9. september 2019

Umboðsmaður barna á LÝSU – rokkhátíð lýðræðisins

Umboðsmaður barna hélt erindi á LÝSU s.l. laugardag, 7. september, í samstarfi við frístunda- og forvarnardeild Akureyrarbæjar. Rætt var um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda, hvernig ríki og sveitarfélög haga samráði við börn og hvað mætti betur fara. Miklar umræður sköpuðust en samhljómur var í salnum um mikilvægi þess að finna lausnir og skapa betri farveg fyrir börn til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Umboðsmaður barna hélt erindi á LÝSU s.l. laugardag, 7. september, í samstarfi við frístunda- og forvarnardeild Akureyrarbæjar. Rætt var um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda, hvernig ríki og sveitarfélög haga samráði við börn og hvað mætti betur fara. Málstofan var hluti af verkefni sem félags- og barnamálaráðherra fól embætti umboðsmanns barna um að móta tillögur um breytt verklag með aukinni áherslu á börn og aukna þátttöku barna og ungmenna við stefnumótun. Miklar umræður sköpuðust en samhljómur var í salnum um mikilvægi þess að finna lausnir og skapa betri farveg fyrir börn til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Í pallborði voru Ásmundur, barnamálaráðherra, Ásthildur, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Andrés Ingi, þingmaður VG og talsmaður barna á Alþingi, og Brynjólfur Skúlason og Hildur Lilja Jónsdóttir, fulltrúar ungmennaráðs Akureyrarbæjar. Auk þess var umboðsmaður barna, Salvör Nordal, sem hóf málstofuna þar sem hún kynnti fyrirhugaða aðgerðaráætlun um þátttöku barna og ræddi samráð embættisins við börn.  Fundinum stýrðu Lilja Margrét, fulltrúi í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, og Ari Orrason, fulltrúi í ungmennaráði Akureyrarbæjar.

 

Þátttakendur í pallborði ásamt fundarstjórum

Þátttakendur í pallborði ásamt fundarstjórum

Af hverju er þátttaka barna í stefnumótun mikilvæg?

Fundarstjórar beindu framangreindri spurningu að pallborðsgestum. Hildur sagði að það væri mikilvægt að auka þátttöku barna á öllum sviðum samfélagsins, vegna þess að langflest málefni koma börnum við. Ásmundur tók í sama streng „Við erum alla daga að tala um það að við viljum gera betur fyrir börnin okkar, en við sem eldri erum erum ekki sérfræðingar í því að vera börn“. Ásthildur sagði að stjórnmálamenn geti einfaldlega ekki litið framhjá því sem börnin vilja. Salvör benti á mikilvægi þess að fá sjónarmið barna snemma í ákvörðunartökunni, þegar stefnan er mótuð en ekki bara þegar búið er að skrifa lagatextann. 

Alþingi og ráðuneytin

Fulltrúar ungmennaráðs Akureyrar komu inn á mikilvægi þess að börn fengju fræðslu um þau málefni sem rædd eru á Alþingi. Enginn einstaklingur vaknar á 18 ára afmælisdaginn sinn og veit allt um stjórnmál. Þá töldu þau mikilvægt að öll börn fengju fræðslu um stjórnmál, ekki bara framhaldsskólanemar í félagsfræðinámi, því stjórnmálin varða okkur öll. 

Áfram héldu umræður um áhrifaleysi ungs fólks í stjórnsýslunni. Andrés Ingi taldi að hluti af vandamálinu væri að ungt fólk er ekki kosið inná þing. Hann tók fram að það er ekki mikið af ungu fólki í ábyrgðarstöðum í pólitík. Ásthildur tók undir þau orð en taldi það þó vera að breytast, t.d. væri Áslaug Arna, nýkjörinn dómsmálaráðherra 29 ára og þar með næst yngsti ráðherran frá upphafi. Andrés kom líka inná það að Alþingi sé búið að vera að feta sig áfram í þátttöku barna á nefndarfundum. Tölfræðin er reyndar ekki börnum í hag en síðan 2015 hafa börn verið boðuð á 9 nefndarfundi. En til samanburðar hafa rúm  tvöþúsund nefndarfundir verið haldnir haldnir á þessu tímabili. 

Fjölbreyttur hópur barna

Spurning barst úr salnum um það hvernig stjórvöld geti tryggt það að rödd fjölbreyttra hópa barna heyrist. Fulltrúar ungmennaráðsins í Akureyrarbæ töluðu um að þar skipti meðvitund samfélgsins um ungmennaráðin miklu máli. Ungmennaráðið skapar öruggan vettvang fyrir fjölbreyttan hóp barna. Einnig er mikilvægt fyrir meðlimi ungmennaráðsins að gefa kost á sér, tala reglulega við alls kyns börn úr sveitafélaginu og koma sjónarmiðum þeirra á framfæri. Salvör kom inná skipulag barnaþings. „Slembivalið á Barnaþingi er einmitt gert til þess að ná til fjölbreyttari hóps. Við þurfum virkilega að leggja okkur fram við að ná til jaðarsettra hópa. Við vitum að það eru ekki öll börn að fá sömu tækifærin og við þurfum veita þeim þau“. – Salvör.

 

Salurinn 02

Myndir frá fundinum

Myndir frá fundinum


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica