2. apríl 2014

Upptaka eigna í grunnskólum

Börn njóta eignaréttar eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildir grunnskóla til að taka eignir af nemendum.

SkoliÍ sumum skólum eru reglur um það að starfsfólk skóla megi taka eignir nemenda, svo sem síma eða bolta, af nemendum til að halda uppi aga. Yfirleitt mega nemendur sækja þessa muni í lok skóladags en stundum þurfa foreldrar að koma í skólann til að sækja þessar eigur barna sinna. Margir hafa velt því fyrir sér hvort þetta megi.

Börn njóta eignaréttar eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildir grunnskóla til að taka eignir af nemendum. Það þýðir að kennurum eða öðrum er almennt óheimilt að taka eignir nemenda, nema um sé að ræða muni sem geta stefnt þeim sjálfum eða öðrum í hættu.

Nemendur í grunnskólum verða að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks,  eins og meðal annars kemur fram í 14. gr. laga um grunnskóla og 4. gr. reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Skólar eða einstaka kennarar geta að sjálfsögðu ákveðið að óheimilt sé að vera með ákveðna muni í kennslustundum, svo sem síma. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum kennara er heimilt að bregðast við í samræmi við skólareglur. Þannig gæti kennari til dæmis byrjað á því að áminna nemanda en ef það dugar ekki til er hægt að vísa honum úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra. Þegar um er að ræða hegðun sem getur valdið öðrum skaða eða eignatjóni getur starfsfólk þó brugðist við á grundvelli neyðarréttar, til dæmis með því að taka bolta eða aðrar eignir af nemendum. Þegar brugðist er við broti nemanda þarf alltaf að gæta meðalhófs, en það þýðir meðal annars að velja verður vægasta úrræðið sem kemur til greina.

Í þeim tilvikum sem skólar hafa talið nauðsynlegt að fjarlægja eignir nemanda ber þeim að skila þeim til  baka eins fljótt og hægt er. Að mati umboðsmanns barna er ekki rétt að gera kröfu um að foreldrar sæki eignir nemanda, enda eiga börn sjálfstæðan eignarétt. Ef brot nemanda er alvarlegt eða ítrekað getur skóli hins vegar ákveðið að kalla foreldra á fund til þess að ræða hegðun nemanda og hafa samráð við þá um hvernig best er að stuðla að bættri hegðun. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica