25. nóvember 2019

Vel heppnuðu barnaþingi lokið

Barnaþing 2019 er nú lokið en það fór fram í Hörpu þann 21. og 22. nóvember. Barnaþingið var sett á fimmtudeginum með stórglæsilegri setningarathöfn að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur sem var verndari Barnaþingsins.

Barnaþingi 2019 er nú lokið en það fór fram í Hörpu þann 21. og 22. nóvember sl. Barnaþingið var sett 21. nóvember með stórglæsilegri athöfn að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur sem var verndari Barnaþingsins. Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp og greindu ráðherrar frá eftirminnilegum minningum úr barnæsku. Á setningunni fluttu Flautukór Tónskóla Sigurveins D. Kristinssonar undir stjórn Pamelu de Sensi og Kór Öldutúnsskóla undir stjórn Brynhildar Auðbjargardóttur fallega tóna fyrir gesti og Steindi Jr. lék á als oddi. Fyrir barnaþingið hafði farið fram könnun meðal barnaþingmanna um það hvaða skemmtikraftur ætti að koma fram á opnunarhátíðinni og vann Steindi Jr. þá kosningu.  Fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns barna fyrir ungmenni sáu um fundarstjórn.

Á föstudeginum fór fram þjóðfundur barna þar sem þau ræddu málefni að eigin vali. Um 150 börn tóku þátt í umræðunum með aðstoð borðstjóra og hélt Pálmar Ragnarsson vel utan um dagskrána og kom jákvæðum og hvetjandi skilaboðum til barnaþingmanna meðan á umræðunni stóð. Eftir hádegi bættust við um 100 fullorðnir þátttakendur og héldu áfram umræðunni um þau efni sem börnin höfðu valið.  Sá hópur var mjög fjölbreyttur en þar á meðal voru níu ráðherrar, alþingismenn, fulltrúar ýmissa ríkisstofnana og félagasamtaka. Skilaboðin voru margvísleg en umhverfið og loftslagsmálinu voru þeim ofarlega í huga sem og samfélagsleg ábyrgð okkar allra. Þá var minnst á mikið álag í námi og einnig voru samgöngumál rædd á mörgum borðum.

Skilaboð frá börnunum voru skýr, þau voru meðal annars:

Frítt í strætó!

Hjálpa fjölskyldum í neyð!

Taka vel á móti flóttafólki!

Flokka rusl!

Minna plast!

 

Embætti umboðsmanns barna mun nú taka saman þau atriði sem rædd voru, vinna úr þeim hugmyndum og tillögum, og koma áleiðis til viðeigandi ráðherra eins og lög um umboðsmann barna gera ráð fyrir. Barnaþing er komið til að vera því samkvæmt breyttum lögum um umboðsmanns barna skal hann boða til þings um málefni barna annað hvert ár. Í lok þessa árs hefst því undirbúningur fyrir næsta barnaþing sem fram mun fara árið 2021.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica