17. október 2016

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög kynnt

Umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi hafa nú opnað vefsíðuna Barnvæn sveitarfélag. Vefsíðan var formlega opnuð á Akureryi fyrr í dag, en þar er að finna upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálams.

Umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi hafa nú opnað vefsíðuna Barnvæn sveitarfélög.  Vefsíðan var formlega opnuð á Akureryi fyrr í dag, en fréttatilkynningu um verkefnið er birt hér fyrir neðan í heild sinni. 

Á vefnum er að finna upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálams, þ.e. upplýsingar um það hvernig er hægt að nýta Barnasáttmálann við ákvarðanir sem varða börn og þjónustu við þau. Vefurinn er ætlaður sveitarfélögum en aðrir áhugsamir aðilar geta sjálfsögðu nýtt sér efnið sem þar er að finna. Umboðsmaður barna vonar að þessi vefur muni styðja við innleiðingu Barnsáttmálans og verða til þess að réttindi barna verði betur virt í framkvæmd.  
                                            

Skjáskot af vefsíðunni Barnvæn sveitarfélög

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög

UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna kynntu í morgun verkefnið Barnvæn sveitarfélög, innleiðingarlíkan og vef (www.barnvaensveitarfelog.is) sem styður sveitarfélög í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kynningin fór fram á Akureyri í fundarsal bæjarstjórnar sveitarfélagsins. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélög frá UNICEF á Íslandi.

Akureyri verður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að nýta sér líkanið og tekur þátt í tilraunaverkefni í þróun þess til tveggja ára í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Eiríkur Björnsson, bæjarstjóri á Akureyri og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi, skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu þess efnis í morgun. Við sama tækifæri tilkynnti fulltrúi Innanríkisráðuneytisins um styrk úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til Akureyrar fyrir þátttöku í verkefninu.

Sveitarfélög eru órjúfanlegur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans

Í kjölfar þess að Alþingi lögfesti Barnasáttmálann í febrúar 2013 hafa skapast umræður um hlutverk og ábyrgð íslenskra sveitarfélaga við innleiðingu sáttmálans.  Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur meðal annars bent á að sveitarfélög séu órjúfanlegur þáttur í innleiðingu hans. Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á að uppfylla Barnasáttmálann verður hann aldrei innleiddur nema í samstarfi við sveitarfélögin. Það eru sveitarfélögin sem annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf barna.

Með verkefninu vilja umboðsmaður barna og UNICEF svara eftirspurn frá sveitarfélögum landsins um stuðning við innleiðingu Barnasáttmálans.  En í kjölfar lögfestingarinnar hefur hún aukist hratt. „Við höfum unnið að þessu verkefni í tvö ár og erum ákaflega stolt af því.  Von mín er að þetta marki næsta skrefið í því að tryggja réttindi barna í daglegu lífi og að öll sveitarfélög á Íslandi komi til með að innleiða Barnasáttmálann“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu þess. Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu“ og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Barnasáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Ferlið við að gerast barnvænt sveitarfélag krefst pólitískrar skuldbindingar, sem er grundvöllurinn fyrir innleiðingu Barnasáttmálans í sveitarfélaginu, ásamt samræmdum aðgerðum þvert á öll svið sveitarfélagsins.

„Barnasáttmálinn boðar byltingarkennda sýn á stöðu barna og gerir þá kröfu að börn njóti í senn umönnunar og verndar, samhliða því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Það er lítil lýðræðisleg hefð er fyrir því hér á landi að börn séu höfð með í ráðum í málum sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Innleiðing sáttmálans krefst því markvissra aðgerða af hálfu stjórnvalda ef uppfylla á forsendur hans“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi.

Innleiðingarlíkan og viðurkenning

Innleiðingarlíkanið barnvæn sveitarfélög er aðgengilegt á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans. Sveitarfélög sem hafa áhuga á að hefja markvisst ferli við innleiðingu sáttmálans geta einnig skráð sig til þátttöku á vefsíðunni.  Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref. Að því loknu geta sveitarfélögin sótt um viðurkenningu frá UNICEF sem barnvæn sveitarfélög.  Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaráætlun verkefnisins fylgi hugmyndafræði þess. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þremur árum liðnum.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica