27. janúar 2009

Umboðsmaður barna gagnrýnir dóm Hæstaréttar

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, hefur ritað dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og félags- og tryggingamálaráðuneytinu, bréf þar sem gagnrýndur er dómur Hæstaréttar í máli nr. 506/2008. Í málinu var X m.a. ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl) og gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir að hafa rassskellt tvö börn þá 6 ára og 4 ára.

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, hefur ritað dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og félags- og tryggingamálaráðuneytinu, bréf þar sem gagnrýndur er dómur Hæstaréttar í máli nr. 506/2008. Í málinu var X m.a. ákærður fyrir  brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl) og gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir að hafa m.a. rassskellt tvö börn þá 6 ára og 4 ára.

Í dómnum segir orðrétt: „Með 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur er refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans séu til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega. Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir að háttsemi ákærða, sem 1. liður ákæru tekur til, hafi farið út fyrir þau mörk, sem þetta ákvæði felur í sér.“ Jafnframt kemur fram að 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl.) eigi ekki við þegar foreldrar samþykkja ofbeldi gegn börnum sínum.

Þótt barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi ekki verið lögfestur hér á landi er Ísland skuldbundið að þjóðarétti að virða ákvæði hans. Í 19. gr. sáttmálans er börnum tryggð vernd gegn hvers konar ofbeldi, hvort sem það er í umsjá foreldra eða annarra. Til þess að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt 19. gr. barnasáttmálans telur umboðsmaður barna nauðsynlegt að breyta ofangreindu ákvæði barnaverndarlaga, sem og ákvæðum barnalaga 76/2003, þannig að það komi berum orðum fram í lögum að barn eigi rétt á vernd gegn hvers konar ofbeldi frá foreldrum sínum. Má því til stuðnings benda á 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944,  þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í því felst meðal annars að nauðsynlegt er að tryggja börnum fullnægjandi vernd gegn hvers kyns ofbeldi með lögum.

Umboðsmaður barna gagnrýnir þá lagatúlkun sem kemur fram í dóminum, að 217. gr. hgl. eigi ekki við um flengingar barna, ef foreldrar samþykkja þær.  Þótt samþykki þolanda geti leyst menn undan refsiábyrgð samkvæmt 217. gr. hgl., verður ekki fallist á það að foreldrar geti veitt slíkt samþykki fyrir hönd barna sinna, enda eru börn fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Jafnframt fær það ekki staðist lög og alþjóðlegar skuldbindingar að foreldrar geti samþykkt að börn þeirra verði beitt ofbeldi, enda ber þeim skylda til þess að vernda þau gegn slíku sbr. m.a. 2. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 19. gr. barnasáttmálans.

Hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum er ólíðandi, hvort sem ofbeldið er andlegt eða líkamlegt. Það getur að mati umboðsmanns barna ekki staðist að börnum sé veitt minni vernd gegn ofbeldi en fullorðnum. Umboðsmaður barna hefur því farið fram á að lögum verði breytt og börnum tryggð sú vernd sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum. 

Bréf umboðsmanns barna má sjá hér.

958273 0 7 Born I Leik


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica