8. mars 2021

Vegna framkvæmdar samræmdra prófa

Í samræmdu könnunarprófi í íslensku sem lagt var fyrir 9. bekk í morgun komu upp tæknileg vandamál í prófakerfi, sem urðu þess valdandi, að fresta þurfti próftöku. 

Fyrir um þremur árum síðan komu einnig upp tæknileg vandamál og tókst fjölmörgum nemendum þá ekki að ljúka prófi. Í framhaldi af því ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að þeir nemendur sem þess óskuðu fengju möguleika á að taka prófið aftur og var því jafnframt haldið fram að tæknilegir örðugleikar af þessum toga væru úr sögunni.

Það er algjörlega óásættanlegt að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf í prófakerfi sem er metið algjörlega ófullnægjandi

Haft var eftir forstjóra Menntamálastofnunar í dag að stuðst sé við „algerlega óviðunandi prófakerfi“ og að Menntamálastofnun hafi ítrekað bent ráðuneytinu á að ef leggja eigi próf fyrir með þessum hætti, þá þurfi betra prófakerfi.

Að mati umboðsmanns barna er algörlega óásættanlegt að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf í prófakerfi sem af skipuleggjendum er metið „algjörlega ófullnægjandi“ eins og reynslan hefur sýnt. Frestun prófa felur í sér aukið álag fyrir nemendur sem margir hafa undirbúið sig fyrir töku prófanna í lengri tíma og því er nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið taki tafarlaust af skarið og annað hvort tryggi fullnægjandi prófakerfi eða felli alfarið niður samræmd próf. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica