20. nóvember 2023

Vel heppnað barnaþing

Í dag fögnum við degi mannréttinda barna og vel heppnuðu barnaþingi sem haldið var föstudaginn 17. nóvember s.l. 

 

Þriðja barnaþing umboðsmanns barna var haldið föstudaginn 17. nóvember s.l. Forseti Íslands setti þingið sem um 140 börn, víðsvegar að af landinu sóttu. Um morguninn fóru fram fjörugar umræður hjá barnaþingmönnum á vinnuborðum en eftir hádegi mættu fullorðnir boðsgestir meðal annarra þingmenn og ráðherrar, til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin höfðu valið.

Barnaþing er haldið á tveggja ára fresti í kringum afmæli Barnasáttmálans sem er 20. nóvember. Þann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að sá dagur væri helgaður mannréttindum barna.

Þau Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sátu fyrir svörum í lok barnaþingsins. Þá kom forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir undir lok þingsins og ávarpaði barnaþingmennina.


Barnathing_2023_b-4

Barnathing_2023_b-1

Börnin sögðu brýnt að stjórnvöld hlustuðu meira á börn og að réttindi allra barna væri tryggð. Þá lögðu þau til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár, skólakerfi sem hentar öllum, bæði þeim sem vilja fara hratt eða hægt í gegnum námið, að bið eftir greiningum væri stytt, betri þjónusta væri fyrir flóttafólk, ókeypis í strætó fyrir öll börn undir 18 ára aldri og að öll kyn fái sömu réttindi í íþróttum.

Eftir hádegi komu ungir leikarar og fluttu tvö atriði úr úr leikritinu Fíusól sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í byrjun desember.

Barnathing_2023_fia_sol-1

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna kom að skipulagi fundarins og sá um kynningar. Fundarstjóri var Sigyn Blöndal.

Barnathing_2023_a-6

Barnaþingi lauk með Herra Hnetusmjör en barnaþingmenn völdu hann sérstaklega til að koma á þingið. 

Barnathing_2023_hnetusmjor-1

Umboðsmaður barna mun á næstu mánuðum vinna enn frekar úr niðurstöðum barnaþings.

Þá er unnið að verklagi innan mennta- og barnamálaráðuneytisins, í samræmi við þingsályktunartillögu um barnvænt Ísland sem Alþingi samþykkti árið 2021, um hvernig nýta megi niðurstöður markvisst við opinbera stefnumótun hjá stjórnvöldum. Slíkt verklag mun tryggja til framtíðar mikilvægi barnaþings sem áhrifamikinn samráðsvettvang fyrir börn hér á landi.

Ljósmyndir í frétt: BIG


Barnathing_2023_b-2

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica