19. janúar 2010

Umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna

Umboðsmanni barna bárust í nóvember sl. athugasemdir um fyrirhugaðan niðurskurð á umönnunargreiðslum til foreldra fatlaðra barna eða barna með alvarleg veikindi.

Umboðsmanni barna bárust í nóvember sl. athugasemdir um fyrirhugaðan niðurskurð á umönnunargreiðslum til foreldra fatlaðra barna eða barna með alvarleg veikindi. Í frumvarpi til fjárlaga var lagt til að umönnunarbætur yrðu  1.035 milljónir kr. fyrir árið 2010, en þær voru kr. 1.373 milljónir króna árið 2009. 

Mikilvægt er að tryggja fötluðum og langveikum börnum sérstaka aðstoð og stuðning, eins og meðal annars kemur fram í 23. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Telur umboðsmaður barna því nauðsynlegt að gæta ýtrustu varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða fjárframlög til þeirra. Í því sambandi má minna á meginreglu 3. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um að það sem er barninu fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Ber því ávallt að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert.

Í bréfi dags. 25. nóvember 2009 fór umboðsmaður barna því fram á það við félags- og tryggingamálaráðuneytið að fá upplýsingar um það hvort fyrirhugaður væri niðurskurður á umönnunargreiðslum til foreldra fatlaðra og langveikra barna. Ef svo væri hversu mikið myndu greiðslur fyrir hvert og eitt barn þá skerðast? Einnig var farið fram á upplýsingar um hvaða rök væru fyrir niðurskurðinum og hvort reynt hafi verið að leita annarra leiða.
 
Í svarbréfi ráðuneytisins segir m.a. að umönnunargreiðslur hafi vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum en þær hækkuðu t.d. um u.þ.b. 50% á milli áranna 2004 og 2008 og er áætlað að þær verði um 1,5 milljarður kr. árið 2009. Í bréfinu er svo fjallað um hið nýja kerfi sem tekið var upp árið 2007 og svo bætt árið 2008...
 ...en í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að við smíði frumvarpsins sem og í skýrslu nefndar frá árinu 2005 um rétt foreldra til launa í fjarveru frá vinnu og rétt til sjúkradagpeninga vegna langvarandi veikinda barna hafi komið fram, að eðlilegt sé að ákvæðin um umönnunargreiðslur verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra betur reglur um aðstoð til foreldra langveikra og fatlaðra barna vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við veikindi eða fötlun barnanna. Jafnframt segir í greinargerðinni að ráðherra muni jafnframt efna til endurskoðunar á umönnunargreiðslum innan tveggja ára frá gildistöku frumvarpsins, samhliða því greiðslukerfi sem lagt var til með frumvarpinu frá árinu 2007 og skuli þar meðal annars höfð hliðsjón af reynslunni.
Í bréfinu segir að lokum:
Nú hefur félags- og tryggingamálaráðherra því sett á laggirnar vinnuhóp sem hefur fengið það verkefni að hefja heildstæða endurskoðun á þeim málaflokki sem hér um ræðir og meta hann í heild sinni í ljósi reynslunnar. Hópnum er sömuleiðis ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar um þá aðhaldskröfu sem fram er sett í málaflokknum í fjárlögum ársins 2010. Í vinnuhópnum eiga sæti fulltrúar helstu hagsmunasamtaka foreldra þeirra barna sem hér um ræðir, þ.e. Þroskahjálpar og Umhyggju, enda lögð rík áhersla á það af hálfu ráðherra og ráðuneytis að mál þetta verði unnið í góðu samstarfi við þá sem hagsmuni hafa að gæta.
Eftir meðferð þingsins í desember var 200 milljónum bætt við umönnunarbæturnar þannig að það lítur út fyrir að þær verða 1.235 milljónir króna árið 2010.  Umboðsmaður mun halda áfram að fylgjast með málinu og vonar að hægt verði að finna viðunandi lausn á því.
 

Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica