20. febrúar 2018

Vegna umræðu um umskurð á drengjum

Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um umskurð drengja. Umboðsmaður barna vill því vekja athygli á sameiginlegri yfirlýsingu umboðsmanna barna á Norðurlöndunum og barnalæknum.

Vegna umræðu um umskurð á drengjum

Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um umskurð drengja. Umboðsmaður barna vill því vekja athygli á sameiginlegri yfirlýsingu umboðsmanna barna á Norðurlöndunum og sérfræðingum í barnalækningum frá 30. september 2013. Hægt er að lesa nánar um yfirlýsinguna og aðdraganda hennar hér á vefsíðu umboðsmanns barna. 

Hér er hægt að nálgast yfirlýsinguna á norsku en íslensk þýðing hennar fylgir hér fyrir neðan. 

 

Sameiginleg yfirlýsing frá umboðsmönnum barna á Norðurlöndunum og sérfræðingum í  barnalækningum.

Umskurður sem framkvæmdur er, án læknisfræðilegra ástæðna, á einstaklingi sem ekki getur veitt samþykki sitt, er brot gegn siðferðilegum grunngildum læknisfræðinnar, þar sem inngripið er óafturkræft, sársaukafullt og getur leitt til alvarlegra fylgikvilla.

Það eru engar læknisfræðilegar ástæður fyrir því að heimila umskurði á ungum drengjum á Norðurlöndunum. Þær læknisfræðilegu ástæður sem geta átt við um umskurð fullorðinna karlmanna eiga ekki við um börn á Norðurlöndunum. Drengir geta sjálfir tekið ákvörðun um mögulegan umskurð þegar þeir komast á þann aldur að geta veitt samþykki sitt.

Það er álit okkar sem umboðsmenn barna og sérfræðingar í barnalækningum að umskurður drengja án læknisfræðilegra ástæðna brjóti gegn ákvæðum 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau, og 3. tölul. 24. gr. sem kveður á um vernd barna gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði þeirra. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hvatti árið 2013 öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að stöðva inngrip sem eru skaðleg friðhelgi og heilbrigði barna og eru skaðleg drengjum og stúlkum. Að mati okkar er það grundvallaratriði að réttindi foreldra séu ekki ríkari en réttur barna til líkamlegrar friðhelgi. Það sem er barni fyrir bestu skal ávallt hafa forgang, jafnvel þó það takmarki rétt fullorðinna til að iðka trú sína eða halda í heiðri siði.

Umboðsmenn barna á Norðurlöndunum og sérfræðingar í barnalækningum vilja beita sér fyrir því að eingöngu verði heimilt að umskera drengi í þeim tilvikum þar sem drengur hefur náð þeim aldri og þroska að geta skilið nauðsynlegar læknisfræðilegar upplýsingar og hefur veitt samþykki sitt fyrir aðgerðinni. Við óskum eftir umræðu sem einkennist af gagnkvæmri virðingu, milli allra þeirra sem hlut eiga að máli, um hvernig unnt er að veita drengjum ákvörðunarrétt um framkvæmd umskurða. Við hvetjum ríkisstjórnir Norðurlandanna til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að drengir fái sjálfir að ákveða hvort þeir vilji láta umskera sig.

 

Oslo, 30. september 2013


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica