19. maí 2014

Úrræði fyrir börn sem hafa brotið af sér

Umboðsmaður barna hefur sent félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra bréf þar sem hann hvetur þá til að beita sér fyrir því að stjórnvöld uppfylli skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að úrræðum fyrir börn sem brotið hafa af sér eða eru grunuð um afbrot. Í bréfinu er tengill á meira efni og bréfaskriftir um sama málaflokk á vef umboðsmanns barna.

Bréfið er svohljóðandi:

Félagsmálaráðherra – Eygló Harðardóttir
Innanríkisráðherra – Hanna Birna Kristjánsdóttir

Reykjavík, 15. maí 2014
UB:1405/8.5.1.0

Efni: Úrræði fyrir börn með afbrotavanda

Á undanförnum dögum hefur átt sér stað umræða í fjölmiðlum um alvarlegt kynferðisbrot, þar sem bæði sakborningar og brotaþoli eru börn. Brýnt er að tekið sé á málinu í samræmi við alvarleika þess og brotaþola veitt aðstoð og stuðningur við hæfi. Umboðsmaður barna telur sig þó knúinn til þess að ítreka þær miklu áhyggjur sem hann hefur af því úrræðaleysi sem ríkir í málefnum barna sem grunuð eru um eða hafa verið dæmd fyrir afbrot. Hefur hann margoft bent á nauðsyn þess að koma á fót meðferðarheimili þar sem börn sem hlotið hafa fangelsisdóma geta afplánað refsingu sína. Má til dæmis benda á frétt á heimasíðu umboðsmanns barna, frá 9. september 2013. Því miður hefur velferðarráðuneytið lýst því yfir að ekki sé stefnt á að koma á fót slíku úrræði.

Nú er staðan sú að fjögur börn hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á Litla Hrauni, en umboðsmaður barna telur það ekki í samræmi við réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Á það við jafnvel þó að þau séu í einangrun og ekki innan um eldri fanga. Þar sem einangrun er sérstaklega íþyngjandi fyrir börn er enn frekari ás tæða til að tryggja að aðstæður séu í samræmi við hagsmuni og þarfir þeirra.

Þó að meginreglan sé sú að almennt beri að forðast að úrskurða börn í gæsluvarðhald er ljóst að slíkt getur verið nauðsynlegt í ákveðnum tilvikum, til dæmis vegna mikilvægra rannsóknarhagsmuna. Umboðsmaður barna telur þó ekki í samræmi við réttindi og hagsmuni barna að vera vistuð í gæsluvarðhaldi í fangelsum, enda eru flestir sammála um að fangelsi eru ekki staður fyrir börn.

Þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn þarf að huga að sérstöðu þeirra og hafa það sem er þeim fyrir bestu að leiðarljósi, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans. Á það við um öll börn, óháð því hvort þau hafa komist í kast við lögin eða ekki. Samkvæmt Barnasáttmálanum þurfa viðbrögð við afbrotum barna að vera til þess fallin að hafa uppbyggileg áhrif og miða að því að koma í veg fyrir áframhaldandi brotahegðun, sbr. meðal annars 40. gr. sáttmálans.

Af c-lið 37. gr. Barnasáttmálans leiðir að almennt er ekki er heimilt að vista börn með fullorðnum föngum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur túlkað umrætt ákvæði með þeim hætti að ekki sé heimilt að vista börn í fangelsum sem ætluð eru fyrir fullorðna. Hefur nefndin því talið nauðsynlegt að ríki komi á fót sérstökum úrræðum fyrir börn sem svipt hafa verið frelsi sínu, þar sem aðstæður og verklag taka mið af þörfum barna og til staðar er fagfólk með sérþekkingu á málefnum þeirra.

Samfélagið í heild ber mikla ábyrgð gagnvart þeim börnum sem brjóta af sér. Harkaleg viðbrögð og umfjöllun um afbrot barna stuðlar ekki að bættri hegðun heldur getur þvert á móti aukið líkurnar á áframhaldandi brotum.

Umboðsmaður barna telur afar brýnt að stjórnvöld beiti sér fyrir úrbótum í þessum málaflokki og uppfylli skyldur sínar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður telur það með öllu óásættanlegt að réttindi barna séu ítrekað brotin að þessu leyti.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica