16. nóvember 2009

Ungmennaráðin afhenda þingmönnum afmælisgjöf

Ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og UNICEF gefa þingmönnum afmælisgjöf í tilefni afmælisviku Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og UNICEF gefa þingmönnum afmælisgjöf í tilefni afmælisviku Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þingmenn fengu í morgun gjöf frá ungmennaráðum umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Um er að ræða upplýsingabækling um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er ætlað að auðvelda þingmönnum að kynna sér þennan mikilvæga mannréttindasamning. Þann 20. nóvember nk. er því fagnað að 20 ár eru liðin frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þann sama dag, og af því tilefni, á frumvarp um lögfestingu Barnasáttmálans hérlendis að vera tilbúið til afgreiðslu Alþingis.

Gjöf í morgunsárið
Þegar þingmenn mættu til vinnu í morgun, mánudag, beið upplýsingabæklingur um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í hólfi þeirra, með gjafaborða og sérmerktu korti. Um er að ræða gjöf frá ungmennaráðum umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF)  í tilefni af afmæli sáttmálans 20. nóvember næstkomandi. Ungmennaráðin vildu með þessu vekja athygli þingmanna á réttindum barna og hvetja þá til að kynna sér efni Barnasáttmálans.

Stuðlað að réttindabótum fyrir íslensk börn og ungmenni
Enginn mannréttindasamningur hefur verið fullgiltur af jafn mörgum ríkjum og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan tvö, hafa fullgilt samninginn. Hérlendis hefur Barnasáttmálinn stuðlað að ýmsum mikilvægum réttindabótum fyrir börn frá því að Ísland fullgilti hann árið 1992. Fyrirhugað er að frumvarp um lögfestingu sáttmálans  verði tilbúið til afgreiðslu á þinginu á afmælisdegi hans, 20. nóvember.

Nánari upplýsingar veita: Bergsteinn Jónsson (UNICEF) í síma 615 4049 og Elísabet Gísladóttir (umboðsmanni barna) í síma 697 6094.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica