28. október 2011

Ungmennaráð í sveitarfélögum

Umboðsmaður barna er ánægður með að málefnum ungmennaráða hafi verið fundinn staður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og vonast eftir góðu samstarfi í framtíðinni.

Umboðsmaður barna hefur fengið fregnir af því að Valur Rafn Halldórsson, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga væri nú með málefni ungmennaráða í sveitarfélögum landsins á sinni könnu. Í samtali við embætti umboðsmanns barna staðfesti hann það og að hann væri hefja vinnu við að safna upplýsingum um fulltrúa í ungmennaráðum landsins. Umboðsmaður barna er ánægður með að málefnum ungmennaráða hafi verið fundinn staður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og vonast eftir góðu samstarfi í framtíðinni.

Mikilvægi lýðræðisþátttöku barna
Virk þátttaka barna í lýðræðinu er mikilvæg svo þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar samfélagsins. Þátttaka barna er ekki síður mikilvæg svo þeir sem eldri eru fái notið hinnar einstöku sýnar þeirra á nánasta umhverfi sitt. Stjórnvöld, þ.á.m. sveitarfélög, eiga að hlusta á skoðanir barna og virða þær eins og fram kemur í 12. gr. Barnasáttmálans. Sveitarfélögum ber að tryggja börnum og unglingum lýðræðislega þátttöku á þeirra eigin forsendum. Á það fyrst og fremst við um málefni er snerta börn á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun. Sem dæmi má nefna skólastarf, tómstundastarf, forvarnastarf og skipulag nánasta umhverfis. 

Mismikill áhugi sveitarfélaga
Með æskulýðslögum nr. 70/2007 var lögfest sú skipan í 2. mgr. 11. gr. laganna að sveitarstjórnir skuli hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélagi þeirra. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir eiga að setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð. Árið 2008  gerði umboðsmaður barna könnun á stöðu ungmennaráða á landinu en þar kom í ljós að af 76 sveitarfélögum á Íslandi voru aðeins starfrækt ungmennaráð í 18 sveitarfélögum en þó stóð til að stofna ungmennaráð í 28 sveitarfélögum á þeim tíma. Vonandi hefur margt vatn runnið til sjávar síðan þá. Könnun umboðsmanns leiddi einnig ljós að ungmennaráð eru einkum til staðar í stærri sveitarfélögum landsins en það þýðir að börn á landsbyggðinni hafa hugsanlega ekki sömu tækifæri til þess að tjá sig og hafa áhrif á samfélagið á formlegum grundvelli.

Vantar samræmdar reglur
Engar samræmdar reglur hafa verið settar um skipun og starfsemi ungmennaráða en það er á ábyrgð sveitarstjórna hvaða fyrirkomulag er haft í þeim efnum. Í mörgum sveitarfélögum eru þær reglur sem hafa verið settar fyrir ungmennaráð til fyrirmyndar en í öðrum sveitarfélögum þarf að huga betur að reglunum. Að mati umboðsmanns barna er þörf á  að setja samræmdar reglur til þess að ná þeim markmiðum sem er stefnt að með stofnun ungmennaráða.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica