10. apríl 2007

Ungmennaráð í hvert sveitarfélag

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að 17. mars sl. voru samþykkt á Alþingi ný æskulýðslög. Í lögunum er í fyrsta skipti lagt að sveitarstjórnum að hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélögunum.

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að 17. mars sl. voru samþykkt á Alþingi ný æskulýðslög. Í lögunum er í fyrsta skipti lagt að sveitarstjórnum að hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélögunum.
 
Embætti umboðsmanns barna hefur lengi barist fyrir því að sveitarstjórnum verði gert skylt að setja á laggirnar ungmennaráð og fagnar því framkomu hinna nýju laga. Virk þátttaka barna í lýðræðinu er mikilvæg svo þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar samfélagsins.  Þátttaka barna er ekki síður mikilvæg svo þeir sem eldri eru fái notið hinnar einstöku sýnar þeirra á nánasta umhverfi sitt.
 
Hið nýja ákvæði er svohljóðandi:

V. KAFLI
Stuðningur sveitarfélaga við æskulýðsstarf.
11. gr.

     Sveitarstjórnir setja sér reglur um á hvern hátt stuðningi við frjálst æskulýðsstarf skuli háttað. Sveitarfélög hafa starfandi æskulýðsnefndir eða sambærilegar nefndir samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
    Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

Í athugasemdum við frumvarpið segir um 11. gr:

     Í greininni er fjallað um stuðning sveitarfélaga við æskulýðsstarf. Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að fjölbreyttu framboði af æskulýðsstarfi fyrir börn og ungmenni. Í 1. mgr. er lagt til að sveitarstjórnir setji sér reglur um það hvernig stuðningi við frjálst æskulýðsstarf í sveitarfélaginu skuli háttað. Þá er lagt til að í sveitarfélögum séu starfandi æskulýðsnefndir eða sambærilegar nefndir samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að sveitarstjórnir hlutist til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélögum. Lagt er til að hlutverk ungmennaráða verði m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Þá er lagt til að sveitarstjórnir setji sér nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.
    Í mörgum sveitarfélögum eru starfræktar frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, félagsheimili, ungmennahús, námskeið og vinnuskólar fyrir börn á vegum sveitarfélagsins. Á þessum stöðum fer fram mikið starf með börnum og hafa t.d. félagsmiðstöðvar með sér gott samstarf. Þá eru í nokkrum sveitarfélögum starfrækt Ungmennahús fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Á nokkrum þeim stöðum hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun slíkra húsa í samstarfi við sveitarfélög, samtök og stofnanir. Mörg sveitarfélög verja umtalsverðum fjármunum í þessa starfsemi. Þá hafa mörg sveitarfélög starfandi sérstakan starfsmann, æskulýðs-, tómstunda- og/eða forvarnafulltrúa sem sinnir ýmsum málum er varða málaflokkinn á vegum sveitarfélagsins. Í skýrslu nefndarinnar frá maí 2003 og á fundum og ráðstefnum hefur komið fram hjá ýmsum aðilum er standa að frjálsu félagsstarfi að þeir telja að ójafnt sé skipt fjármunum sveitarfélagsins sem varið er til starfsins og fái starf þeirra oft litla fjármuni eða aðstoð frá sveitarfélaginu. Víða í nágrannalöndum okkar og víða í Evrópu eru settar ríkar skyldur á herðar sveitarfélaga að standa fyrir og leggja fram fjármuni og aðstöðu til starfsemi fyrir börn og unglinga í viðkomandi byggðarlagi. Mikilvægt er að stutt sé við bakið á þeim einstaklingum og félögum er vinna með og fyrir börn og ungmenni í viðkomandi sveitarfélagi og þannig stuðlað að því að sem fjölbreyttast starf sé í boði á viðkomandi stað.
    Í greininni er einnig fjallað um hversu mikilvæg aðkoma ungmenna að ákvarðanatöku er, sbr. einnig 1. gr., en þar segir að í öllu starfi með börnum og ungmennum skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Þá er í hvítbók Evrópusambandsins lögð áhersla á hlutverk og skyldur sveitarfélaga í málaflokknum. Á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg er starfandi sveitar- og héraðsstjórnarþing Evrópuráðsins CLARIS. Á fundum þingsins er fjallað um ýmis málefni sem er flestum sveitarfélögum sameiginlegt, þar á meðal um málefni barna og ungmenna. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá aðalfulltrúa og þrjá til vara til setu á þinginu.
    Mikilvægi aðkomu ungmenna að ákvarðanatöku er einnig áhersluatriði í samþykktum Norrænu ráðherranefndarinnar Norðurlönd á leið inn í nýtt árþúsund. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að sveitarstjórnir hlúi að og stuðli að fjölbreyttri þátttöku barna og ungmenna í frjálsu æskulýðsstarfi og að þeim séu gefin tækifæri til að hafa virk áhrif á nærumhverfi sitt. Umræðan um að ungt fólk komi meira að ákvarðanatöku um málefni er þau varða er vaxandi hér á landi eins og víða um lönd. Lögð er áhersla á að auka þátttöku ungs fólks á sem flestum sviðum þjóðlífsins og ekki síst í nærumhverfinu. Liður í því er að koma á ungmennaráðum þar sem ungmennin geta komið á framfæri sjónarmiðum og hugðarefnum sínum.
    Með því að sveitarstjórnir setji á laggirnar ungmennaráð er komið til móts við óskir um lýðræðislega aðkomu ungs fólks. Með þátttöku í ungmennaráðum hafa þau möguleika á því að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri við kjörna fulltrúa sveitarfélaga. Mikilvægt er að val í ungmennaráð sé lýðræðislegt og þess gætt að fulltrúar sem flestra félaga og hópa eigi aðild að þeim. Þar er átt við að ungmenni úr t.d. æskulýðsfélögum, nemendafélögum grunn- og framhaldsskóla, félagsmiðstöðvum, ungmennahúsum og öðrum hópum eigi fulltrúa í ungmennaráðum. Einungis þannig fæst fram sú fjölbreytni og þau sjónarmið sem gera lýðræðislega þátttöku ungmenna svo mikilvæga og eftirsóknarverða.
    Ekki eru sett fram aldursviðmið í frumvarpið um ungmennaráð, en þar sem slík ungmennaráð eru starfandi er oft miðað við aldurshópinn 13–17 ára. Átján ára eru ungmennin komin með kosningarétt og geta þá með atkvæði sínu haft áhrif á val kjörinna fulltrúa.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica