19. nóvember 2009

Ungmennaráð afhenda forsætisráðherra ályktun og ljósmyndir

Ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og UNICEF hafa afhent forsætisráherra ályktun sína um velferð íslenskra barna ásamt myndaalbúmi með myndum af hetjum barnanna.

Ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafa samið ályktun sem snýr að velferð barna á Íslandi. Ályktunin var afhent forsætisráðherra í dag, fimmtudag, klukkan 15. Til að kanna stuðning almennings við innihald ályktunarinnar söfnuðu ungmennaráðin stuðningsaðilum við hana í verslunarmiðstöðinni Smáralind í gær. Ljósmyndir af stuðningsaðilunum verða afhentar ásamt ályktuninni.

Hetjulegur stuðningur og ágrip um innihald ályktunarinnar
Ungmennaráðsmeðlimir afhentu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, ályktunina í Stjórnarráðinu klukkan 15 í dag ásamt ljósmyndum af gestum og gangandi úr Smáralind sem boðið var að gerast stuðningsaðilar. Ályktunin fjallar um réttindi barna og velferð á Íslandi, en í henni segir m.a.: „Samkvæmt 3. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld ávallt hafa það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi í ákvörðunum sínum og hugsa um það hvaða áhrif athafnir þeirra hafa á börn.“  Afhending ályktunarinnar er liður í afmælisviku Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem á 20 ára afmæli á morgun, 20. nóvember.

Um Barnasáttmálann
Enginn mannréttindasamningur hefur verið fullgiltur af jafn mörgum ríkjum og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan tvö, hafa fullgilt samninginn. Hérlendis hefur Barnasáttmálinn stuðlað að ýmsum mikilvægum réttindabótum fyrir börn frá því að Ísland fullgilti hann árið 1992. Frumvarp um lögfestingu sáttmálann í heild sinni verður lagt fyrir Alþingi í vetur.

Nánari upplýsingar veita: Bergsteinn Jónsson (UNICEF) í síma 615 4049 og Elísabet Gísladóttir (umboðsmanni barna) í síma 697 6094.

 

 

Ályktunin

Í tilefni af 20 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skorum við, ungmennaráð umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), á íslensk stjórnvöld að standa alltaf vörð um réttindi barna.

Samkvæmt 3. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld ávallt hafa það sem börnum er fyrir bestu að leiðarljósi í ákvörðunum sínum og hugsa um það hvaða áhrif athafnir þeirra hafa á börn. Við höfum áhyggjur af því að í niðurskurðinum sem nú á sér stað í samfélaginu séu meiri líkur á að réttindi barna séu brotin. Það er því sérstaklega mikilvægt nú að tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á og hugsa sérstaklega um þau börn sem standa höllum fæti í samfélaginu. Það er skylda stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum að leita annarra leiða í niðurskurði áður en þjónusta við börn er skert.

Einnig hvetjum við stjórnvöld til þess að virða 12. grein Barnasáttmálans og hafa samráð við börn og unglinga áður en teknar eru ákvarðanir sem þau varða.

Fyrir hönd ungmennaráða umboðsmanns barna,
Barnaheilla og UNICEF, 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica