19. mars 2009

Velferð barna í fyrirrúmi

Í grein í Morgunblaðinu í dag vekur umboðsmaður barna athygli á mikilvægi þess að tryggja velferð barna í því efnahagsástandi  sem nú ríkir. Börn og ungmenni eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna.

Í grein í Morgunblaðinu í dag vekur umboðsmaður barna athygli á mikilvægi þess að tryggja velferð barna í því efnahagsástandi  sem nú ríkir. Börn og ungmenni eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna. Tryggja þarf sterkt velferðarnet um börn og ungmenni þegar atvinnuleysi og veruleg tekjuskerðing er í mörgum fjölskyldum. Fjöldamargar rannsóknir sýna það með óyggjandi hætti að skýr tengsl eru á milli félagslegrar stöðu foreldra við heilsu og sérstaklega líðan barnanna.

Umboðsmaður barna bendir á að þegar kemur að málefnum barna og ungmenna verði að vanda vel til verka og hafa í huga sérstaka stöðu þeirra í samfélaginu. Allar ákvarðanir sem lúta að velferð barna og ungmenna þurfa að vera vel ígrundaðar og horfa verður til framtíðar um hvaða afleiðingar slíkar ákvarðanir hafa fyrir samfélagið allt því velferð barna og ungmenna í dag hefur áhrif á líf okkar allra í framtíðinni.

Hér má lesa greinina í fullri lengd:

Velferð barna í fyrirrúmi

Að undanförnu hefur töluvert borið á umræðu um að skera þurfi niður í þjónustu við börn og ungmenni vegna efnahagsástandsins. Hafa áform eins og fjölgun nemenda í bekkjum, fækkun kennslustunda og niðurskurður á sérfræðiþjónustu við börn verið til umfjöllunar. Hlutverk umboðsmanns barna er m.a. að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna á öllum sviðum samfélagsins t.d. við ákvarðanatöku og skipulagningu ýmissa samfélagsmála er snerta börn og ungmenni. Börn eru ekki  þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti og sú staðreynd liggur fyrir að sjónarmið þeirra gleymast oft og tíðum í heimi hinna fullorðnu Sem opinber talsmaður allra barna á Íslandi vill umboðsmaður barna leggja áherslu á að hlustað verði á raddir barna í þeirri umræðu sem nú fer fram um endurskipulagningu ýmissa málefna er varða samfélags-  og velferðarmál og hvernig þeim skuli forgangsraða.

 Í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir standa stjórnvöld og aðrir frammi fyrri því að þurfa að endurskipuleggja starfsemi sína, hagræða og forgangsraða verkefnum upp á nýtt. Í slíku ferli er  mikilvægt að huga að þörfum barna og ungmenna sem og velferð þeirra. Börn og ungmenni eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna. Við þurfum sterkt velferðarnet um börn og ungmenni þegar atvinnuleysi og veruleg tekjuskerðing er í mörgum fjölskyldum. Fjöldamargar rannsóknir sýna það með óyggjandi hætti að skýr tengsl eru milli félagslegrar- og efnahagslegrar stöðu foreldra við heilsu og sérstaklega líðan barnanna.

Íslenska ríkið svo og sveitarfélög bera ríkar skyldur er kemur að málefnum barna og eru skyldur þessar svo og réttur barna tíunduð í ýmsum lögum svo og í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrri liggur að ríki og sveitarfélög þurfa að taka ákvarðanir um hagræðingu í rekstri og má vænta að þær ákvarðanir  geti snerti daglegt líf barna og ungmenna. Í því ferli er mikilvægt að horft verði til  framtíðaráhrifa og afleiðinga þess að draga úr þjónustu við börn og ungmenni. Þeir sem taka ákvarðanir þurfa því í enn ríkari mæli en áður á öllum stigum ákvarðanatöku að fara yfir hvaða afleiðingar niðurskurður hefur, þegar til lengri tíma er litið.  Í Svíþjóð og Finnlandi hefur komið fram að þær sparnaðaraðgerðir sem gripið var til í efnahagsþrengingum sem þeir urðu fyrir upp úr árunum 1990 hafði neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir börn og ungmenni. Ekki var litið nægilega til framtíðaráhrifa niðurskurðarins og í sumum tilfellum leiddi niðurskurðurinn til meiri kostnaðar þegar upp var staðið. Mikilvægt er að læra af reynslu nágrannaríkja okkar og reyna eftir fremsta megni að forðast þau mistök sem frændur okkar gerðu á sínum tíma.

Umboðsmaður barna vill benda á nokkur sjónarmið sem mikilvægt er að hafa í huga við þá endurskoðun og forgangsröðun sem nú fer fram hjá ríki og sveitarfélögum.

Mikilvægt er að reyna að hlífa málaflokkum sem varðar börn og ungmenni eins og frekast er unnt og halda uppi öflugu velferðarneti fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Í ljósi reynslu nágrannaþjóða okkar þarf að horfa til  hvaða afleiðingar niðurskurður á þjónustu hefur á börn og ungmenni, bæði til skemmri og lengri tíma, áður en ákvörðun er tekin. Leggja þarf áherslu á að styrkja og styðja foreldra og þá sem annast börn í sínum hlutverkum. Þá ber að hlusta á raddir barna og ungmenna og nýta þekkingu þeirra.  Þau eru sérfræðingar í þeirra lífi. Nota má til dæmis vettvang ungmennaráða sem starfandi eru hjá sveitarfélögum víðsvegar um landið til að skapa umræðu og virkja þátttöku ungmenna í mótun nýs samfélags. Þá ber sérstaklega að nefna mikilvægi þess að ekki verði dregið úr þjónustu við þau börn og ungmenni sem þurfa á hvað mestum stuðningi að halda t.d vegna fötlunar eða annarra aðstæðna.

Þegar kemur að málefnum barna og ungmenna verður að vanda vel til verka og hafa í huga sérstaka stöðu þeirra í samfélaginu. Allar ákvarðanir sem lúta að velferð barna og ungmenna þurfa að vera vel ígrundaðar og horfa verður til framtíðar um hvaða afleiðingar slíkar ákvarðanir hafa fyrir samfélagið allt því velferð barna og ungmenna í dag hefur áhrif á líf okkar allra í framtíðinni.

Margrét María Sigurðardóttir

Umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica