27. febrúar 2015

Viðbrögð við afbrotum barna

Umboðsmaður barna sendi Ólöfu Nordal innanríkisráðherra nýlega bréf um viðbrögð við afbrotum barna. Í bréfinu er fjallað um úrræði fyrir börn sem svipta þarf frelsi sínu og mikilvægi sáttamiðlunar.

Umboðsmaður barna sendi Ólöfu Nordal innanríkisráðherra nýlega bréf um viðbrögð við afbrotum barna. Í bréfinu hvetur umboðsmaður innanríkisráðherra til þess að vinna með félagsmálaráðherra að því finna viðeigandi lausn fyrir börn sem svipta þarf frelsi sínu og tryggja að til staðar sé úrræði þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. Einnig er fjallað um sáttamiðlun og mikilvægi þess að hún sé í boði fyrir börn sem hafa brotið af sér.

Bréfið er svohljóðandi:

Innanríkisráðherra
Ólöf Nordal
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 11. febrúar 2015
UB:1502/8.5.1

Efni: Viðbrögð við afbrotum barna

Á undanförnum árum hefur umboðsmaður barna haft verulegar áhyggjur af börnum sem stefna eigin velferð í hættu, til dæmis vegna afbrota, hegðunarvanda eða vímuefnaneyslu. Umboðsmaður telur jákvætt að brugðist hafi verið við lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, með því að leitast við að tryggja að börn afpláni ekki fangelsisrefsingar með fullorðnum föngum, sbr. c-lið 37. gr. sáttmálans. Félagsmálaráðherra hefur lýst því yfir að samningur við meðferðarheimilið Háholt um vistun unga fanga sé bráðabirgðalausn og að verið sé að vinna að framtíðarlausn í þessum málum. Umboðsmaður sendi félagsmálaráðherra nýlega bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvaða vinna er hafin við að móta framtíðarlausn þegar kemur að afplánun barna. Umboðsmaður hvetur innanríkisráðherra til þess að vinna með félagsmálaráðherra að því finna viðeigandi lausn fyrir börn sem svipta þarf frelsi sínu og tryggja að til staðar sé úrræði þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra. 

Viðbrögð við afbrotum barna eiga fyrst og fremst að vera til þess fallin að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif og koma í veg fyrir áframhaldandi brotahegðun, sbr. meðal annars 40. gr. Barnasáttmálans. Þá má benda á að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans eiga hagsmunir barnsins ávallt að ráða för þegar tekin er ákvörðun um það hvaða úrræði hentar best til þess að bregðast við afbroti þess. Harkaleg viðbrögð við afbrotum barna hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra og auka líkurnar á áframhaldandi brotum. Það er því mun betur í samræmi við hagsmuni barna sem og samfélagsins í heild að leysa úr málum sem varða afbrot barna án þess að fara fyrir dóm, sbr. meðal annars 3. mgr. 40. gr. Barnasáttmálans.

Árið 2006 hófst hér á landi tilraunaverkefni í sáttamiðlun. Sáttamiðlun byggir á hugmyndafræði uppbyggilegrar réttvísi og felur í sér að leitast er við að ná sáttum milli þess sem brýtur af sér og brotaþola. Í stöðuskýrslu um verkefnið til dómsmálaráðherra í lok árs 2007 kom fram að árangurinn hafi verið góður og lögregluembætti hvött til þess að innleiða sáttamiðlun. Sáttamiðlun hentar sérstaklega vel fyrir börn og ungmenni, þar sem þau þurfa að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og bæta fyrir brot sitt. Slíkt er almennt talið mun betur til þess fallið að hafa uppbyggileg og þroskandi áhrif en hefðbundnar refsingar. Er því ljóst að sáttamiðlun er það úrræði sem er best í samræmi við hagsmuni og réttindi barna og hefur Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sérstaklega hvatt aðildarríki til þess að beita úrræðum sem byggja á uppbyggilegri réttvísi.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að tryggja að sáttamiðlun sé í boði fyrir börn sem hafa brotið af sér. Því miður virðist verulega hafa dregið úr því að boðið sé upp á slíkt úrræði á undanförnum árum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Umboðsmaður barna óskar því hér með eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1)      Hefur verið boðið upp á sáttamiðlun fyrir sakhæf börn hér á landi á síðustu fimm árum (2010-2015)?

  1. Hversu oft hefur úrræðinu verið beitt á þessu tímabili?
  2. Í hvaða umdæmum hefur verið boðið upp á úrræðið?

2)      Hvernig metur innanríkisráðherra möguleikana á því að tryggt verði að sáttamiðlun verði í boði fyrir börn út um allt land?

Loks óskar umboðsmaður barna eftir öðrum upplýsingum sem máli kunna að skipta í þessu sambandi.

 

Virðingarfyllst,

__________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica