17. apríl 2007

Unglingar vilja skýr mörk - sænsk könnun

Unglingar vilja að foreldrar þeirra setji þeim mörk og vilja ekki að foreldrar kaupi fyrir þá áfengi eða bjóði þeim upp á bjór og vín. Þetta kemur fram í könnun sem umboðsmaður barna í Svíþjóð gerði meðal ráðgjafarbekkja sinna.

Unglingar vilja að foreldrar þeirra setji þeim mörk og vilja ekki að foreldrar kaupi fyrir þá áfengi eða bjóði þeim upp á bjór og vín.  Þetta kemur fram í könnun sem umboðsmaður barna í Svíþjóð gerði meðal ráðgjafarbekkja sinna. Greint er frá könnuninni á vefsíðu sænska umboðsmannsins, en börnin höfðu einmitt hvatt umboðsmann sinn til að fjalla um ávana- og fíkniefni. Um 800 börn og unglingar á aldrinum 10-18 tóku þátt í könnuninni þar sem þau voru spurð um fíkniefni, áfengi og tóbak. Kom fram að 93% svarenda vildu skýr mörk hvað varðar notkun efnanna. Unglingarnir telja að foreldrar ættu að banna börnum sínum að drekka áfengi. Unga fólkið vildi heldur ekki að foreldrarnir yrðu ölvaðir í návist þeirra, þótt eitt eða tvö glös af víni væru í lagi. 

 

Eftirfarandi ráð eru frá börnunum og unglingunum til foreldra: 

  1. Hugsaðu um þitt eigið viðhorf til áfengis, tóbaks og vímuefna.
  2. Myndaðu snemma gott samband við barn þitt þannig að traust ríki á milli ykkar.
  3. Vertu opin(n) og hlustaðu á barnið þitt.
  4. Berðu virðingu fyrir því sem barninu finnst og ræddu opinskátt um viðhorf til áfengis.
  5. Settu barninu mörk og láttu þig það varða sem barnið gerir.
  6. Þegar þú setur mörk verður þú líka að útskýra hvað liggur að baki.
  7. Ef barnið fer yfir mörkin verður þú sem foreldri að bregðast við og vera til staðar fyrir barnið.
  8. Ekki gefa barninu þínu áfengi eða tóbak.

Að sögn Lenu Nyberg, umboðsmanns barna í Svíþjóð, hafa skoðanir foreldra mjög mikið að segja varðandi afstöðu barna og unglinga til áfengis, tóbaks og annarra vímuefna. Unga fólkið vill geta rætt við foreldra sína um þessi mál. Lena segir að unglingarnir vilji að foreldrarnir setji skýr mörk og  láti með því í ljós að þeim sé umhugað um þá. Þeim finnst óþolandi að geta ekki farið í partý án þess að verða fyrir þrýstingi að drekka áfengi. Þeim finnst óljóst hvar mörkin liggja; hvað eiga þau að vilja, þola og samþykkja? 

Lesa fréttatilkynningu sænska umboðsmannsins “Öppna för gränser - årets rapport till regeringen”


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica