22. ágúst 2008

Vernd barna gegn ofbeldi

Hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum er ólíðandi, hvort sem ofbeldið er andlegt eða líkamlegt. Það getur að mati umboðsmanns barna ekki staðist að börnum sé veitt minni vernd gegn ofbeldi en fullorðnum. Umboðsmaður barna tekur því undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 14. ágúst 2008.

Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi barna sinna og njóta ákveðins svigrúms varðandi það hvaða uppeldisaðferðum þeir beita í skjóli friðhelgi einkalífs og heimilis. Hins vegar er foreldrum aldrei heimilt að beita börnin sín ofbeldi, enda er það ein af grunnforsjáskyldum þeirra samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 að vernda börn sín gegn ofbeldi. 

Í 19. gr. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er auk þess að finna ákvæði sem verndar börn gegn hvers konar ofbeldi, hvort sem það er í umsjá foreldra eða annarra. Ísland er skuldbundið að þjóðarétti að virða og uppfylla ákvæði samningsins. Í niðurstöðum Barnaréttarnefndar um framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi frá árinu 2003 mælist nefndin til þess að íslensk yfirvöld veki foreldra, aðra sem hafa börn í sinni umsjá og almenning til vitundar um bann við líkamlegum refsingum og veiti fræðslu um slæmar afleiðingar illrar meðferðar á börnum.

Flengingar eru ofbeldi og því aldrei réttlætanlegar. Fagfólk sem vinnur með börnum, sem hafa verið beitt ofbeldi, telja að slíkt hafi neikvæð áhrif á heilsu þeirra, þroska og vellíðan. Algengar afleiðingar ofbeldis eru lágt sjálfsmat, kvíði og þunglyndi.  Flengingar þjóna ekki uppeldislegum tilgangi því að hegðun barnsins breytist yfirleitt ekki en það lærir að ofbeldi sé leið til þess að fá vilja sínum framgengt.

Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrá nr. 33/1944 segir að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í því felst meðal annars að nauðsynlegt er að tryggja börnum fullnægjandi vernd gegn hvers kyns ofbeldi með lögum.

Umboðsmaður barna tekur því undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 14. ágúst 2008. Í þeim dómi sýknaði héraðsdómur mann sem ákærður var fyrir að rassskella tvo drengi, fjögurra og sex ára.

Umboðsmaður barna telur að flengingar feli tvímælalaust í sér minniháttar líkamsárás, enda kemur fram í dóminum að almennt séð teljist það varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940  að slá mann nauðugan á rassinn svo undan roðnar. Dómarinn virðist hins vegar telja að ákvæðið eigi ekki við í þeim tilvikum sem foreldrar samþykkja ofbeldið. Af dóminum mætti því ráða að samþykki og ábyrgð uppalanda dugi til þess að heimilt sé að beita börn líkamlegum refsingum. Þegar ákvæði almennra hegningarlaga eru skýrð til samræmis við 2. mgr. 28. gr.  barnalaga er ljóst að foreldrar hafa enga heimild til þess að samþykkja að börnin sín verði beitt ofbeldi, enda hvílir á þeim lagaleg skylda að vernda þau gegn slíku. Það er auk þess brot á 19. gr. Barnasáttmálans ef íslensk lög eru túlkuð með þeim hætti að foreldrum sé heimilt að beita barn sitt  ofbeldi eða heimila öðrum slíkt.

Umboðsmaður barna tekur auk þess undir það með Barnaheillum að ákvæði 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi við um flengingar og því hafi maðurinn gerst brotlegur við það ákvæði. Dómarinn telur að barnaverndarlögin banni ekki berum orðum líkamlegar refsingar sbr. 1. mgr. 99.gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar segir m.a. að hver sem beiti barn refsingum sem ætla megi að skaði barnið andlega eða líkamlega skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Flengingar skaða börn andlega og líkamlega. Umboðsmaður barna telur því að rök dómarans geti ekki staðist í þessu tilviki.

Hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum er ólíðandi, hvort sem ofbeldið er andlegt eða líkamlegt. Það getur að mati umboðsmanns barna ekki staðist að börnum sé veitt minni vernd gegn ofbeldi en fullorðnum. Það er von umboðsmanns barna að dómstólar veiti börnum þá vernd sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum og alþjóðasáttmálum.

Í þessu sambandi vill umboðsmaður benda á ritið Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi.  Höggva - hýða - hirta - hæða - hafna - hrista - hræða, sem embættið gaf út með Miðstöð heilsuverndar barna árið 2004. Auk þess má benda á umfjöllun fyrrverandi umboðsmanns barna, Þórhildar Líndal, um 28. gr. frumvarps til barnalaga í umsögn sinni frá árinu 2002. Þar segir hún að tímabært sé að taka upp ákvæði í barnalögin sem segi berum orðum að foreldrum sé bannað að beita börn sín andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Sjá umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til barnalaga, dags. 18. nóvember 2002.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica