1. september 2007

Útivistartími barna

Reglur um útivistartíma barna og unglinga breytast í dag, 1. september, þannig að útivistartíminn styttist um tvær klukkustundir.
Reglur um útivistartíma barna og unglinga breytast í dag, 1. september, þannig að útivistartíminn styttist um tvær klukkustundir. Nú mega börn 12 ára og yngri ekki vera á almannafæri eftir kl. 20:00 nema í fylgd með fullorðnum en börn á aldrinum 13 til 16 ára skulu ekki vera á almannafæri eftir kl. 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Reglur um útivistartíma er að finna í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
 
Sömu opinberu reglur gilda um öll börn í sama árgangi. Ýmsar ástæður eru fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á kvöldin.  Helstar eru:
  • Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skóla. 
  • Þreytt og illa sofið fólk er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum, sérstaklega þegar skyggja tekur.
  • Börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöldin eru líklegri til að fara fyrr að fikta við tóbak, áfengi og fíkniefni.
  • Alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla á sér oftast stað seint á kvöldin.
Reglur um útivistartíma segja til um hvað börn mega vera lengi úti en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti.  Foreldrar geta að sjálfsögðu sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna. 
 
Það gilda ekki neinar opinberar reglur um útivistartíma unglinga sem orðnir eru 16 ára gamlir. Unglingum ber þó að sjálfsögðu ennþá að fara eftir þeim reglum sem foreldrar þeirra eða forsjáraðilar setja þeim. Mikilvægt er að foreldrarnir hlusti á unglingana og taki réttmætt tillit til skoðana þeirra en það breytir því ekki að foreldrarnir bera ábyrgð á velferð unglingsins og þeir eiga alltaf lokaorðið. Best er auðvitað þegar unglingar og foreldrar koma sér sameiginlega upp reglum sem allir eru sáttir við.

 
 
 
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica