12. júní 2015

Upplýsingar um börn í samfélagsmiðlum

Allir – þar á meðal börn – eiga rétt á því að njóta friðhelgi einkalífs. Ef foreldrar vilja birta einkunnir eða upplýsingar um námsárangur barna sinna er mikilvægt að foreldrar biðji börnin um leyfi til að gera það.

Frettir Og FrodleikurÞessa dagana eru margir foreldrar að birta upplýsingar um námsárangur barna sinna á samfélagsmiðlum. 

Umboðsmaður barna vill benda á að einkunnir eru einkamál. Ef foreldrar vilja birta einkunnir eða upplýsingar um námsárangur barna sinna er mikilvægt að foreldrar biðji börnin um leyfi til að gera það. Það er auðvitað gleðilegt fyrir okkur hin að sjá falleg ummæli stoltra foreldra um börn sín og myndir af börnum sem hafa staðið sig vel og gert góða hluti. Langflestir foreldrar sem deila upplýsingum um börn sín á netinu gera það smekklega og af virðingu við viðkomandi börn. Það er þó gott að hafa í huga að stundum eru minni upplýsingar betri en meiri.

Allir – þar á meðal börn – eiga rétt á því að njóta friðhelgi einkalífs. Friðhelgi einkalífs felur meðal annars í sér rétt til þess að ráða yfir lífi sínu og líkama og til þess að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi.

Forsjá foreldra takmarkar í ákveðnum tilvikum friðhelgi einkalífs barna, þar sem foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og þurfa að taka sumar ákvarðanir fyrir þeirra hönd, í samræmi við aldur og þroska barnanna. Foreldrar þurfa þó samt sem áður að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta opinberlega myndir eða upplýsingar um börn sín, t.d. á facebook eða í öðrum miðlum. Þetta á sérstaklega við um myndir eða upplýsingar sem mögulega geta verið viðkvæmar fyrir barnið eða ætla má að barnið kæri sig ekki um að aðrir hafi vitneskju um. Í þessu sambandi þarf að huga að því hvort það sé líklegt að barnið sé sátt við það að þessar upplýsingar eða myndir verði til það sem eftir er, því eins og við vitum þá geta upplýsingar sem eru settar á netið fylgt einstaklingum til framtíðar.

Mikilvægt er að við setjum okkur í spor barnanna og birtum ekki myndir af þeim eða upplýsingar um þau sem við myndum sjálf ekki vilja að myndu birtast af okkur eða um okkur. Á þetta til dæmis við um myndir sem sýnir barn í viðkvæmum aðstæðum. En jafnvel þó að við sjálf hefðum ekkert á móti myndbirtingu eða birtingu tiltekinna upplýsinga um okkur þarf ekkert endilega að börnin verði sátt við þetta mat foreldra sinna þegar fram í sækir.

Eftir því sem börn eldast og þroskast eiga þau að ráða meiru um það hvernig og um hvaða málefni þau kjósa að tjá sig. Ef barn vill birta persónulegar upplýsingar um sig sjálft er rétt að leyfa það svo framarlega sem það skaðar ekki barnið sjálft eða einhvern annan. Þá er gott að hafa rætt vel um góðar og slæmar hliðar netsins og um ábyrga meðferð á myndum og öðrum upplýsingum. Foreldrar bera ábyrgð á því að ræða þessi mál og hugsanlega setja einhver viðmið eða reglur um birtingu upplýsinga í samvinnu við börn sín. Þannig má stuðla að því að sem flestir verði sáttir þegar til lengri tíma er litið.

Hér á vefnum okkar er birt svar við spurningunni: Er leyfilegt fyrir foreldra að birta myndir eða aðrar upplýsingar um börn sín á netinu, til dæmis á facebook, bloggsíðum eða öðrum sambærilegum síðum?

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica