30. september 2014

Viðmið til að meta skólastarf og námsástæður í skóla án aðgreiningar

Starfshópur sem unnið hefur að því að móta viðmið til að meta skólastarf og námsaðstæður í skóla án aðgreiningar í ytra mati á grunnskólum óskaði eftir umsögn um viðmiðin með tölvupósti dags. 15. september 2014. Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 30. september 2014.

Starfshópur sem unnið hefur að því að móta viðmið til að meta skólastarf og námsaðstæður í skóla án aðgreiningar í ytra mati á grunnskólum óskaði eftir umsögn um viðmiðin með tölvupósti dags. 15. september 2014.  Umsögn sína sendi umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 30. september 2014.

Umsögn umboðsmanns barna

UB:1409/4.1.1

Komdu sæl Birna

Vísað er í tölvupóst, dags. 15. september sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um viðmið til að meta skólastarf og námsástæður í skóla án aðgreiningar. Umboðsmaður barna þakkar fyrir tækifærið til að koma með álit sitt.

Umboðsmaður barna fagnar því að ofangreind viðmið hafi verið mótuð, enda er mikilvægt að leitast við að tryggja öllum börnum nám við hæfi og rétt til virkrar þátttöku. Vegna anna hefur umboðsmaður barna ekki haft tök á að fara vandlega yfir viðmiðin. Hann hefur þó lesið þau yfir og vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Umboðsmaður barna fagnar því að víða í viðmiðunum sé tekið fram að nemendur skuli vera virkir þátttakendur og hafa áhrif á nám sitt. Hann telur þó mikilvægt að taka sérstaklega fram í kaflanum Menning og viðhorf að nemendur eigi rétt á því að koma að ákvörðunartöku varðandi skólastarf, en þar er nú einungis vikið að rétti foreldra, sbr. l-lið.  Má í því sambandi benda á að börn eiga rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvarðanir eru teknar sem varða þau með einum eða öðrum hætti, sbr. 12. gr. Barnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Er þetta einnig í samræmi við 1. mgr. 13. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem fram kemur að nemendur eigi rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá og að taka skuli tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Í kaflanum Menning og viðhorf er meðal annars vikið að mikilvægi þess að allir aðilar skólasamfélagsins séu velkomnir og virtir í skólanum. Í þeim stafaliðum sem fylgja er síðan sérstaklega nefnt sem vísbending í k-lið að gagnkvæm virðing ríki milli starfsfólks og foreldra. Þá er það nefnt sem vísbending í m-lið að foreldrar upplifi það að börnin séu virt. Umboðsmaður barna saknar þess að vikið sé sérstaklega að sjálfstæðum rétti barna í umræddri upptalningu. Þannig ættu það einnig að vera mikilvægar vísbendingar að gagnkvæmt traust ríki á milli nemenda og starfsfólks og að nemendur upplifi að þeir séu virtir í skólanum.

Meðal þeirra vísbendinga sem eru taldar upp í kaflanum um menningu og viðhorf er að miklar væntingar séu gerðar til árangurs allra nemenda og þeir hvattir til að gera miklar væntingar til náms síns, sbr. n-lið. Umboðsmaður barna telur að sjálfsögðu jákvætt að stefnt sé að því að öll börn nái sem bestum árangri í námi. Hann veltir þó fyrir sér hvort ástæða sé til að árétta mikilvægi þess að skólar bjóði upp á nauðsynlegan sveigjanleika og geri ekki óraunhæfar væntingar til barna, þannig að stuðlað sé að jákvæðri sjálfsmynd barna og þeim gert kleift að hámarka getu sína og þroska.

Í kaflanum Upplýsingamiðlun og samskipti er meðal annars fjallað um upplýsingagjöf til starfsfólks um nemendur sem þurfa á stuðningi að halda. Umboðsmaður barna veltir fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að nefna einnig viðeigandi fræðslu til annarra nemenda í sama bekk/hópi sem og foreldra þeirra, í samráði við nemandann og foreldra hans. Í slíkri fræðslu væri hægt að útskýra hvernig ákveðin röskun/fötlun hefur áhrif á daglegt líf og samskipti einstaklinga.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að í kaflanum Starfshættir sé það nefnt sem vísbending að aðstaða og tækjabúnaður í skóla taki mið af þörfum allra nemenda, sbr. h-lið. Hann hefði þó talið ástæðu til að ítreka enn frekar að skólahúsnæði, lóð og annar aðbúnaður þurfi að vera þannig að tekið sé mið af þörfum allra nemenda og öryggi þeirra tryggt. Hvað varðar öryggi barna á skólalóðum í skóla án aðgreiningar má benda á að það væri hægt að nota það sem viðmið um gæðastarf að farið sé að ákvæðum reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002, sjá nánar hér á vef Umhverfisstofnunar. Einnig vill umboðsmaður benda á nýútkomna handbók sem ber titilinn Kennsluumhverfið – hlúum að rödd og hlustun. Í seinni hluta ritsins er fjallað um inniloft, hávaða og úrræði til að draga úr skaðsemi hávaða í umhverfi barna. Vel gæti verið að punktar úr ritinu gætu nýst sem viðmið um gæðastarf.

Í kaflanum um starfshætti hefði að mati umboðsmanns barna mátt nefna það sem vísbendingu að allir nemendur hafi sama tækifæri til þátttöku í ferðum eða viðburðum á vegum skólans. Skólaferðalög og skólaskemmtanir eru mikilvægur þáttur í skólastarfi og skipta miklu máli fyrir félagsþroska barna. Er því brýnt að tryggja að börn með sérþarfir fái sérstakan stuðning til þess að geta tekið þátt í slíku starfi, án mismununar.

Ef eitthvað er óljóst eða þú vilt ræða þessa punkta nánar skaltu ekki hika við að hafa samband aftur.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica