30. apríl 2015

Ungmennaráð funda með menntamálaráðherra

Í gær funduðu fulltrúar frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, ungmennaráði Barnaheilla og ungmennaráði UNICEF með mennta- og menningarmálaráðherra. Á fundinum var rætt um helstu málefnin sem brenna á ungmennaráðunum varðandi menntamál.

Í gær funduðu fulltrúar frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, ungmennaráði Barnaheilla og ungmennaráði UNICEF með Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, á skrifstofu umboðsmanns barna. Tilgangurinn með fundinum var að ræða helstu málefnin sem brenna á ungmennaráðunum varðandi menntamál.

Fundur með menntamálaráðherra apríl 2015

Alls voru 11 ungmenni á fundinum á aldrinum 14 til 18 ára. Kristján Helgason bauð ráðherra velkominn á fundinn og fjallaði stuttlega um það hversu mikilvæg menntamál eru fyrir börn og ungmenni. Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir fjallaði um rétt barna til að hafa áhrif á öll mál sem varða þau og þá ekki síst menntamál. Inga Huld Ármann fjallaði um kennaramat og endurmenntun kennara og mikilvægi þess að nemendur fái að hafa meiri áhrif í sínum skólum. Sara Mansour benti á að nýta ætti betur lífsleiknitíma í skólum og auka hagnýtt nám. Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir benti á að börn þurfa að fá meiri fræðslu um það sem er að gerast í samfélaginu á hverjum tíma. Einar Freyr Bergsson fór yfir mikilvægi þess að kenna börnum um lýðræði og auka áhuga þeirra á stjórnmálum. Lilja Hrönn Önnu-Hrannarsdóttir ræddi um hversu brýnt er að auka réttindafræðslu og fræðslu um minnihlutahópa. Þorbjörg Arna Jónasdóttir fjallaði um íþrótta- og sundkennslu og benti á þörfina á að taka aukið tillit til fjölbreytileika nemenda. María Fema Wathne fjallaði um nauðsyn þess að allir nemendur fái nám við hæfi og að tekið sé tillit til mismunandi getu og þarfa hvers og eins. Anna Ólöf Jansdóttir fór yfir mismunandi kröfur sem grunnskólar gera til nemenda og nefndi inntökupróf í framhaldsskóla sem mögulega lausn til að jafna stöðu nemenda. Loks ræddi Lilja Reykdal Snorradóttir um skólamat og mikilvægi þess að tryggja að öll börn fái holla og góða næringu, án tillits til efnahags foreldra. 

Fundurinn var skemmtilegur og gagnlegur fyrir alla aðila. Menntamálaráðherra tók undir margt af því sem kom fram á fundinum og óskaði sérstaklega eftir því að fá að funda aftur með hópnum í haust. Fulltrúar ungmennaráðanna eru þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og vona að fundurinn verði til þess að ráðherra leiti oftar eftir sjónarmiðum barna og ungmenna áður en teknar eru ákvarðanir um menntamál. 

Fundur með menntamálaráðherra apríl 2015 2

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica