28. maí 2015

Ungbörnum mismunað eftir stöðu foreldra

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til félagsmálaráðherra þar sem hann skorar á ráðherra til þess að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra.

Börnum er mismunað þegar kemur að réttinum til að njóta umönnunar foreldra sinna í fæðingarorlofi.

Í ákveðnum tilvikum er þessi réttur háður tilviljun. Sem dæmi má nefna að barn sem missir foreldri rétt fyrir fæðingu hefur tækifæri til að vera heima með eftirlifandi foreldri í 9 mánuði. Ef forsjárlaust foreldri deyr skömmu eftir fæðingu fær barnið hins vegar yfirleitt einungis tækifæri til að njóta umönnunar eftirlifandi foreldris í 6 mánuði.  

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til félagsmálaráðherra þar sem hann skorar á ráðherra til þess að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra.

Bréfið er svohljóðandi:

 

 Félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir
Hafnarhúsinu við Tryggvagötu
101 Reykjavík

 Reykjavík, 21. maí 2015
UB:1505/16.7

Efni: Ungbörnum mismunað eftir stöðu foreldra

Fjölmargar rannsóknir sýna hversu mikil áhrif fyrstu mánuðir og ár í lífi barna hafa á þroska, velferð, sjálfsmynd og samskipti þeirra seinna meir. Ennfremur hefur verið sýnt fram á mikilvægi þess að barn fái fullnægjandi tækifæri til þess að mynda tengsl við aðalumönnunaraðila sína, sem oftast eru foreldrar. Örvandi umönnun og tengslamyndun við foreldra skipta þannig miklu máli fyrir börn og hafa mikil áhrif á velferð þeirra og líðan til framtíðar. Umboðsmaður barna telur því mikilvægt að tryggja að ungbörn geti verið heima og notið umönnunar foreldra sinna sem lengst. Er því ánægjulegt að drög að fjölskyldustefnu til ársins 2020 geri ráð fyrir að unnið verði að því að lengja fæðingarorlof og hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi.

Réttur barna til að njóta umönnunar foreldra er verndaður í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Þessi réttur nýtur auk þess verndar ákvæða um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sbr. meðal annars 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ennfremur má benda á að samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar ber að tryggja börnum með lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Öll börn eiga að njóta sömu réttinda og er óheimilt að mismuna þeim vegna stöðu þeirra sjálfra eða foreldra þeirra, sbr. meðal annars, sbr. 2. gr. Barnsáttmálans og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. 

Núgildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er ætlað að tryggja greiðslur til foreldra sem gera þeim kleift að taka frí frá vinnu eða námi til að sinna umönnun barna sinna. Þegar barn á tvo foreldra sem taka virkan þátt í uppeldi þess getur hvort foreldri um sig tekið þriggja mánaða fæðingarorlof, auk þess sem foreldrar eiga sameiginlega rétt á þremur mánuðum. Í þeim tilvikum sem barn á einungis eitt foreldri sem tekur virkan þátt í uppeldi þess er staðan hins vegar mismunandi eftir aðstæðum foreldra.

Í 4. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er gert ráð fyrir því að foreldri geti tekið fæðingarorlof í allt að níu mánuði ef hitt foreldrið andaðist á meðgöngu barnsins. Ef foreldri andast eftir fæðingu barns en áður en það nær 24 mánaða aldri færist réttur hins látna til fæðingarorlofs til hins foreldrisins, sbr. 8. mgr. ákvæðisins. Í framkvæmd hefur umrætt ákvæði verið túlkað þannig að rétturinn færist eingöngu yfir ef foreldrar hafi verið með sameiginlega forsjá eða ef fyrir liggur samningur um umgengni. Eru því litlar líkur á því að rétturinn færist yfir ef forsjárlaust foreldri deyr skömmu eftir fæðingu barns, enda ólíklegt að foreldrar hafi þá haft tækifæri til að semja um umgengni. Þannig fær barn sem á foreldri sem andast skömmu fyrir fæðingu þess tækifæri til að njóta umönnunar foreldra í 9 mánuði. Sama á við um barn sem missir foreldri skömmu eftir fæðingu, ef foreldrar voru annaðhvort í skráðri sambúð eða hjúskap. Aftur á móti fær barn sem missir foreldri skömmu eftir fæðingu og foreldrar voru ekki í skráðir sambúð eða hjúskap einungis tækifæri til að njóta umönnunar eftirlifandi foreldris í 6 mánuði. Er því ljóst að börnum er mismunað að þessu leyti eftir stöðu foreldra þeirra. Um þetta er meðal annars fjallað í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis, í máli nr. 7934/2014, en þar er athygli ráðherra vakin á því að 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof samræmist mögulega ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og rétti barna og foreldra til friðhelgi fjölskyldulífs.   

Einhleypir foreldrar sem hafa gengist undir tæknifrjóvgun, ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur eiga rétt á níu mánaða fæðingarorlofi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þá getur foreldri, sem er ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar, framselt rétt sinn til fæðingarorlofs til hins foreldrisins, óháð því hvort forsjá er sameiginleg eða ekki, sbr. 9. mgr. 8. gr. laganna. Ef foreldrar geta ekki eða vilja ekki taka fæðingarorlof af öðrum ástæðum er ekkert svigrúm til að framselja þennan rétt. Dæmi um slík tilvik eru foreldrar sem búa erlendis og vilja ekki eða hafa ekki tök á sinna umönnun barns. Er því ljóst að börn í slíkri stöðu fá einungis fæðingarorlof með foreldrum sínum í 6 mánuði, en ekki 9 mánuði eins og önnur börn.  

Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof er meðal annars að hvetja báða foreldra til að taka virkan þátt í uppeldi og umönnun barna sinna frá fæðingu. Vissulega er mikilvægt að auka jafnrétti kynjanna og tryggja börnum samvistir við báða foreldra. Það má þó ekki gera á kostnað velferðar barna. Má í því sambandi benda á að þegar hagsmunir fullorðinna og barna vegast á eiga hagsmunir barna að vega þyngra, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans.

Eins og umboðsmaður barna hefur áður bent á er óásættanlegt að börnum sé mismunað þegar kemur að réttinum til að njóta umönnunar foreldra sinna í fæðingarorlofi. Nú þegar er hætta á að börn einstæðra foreldra séu í viðkvæmri stöðu og hafa rannsóknir sýnt að þau séu líklegri til að búa við bág kjör en önnur börn. Er því sérstaklega brýnt að tryggja að þessi börn fái sömu tækifæri og önnur börn til þess að njóta umönnunar og mynda sterk tengsl við aðalumönnunaraðila sinn á fyrstu mánuðum ævi sinnar. Umboðsmaður barna skorar á félags- og húsnæðismálaráðherra til þess að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra.

 

Virðingarfyllst,

_______________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica