1. október 2009

Útvarpsþættir ungmenna um Barnasáttmálann

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á útvarpsþáttum um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefja göngu sína á Rás 1  í dag kl.15:25.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á frábæru framtaki RUV, UNICEF og tíu ungmenna.

Tíu ungmenni hvaðanæva að af landinu munu í dag og næstu 11 fimmtudaga fjalla um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nýjum útvarpsþáttum sem hefja göngu sína á Rás 1 kl. 15:25 í dag. Í ár er þvi fagnað að tuttugu ár eru frá því að þessi mikilvægi mannréttindasáttmáli var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ungmennin eru á aldrinum 14-16 ára. Í þáttunum munu þau fjalla um áhrif og þýðingu Barnasáttmálans fyrir börn heimsins og spjalla við fjölmarga aðila á öllum aldri um mismunandi ákvæði sáttmálans og fjölbreytt málefni sem þeim tengjast. Þættirnir eru samstarfsverkefni Ríkisútvarpsins, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og dagskrárgerðarfólksins unga.

  • Eiga börn og ungmenni rétt á einkalífi?
  • Mega börn láta skoðanir sínar í ljós í opinberum málum?
  • Hvað er barnaþrælkun?
  • Eiga börn rétt á að leika sér og hvíla sig?
  • Má ráða því hvort maður gengur í skóla?

Leitað verður svara við þessum spurningum og ótal fleiri í þáttunum sem verða á dagskrá á hverjum fimmtudegi fram að jólum, frá klukkan 15:25, og eru síðan endurteknir á laugardögum klukkan 20:40.

Sjá nánar í frétt, dags. 30.09.09, á vef UNICEF.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica