17. janúar 2006

Útvarpsréttarnefnd kanni hvort sjónvarpsstöðvar hafi brotið lög

Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa bréflega farið fram á það við útvarpsréttarnefnd að hún kanni formlega hvort íslenskar sjónvarpsstöðvar hafi brotið gegn ákvæðum útvarps- og áfengislaga.

Fréttatilkynning 17. janúar 2006
frá Lýðheilsustöð, talsmanni neytenda og umboðsmanni barna

Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa bréflega farið fram á það við útvarpsréttarnefnd að hún kanni formlega hvort íslenskar sjónvarpsstöðvar hafi brotið gegn tilgreindum ákvæðum útvarps- og áfengislaga með því að heimila

  1. birtingu bjórauglýsinga,
  2. kostun tiltekinna dagskrárliða af hálfu bjórframleiðenda og
  3. að áfengi og tengd vörumerki séu áberandi í ákveðnum dagskrárliðum
  4. eins og nánar er rakið í erindinu, dags. 10. janúar sl.

Í erindinu eru nefnd dæmi sem varða Ríkissjónvarpið, Sirkus, Skjá Einn og Stöð 2.

Í X. kafla útvarpslaga nr. 53/2000 eru fjórar tegundir viðurlaga sem unnt er að beita sjónvarpsstöðvar við ólíkum brotum gegn lögunum:

  • refsingar í formi fésekta (28. gr.),
  • stjórnvaldssektir (1. mgr. 30. gr.),
  • afturköllun útvarpsleyfis (31. gr.) og
  • áminning – sem undanfari hugsanlegra stjórnvaldssekta (5. mgr. 30. gr.) eða mögulegrar afturköllunar útvarpsleyfis (31. gr.)

Í erindinu fara Lýðheilsustöð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna fram á að útvarpsréttarnefnd beiti heimildum sínum til þess að kanna hvort bjórframleiðendur eða umboðsaðilar bjórtegunda greiði fyrir að vörur þeirra eða vörumerki séu kynnt í tengslum við tiltekna dagskrárliði eða í auglýsingatímum. Hafi sjónvarpsstöðvarnar brotið gegn útvarps- eða áfengislögum er þess farið á leit að útvarpsréttarnefnd beiti vægasta úrræðinu – áminningu - sem lög leyfa vegna brota á útvarpslögum, vegna þeirra dæma sem tilfærð eru í erindinu.

Sjá bréf Lýðheilsustöðvar, talsmanns neytenda og umboðsmanns barna, dags. 10. janúar sl. ásamt 3 fskj.

Nánari upplýsingar gefur Gísli Tryggvason,
talsmaður neytenda í síma 510 11 21 og GSM 897 33 14.


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica