27. júní 2022

Umboðsmaður barna í Búlgaríu

Umboðsmaður barna hefur síðastliðið ár verið þátttakandi í verkefni í samstarfi við búlgörsku samtökin „National Network for Children“ sem felur í sér áætlun um að setja á fót embætti umboðsmanns barna í Búlgaríu, en þar í landi er engin sjálfstæður opinber aðili sem stendur sérstaklega vörð um réttindi barna.

 Fyrr á árinu komu fulltrúar frá samtökunum í Búlgaríu til Íslands til að kynna sér embætti umboðsmanns barna ásamt því að fara í vettvangsferðir og fá kynningu frá öðrum aðilum innan stjórnsýslunnar og fræðast um útfærslu á margvíslegri þjónustu við börn hér á landi. Tilgangur heimsóknarinnar nú var fyrst og fremst að eiga umræður um réttindi barna og deila reynslu hérlendis frá um mikilvægi þess að hafa óháðan aðila sem er opinber talsmaður barna og gætir að og kynnir réttindi þeirra.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna og Stella Hallsdóttir, lögfræðingur, sátu marga fundi með ýmsum aðilum innan stjórnsýslunnar og félagasamtökum og má þar nefna fundi með umboðsmanni þingsins í Búlgaríu, þingmenn, dómsmálaráðherra, mennta- og vísindamálaráðherra, ásamt öðrum sérfræðingum innan ráðuneytanna og fulltrúa frá UNICEF í Búlgaríu. Auk þess sátu þær í panel á ársfundi samtakanna „National Network for Children“ þar sem margar góðar umræður um réttindi barna áttu sér stað. Mikil ánægja var með fundina og góðar samræður áttu sér stað um réttindi barna og leiðum til að ná þeim fram þar í landi.

Verkefnið er fjármagnað með styrk frá Uppbyggingarsjóði EES en markmið hans er að draga úr félagslegum og efnagaslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.

Bulgaria2

Bulgaria1

Bulgaria07

Bulgaria3

Bulgaria4


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica