16. júní 2011

Yfirlýsing norrænna umboðsmanna barna um réttindi frelsissviptra barna

Á árlegum fundi umboðsmanna á Norðurlöndum ar samþykkt sameiginleg yfirlýsing um réttindi barna sem hafa verið svipt frelsi sínu.

Árlegur fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndum fór fram í Stokkhólmi í Svíþjóð í lok maí. Á fundinum var fjallað um þau málefni sem efst eru á baugi hjá embættunum um þessar mundir en sérstök áhersla var lögð á málefni barna sem eru handtekin, í gæsluvarðhaldi og í fangelsum.

Réttindi barna sem hafa verið svipt frelsi sínu
Sameiginleg yfirlýsing frá umboðsmönnum barna á Norðurlöndum

Umboðsmenn barna á Norðurlöndum telja að aðstæður barna sem svipt hafa verið frelsi sínu vegna handtöku, gæsluvarðhalds eða fangelsisvistar séu ófullnægjandi á Norðurlöndum. Aðstæður og meðferð þessara barna eru mismunandi eftir löndum, en ljóst er að réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru ekki nægilega tryggð á ýmsum sviðum.

Ákvæði 37. gr. Barnasáttmálans leggur þá skyldu á aðildarríkin að „farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir“.

Barnaréttarnefndin hefur auk þess slegið því föstu að frelsissvipting skuli vera lokaúrræðið sem eigi aðeins að grípa til þegar öll önnur úrræði hafa verið reynd eða ljóst er að þau duga ekki til. Frelsisskerðing sem á sér stað áður en búið er að dæma í máli eða á grundvelli verndarsjónarmiða á aðeins rétt á sér í sérstökum undantekningar¬tilvikum. Önnur úrræði þurfa að vera til staðar þannig að börn séu aldrei svipt frelsi sínu nema nauðsyn beri til.

Barnaréttarnefndin segir ennfremur að barn, sem hefur verið svipt frelsi sínu, eigi ávallt að njóta réttinda sinna samkvæmt Barnasáttmálanum. Á það sérstaklega við um rétt barns til öryggis, heilsu, menntunar og til að halda tengslum við fjölskyldu sína.

Sameiginlegar áherslur á Norðurlöndum
Frelsissvipt börn eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, líkamlega, andlega og félagslega, auk þess sem aukin hætta er á því að réttindi þeirra séu ekki virt.  Umboðsmenn barna á Norðurlöndum leggja því áherslu á mikilvægi 3. gr. Barnasáttmálans, en þar kemur fram að „[þ]að sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða vilja umboðsmenn barna á Norðurlöndum árétta að:
• Það sem er frelsissviptu barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem það varðar.
• Samvinna verður að eiga sér stað milli allra yfirvalda sem fara með málefni barnsins, allt frá upphafi frelsisskerðingar og þar til barn kemur út í samfélagið á ný.
• Frelsissvipt barn skal eiga möguleika á að ganga í skóla.
• Þegar barn er frelsissvipt, hvort sem það á sér stað með handtöku, gæsluvarðhaldi eða fangelsisvist, skal ávallt vera til staðar reglubundið eftirlit með því að réttindi þess séu tryggð.
• Barnavernd á að taka virkan þátt í málefni barns eftir að það hefur verið frelsissvipt, hvort sem það á sér stað á stofnun á vegum hennar eða í almennu fangelsi. 

Með þessari sameiginlegu yfirlýsingu vilja umboðsmenn barna á Norðurlöndum hvetja yfirvöld til að tryggja réttindi frelsissviptra barna og gæta þess eins og kostur er að frelsissvipting hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu þeirra og þroska.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica