5. febrúar 2010

Um tannheilbrigði og tannlæknaþjónustu barna

Reglulega berast umboðsmanni barna athugasemdir vegna aukins kostnaðar sem foreldrar bera vegna meðferðar barna hjá tannlæknum.

Í lok tannverndarviku vill umboðsmaður barna árétta eftirfarandi.

Reglulega berast umboðsmanni barna athugasemdir vegna aukins kostnaðar sem foreldrar bera vegna meðferðar barna hjá tannlæknum. Um nokkurt skeið hefur ekki verið í gildi heildarsamningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands um endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Í dag fá foreldrar endurgreitt samkvæmt gjaldskrá ráðherra sem því miður er ekki í neinu samræmi við raunkostnað þjónustunnar og lækkar endurgreiðsluhlutfallið stöðugt. Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af þessari þróun.  Þá eru meiri líkur á því  að börn í efnaminni fjölskyldum verði enn frekar fyrir þessu og tannheilbrigði þeirra barna versni til muna og er það óviðunandi.

Öll börn ættu að hafa jafn greiðan aðgang að tannheilsugæslu eins og annars konar heilsugæslu. Í þessu sambandi vill umboðsmaður barna benda á  24. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir:

Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. 

Þá má benda á að í 2. gr. Barnasáttmálans segir að aðildarríkjum beri að tryggja öllum börnum þau réttindi sem hann kveður á um án mismununar af nokkru tagi.
Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst."

Á grundvelli ofangreindra ákvæða hlýtur að vera eðlilegt að velta fyrir sér til hvaða aðgerða stjórnvöld ætli að grípa til að tryggja það að öll börn njóti þeirrar tannheilsuverndar sem þau eiga sannarlega rétt á. Fjárhagsleg staða foreldra má ekki hindra aðgang barna að tannlæknum og þannig stefna tannheilsu þeirra í voða.

Hinn 27. Júní 2008 ritaði umboðsmaður barna bréf til þáverandi heilbrigðisráðherra þar sem bent var á mikilvægi þess að tannheilbrigðismálum barna verði komið í betri farveg þannig að börn verði ekki fyrir því að tannheilbrigði þeirra hraki enn frekar þar sem að kostnaðurinn reynist forsjáraðilum barnanna ofviða.

Nú standa heimilin í landinu almennt mun verr að vígi fjárhagslega og eiga erfiðara með að sinna grunnþörfum barna sinna. Tannheilsu barna á Íslandi heldur áfram að hraka og heimsóknum barna til tannlækna hefur fækkað þrátt fyrir fríar forvarnaskoðanir fyrir þriggja, sex og tólf ára börn. Raunin er því sú að afgangur hefur verið af fjárlögum til tannlækninga síðustu misseri – á sama tíma og meiri þörf er á að jafna aðstöðu barna og tryggja þeim öllum aðgang að tannheilbrigðisþjónustu.

Í september 2009 tóku í gildi lög um sykurskatt sem lagður er á ýmsar matvörur í formi vörugjalds. Upphaflega var talað um að markmið þessarar skattlagningar væri að vernda tannheilsu barna með neyslustýringu þannig að óhollar vörur verði ekki eins ódýrar og þær hafa verið undanfarin ár. Umboðsmaður barna telur að eðlilegt væri, á grundvelli þeirra lýðheilsusjónarmiða sem vísað er til í stjórnarfrumvarpi, að einhver hluti þeirra tekna sem ríkissjóður fær inn með sykurskattinum myndi renna til verndar tannheilsu barna.

Umboðsmaður barna skorar á yfirvöld að taka þetta mál til skoðunar og bæta fyrir vanrækslu síðustu ára.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica