópuráðið né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kannað áhrif lánveitinga og aðgerðaráætlana í kjölfar þeirra á velferð og réttindi barna. Er þetta nokkuð sem hefði getað mildað áhrif efnahagskreppunnar á líf barna að einhverju leyti.

Hér er hægt að lesa ályktun ENOC í heild sinni (á ensku) ásamt tillögum ENOC til úrbóta.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica