28. júlí 2010

Verslunarmannahelgin

Nú er framundan verslunarmannahelgin, stærsta ferðahelgi sumarsins. Umboðsmaður barna vill hvetja fjölskyldur til að njóta helgarinnar saman. Samvera foreldra og ungmenna er mjög mikilvæg og hefur gríðarlegt forvarnargildi.

Nú er framundan verslunarmannahelgin, stærsta ferðahelgi sumarsins. Umboðsmaður barna vill hvetja fjölskyldur til að njóta helgarinnar saman. Samvera foreldra og ungmenna er mjög mikilvæg og hefur gríðarlegt forvarnargildi. Búast má við miklu skemmtanahaldi ungmenna um helgina og er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga.

Einstaklingum undir 20 ára aldri er óheimilt að neyta áfengis. Ýmsar ástæður eru fyrir því aldurstakmarki. Má m.a. nefna að heilinn hefur ekki náð fullum þroska fyrr en eftir 20 ára aldur. Eftir því sem unglingar eru yngri þegar þeir byrja að drekka áfengi því skaðlegri verða afleiðingar áfengisneyslunnar og því lengur sem unglingar sniðganga áfengi því ólíklegra er að þeir ánetjist fíkniefnum. Þess vegna er talað um að hvert ár skipti máli.

Foreldrum og öðrum fullorðnum einstaklingum er óheimilt að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára og getur það varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. ákvæði laga um áfengi nr. 75/1998.

Á heimasíðu Lýðheilsustöðvar er að finna nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:

  • Unglingar yngri en 18 ára eru á ábyrgð foreldra sinna og ættu því ekki að fara á útihátíð án þess að einhver ábyrgur fullorðinn sé með í för. Fáið símanúmer hjá þeim sem ætlar með þeim.
  • Hafið samband við foreldra þeirra sem unglingurinn ætlar með og komið ykkur saman um þær reglur sem þið viljið að unglingarnir fylgi.
  • Gangið úr skugga um að unglingurinn sé vel útbúinn fyrir útilegu.
  • Látið unglinginn hafa símanúmer hjá ættingjum og vinum sem hann getur hringt í ef eitthvað kemur upp á og ekki næst í ykkur.
  • Nærvera foreldra er mikilvæg forvörn. Foreldrar geta gist í nágrenni útihátíðar og gott er að hafa samband við unglinginn sem oftast í síma eða með því að hittast á svæðinu.
  • Ræðið við unglinginn um að þiggja aldrei far hjá neinum sem er undir áhrifum áfengis.
  • Útvegið unglingum ekki áfengi. Unglingur undir áhrifum áfengis er í meiri hættu á að lenda í vandræðum. Þegar foreldrar útvega unglingum áfengi hafa þeir samþykkt drykkju þeirra og líklegt er að þeir drekki meira.

 

Njótið helgarinnar!

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica