6. júlí 2007

Vernd barna gegn nettælingu

Umboðsmaður barna tekur undir ummæli Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, í Morgunblaðinu í gær, 5. júlí, um nauðsyn þess að verja börn gegn nettælingu.

Umboðsmaður barna tekur undir ummæli Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, í grein hans í Morgunblaðinu í gær, 5. júlí, um nauðsyn þess að verja börn gegn nettælingu.

Nettælingu má lýsa þannig að fullorðinn einstaklingur leitar eftir sambandi við barn á netinu með kynferðistengsl í huga. Fyrst ávinnur hann sér traust barnsins og stofnar til tilfinningasambands og trúnaðarsambands við það. Smám saman fer hinn fullorðni að upplýsa barnið um eigin hag og stingur síðan upp á fundi, þar sem hann brýtur á barninu með því að þvinga það til kynferðislegra athafna. Dæmigert er að barnið vilji ekki horfast í augu við að hinn fullorðni hafi þessi áform eða það þorir ekki að segja öðrum frá af ótta við viðbrögð hans.

Samkvæmt 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 má dæma menn fyrir tilraun til brots:
 
Fyrir tilraun til brots má dæma lægri refsingu en mælt er um fullframin brot. Skal það einkum gert, þegar af tilrauninni má ráða, að brotamaðurinn sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má, að sé um menn, sem fullfremja slík brot.
Ef hagsmunum þeim, sem verknaður beinist að, eða verknaðinum sjálfum er svo háttað, að tilraunin hefði ekki getað leitt til fullframins brots, má ákveða, að refsing skuli falla niður.
 
Ríkissaksóknari hefur nú þegar gefið út þrjár ákærur í málum þars sem menn eru sóttir til saka fyrir nettælingu, þ.e. tilraun til kynferðisbrots gegn 13 ára stúlku í samræmi við ráðagerðir í tölvusamskiptum á spjallrás á Netinu. Um þetta segir Björn Bjarnason:
 
Telji dómstólar unnt að refsa fyrir nettælingu á grundvelli þessa ákvæðis almennra hegningarlaga, má segja, að í íslenskum lögum sé að finna refsivernd gegn þessu ógnvekjandi athæfi gegn börnum. Komi í ljós, að dómstólar telji lagaheimildir til refsingar ekki fyrir hendi, er nauðsynlegt að bregðast við með nýju lagaákvæði og má þá líta bæði til Bretlands og Noregs.
...
Þá þarf að skoða til hlítar, hvort lögregla hafi nægar heimildir til að grípa inn í þá atburðarás, þegar barn verður fyrir árás frá óþekktum árásarmanni á netinu.
...
Án heimilda og leiða til að rekja tafarlaust tölvusamskipti kunna lögreglu að vera allar bjargir bannaðar í málum sem þessum. Skjót og fumlaus viðbrögð á réttu augnabliki geta skipt sköpum til að standa brotamann að verki.
 
Umboðsmaður barna vonar að niðurstaða fáist í þessum málum í haust. Ef ekki reynist hægt að dæma í málunum á grundvelli gildandi lagaákvæða almennra hegningarlaga er brýnt að gripið verði fljótt til annarra aðgerða þannig að réttur barna til verndar gegn þessari tegund kynferðisofbeldis sé tryggður.

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica