7. mars 2022

Yfirlýsing evrópskra umboðsmanna barna

Samtök evrópskra umboðsmanna barna (ENOC) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna stríðsins sem nú geysar í Úkraínu en Salvör Nordal, umboðsmaður barna á Íslandi mun taka við formennsku samtakanna í haust.

Yfirlýsingin er birt hér í íslenskri þýðingu en upphaflega birtist hún á vefsíðu ENOC mánudaginn 28. febrúar sl. Umboðsmenn barna í Evrópu munu funda nánar um stöðuna í Úkraínu þriðjudaginn 8. mars nk. 

Yfirlýsing ENOC

Ákall ENOC (samtaka evrópskrá umboðsmanna barna) eftir brýnum aðgerðum til verndar börnum í Úkraínu

Í yfirlýsingunni lýsa samtökin yfir miklum áhyggjum af öryggi og velferð barna í Úkraínu, sem eru föst í aðstæðum þar sem hörð stríðsátök hafa brotist út en jafnframt lýsa samtökin yfir stuðningi og samstöðu við umboðsmann úkraínska þingsins í mannréttindamálum, í því hlutverki hans að vernda og tryggja grundvallarréttindi barna og ungs fólks. Á síðustu átta árum hefur úkraínski umboðsmaðurinn stöðugt minnt á þá staðreynd að átökin í Austur Úkraínu hafi haft mikil áhrif á réttindi barna. Þau átök sem nú eiga sér stað um alla Úkraínu munu verða til þess að veikja enn frekar viðkvæma stöðu barna. Þetta kom jafnframt fram í nýlegri yfirlýsingu framkvæmdastjóra UNICEF Catherine M. Russell en þar segir:

Átök síðustu átta ára hafa leitt til alvarlegra og varanlegra áhrifa á börn. Börnin í Úkraínu þurfa frið og það strax.

Þá hefur úkraínski umboðsmaðurinn beint athyglinni að þeirri staðreynd að u.þ.b. 200.000 börn í Úkraínu hafa nú þegar þurft að yfirgefa heimili sín og sú tala mun hækka verulega á næstu dögum og mánuðum. Úkraínski umboðsmaðurinn hefur sett fram skýr tilmæli um leiðir til þess að þessi hópur barna fái notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Vopnuð átök eru til þess fallin að brjóta gegn réttindum barna, en þar má sem dæmi nefna réttinn til lífs, fjölskyldulífs, heilsu og menntunar, til verndar gegn öllum tegundum ofbeldis og misnotkunar og til viðeigandi stuðnings. Nú þegar hafa borist fregnir af dauðsföllum sem hafa mikil áhrif á börn og með hliðsjón af alvarleika stöðunnar , kallar ENOC eftir því að:

  • Rússland stöðvi árásir á Úkraínu til að vernda líf, öryggi og velferð barna. Bæði Rússland og Úkraína hafa fullgilt Barnasáttmálann, en ókleift er fyrir ríkisstjórn Úkraínu að vernda réttindi barna á tímum stríðsátaka.

  • Aðilar átakanna verða að láta hjá líða að grípa til aðgerða sem fela í sér hættu fyrir líf barna, öryggi þeirra eða velferð, eða brjóta gegn réttindum þeirra með öðrum hætti. Börn þurfa áfram að hafa aðgang að nauðsynlegri þjónustu og öruggri menntun og barnæsku.

  • Aðilar átakanna verða að tryggja að mannúðaraðstoð nái til barna og fjölskyldna sem á henni þurfa að halda, svo fljótt sem verða má. ENOC og einstaka umboðsmenn barna munu eiga í samvinnu við alþjóðastofnanir um að tryggja stuðning og mannúðaraðstoð við viðkvæmustu hópa barna og ungs fólks í Úkraínu.

  • Ýmis nágrannaríki Úkraínu hafa þegar lýst yfir vilja til að taka við flóttafólki frá Úkraínu og ENOC brýnir fyrir ríkisstjórnum í öðrum ENOC löndum að opna landamæri sín fyrir börnum og fjölskyldum á flótta frá Úkraínu. Fyrst og fremst þurfa börnin á frið og öryggi að halda.kynþætti þau tilheyra eða hvernig þau eru á litinn.

ENOC áréttar mikilvægi þess að úkraínska umboðsmanninum verði gert kleift að meta aðstæður í Úkraínu, til að geta greint frá og rannsakað brot gegn grundvallarréttindum barna á meðan á átökunum stendur, og til að miðla áríðandi upplýsingum um brot á börnum.

Það er tímabært að allar evrópskar stofnanir og ríkisstjórnir virði Barnasáttmálann og sýni samhug og vilja til að vernda börn í óbærilegum aðstæðum. Sem umboðsmenn barna, munum við reyna allt sem í okkar valdi stendur, til að tryggja að ríkisstjórnir okkar standi við þær skuldbindingar. Samtök evrópskra umboðsmanna barna eru jafnframt reiðubúin til að bjóða fram aðstoð og þekkingu samtakanna þar sem hún nýtist best. 
Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica