25. nóvember 2020

Ungmenni funda með menntamálaráðherra

Menntamálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hitti börn úr ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ungmennaráði heimsmarkmiðanna á fundi síðastliðinn föstudag, á degi mannréttinda barna.

Á fundinum sögðu börnin menntamálaráðherra frá sínum upplifunum af Covid ástandinu og voru andleg heilsa barna í skólum og grímunotkun þar helstu forgangsatriði. Þar var velt upp kostum og göllum fjarnáms og staðnáms, mikilvægi þess að tillit væri tekið til andlegrar vellíðunar í skólum, og rétt notkun á grímum. Einnig ræddu börnin um mikilvægi þess að huga að umhverfinu og hvetja til notkunar á fjölnota grímum og gæta þess að einnota grímum væri fargað rétt. Í lok fundar kynnti menntamálaráðherra nýja menntastefnu sem var mælt fyrir á þingi í vikunni. Hún fór yfir helstu atriði stefnunar og sagðist muna óska eftir athugasemdum frá hópunum á næstunni. 

Fundurinn fór fram á netinu og 17 börn úr ráðunum tveimur mættu til leiks. Menntamálaráðherra endaði fundinn á hvatningu til barnanna og hrósaði þeim fyrir gott samtal og frábæra hluti sem þau hefðu verið að vinna. Hún hvatti þau til að halda áfram að vera svo dugleg og minnti á að þetta ástand mun taka enda. Við þurfum að halda áfram, saman!


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica