28. mars 2022

Ungmenni sem lenda í umferðaróhöppum

Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um verklag sem viðhaft er af fyrirtækinu Aðstoð og öryggi ehf. þegar ólögráða ökumenn lenda í umferðaróhappi. 

Embættið óskaði fyrst eftir upplýsingum þann 22. febrúar um verklag Aðstoð og Öryggis ehf. (Árekstur.is) í þeim umferðaróhöppum þegar um ólögráða ökumenn koma við sögu. 

Þó svo að bílprófsaldur sé 17 ára þá eru allir einstaklingar undir 18 ára aldri börn og eiga rétt á sérstakri vernd umfram fullorðna. Ekki virðist tekið tillit til aldurs og reynsluleysis ólögráða ökumanna i því svari sem barst til embættisins og gaf það tilefni til frekari bréfaskipta. Umboðsmaður barna sendi því aftur bréf til Aðstoð og öryggis ehf. auk þess sem afrit var sent á þau tryggingafyrirtæki sem fyrirtækið þjónustar. 

Í bréfi sínu beinir umboðsmaður barna því til Aðstoðar og öryggis að búa til verklag sem lýtur að því  sérstaklega þegar um er að ræða ólögráða ökumenn sem lenda í umferðaróhöppum og tekur mið af viðkvæmri stöðu þeirra.

Umboðsmaður barna lýsir sig reiðubúinn til samráðs við gerð slíkra verklagsreglna. 

Embætti umboðsmanns barna hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra. Samkvæmt lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, er umboðsmanni jafnframt ætlað að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Ítarefni


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica