4. mars 2010

Um skólareglur

Vegna umfjöllunar um skólareglur í fjölmiðlum vill umboðsmaður barna koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Samkvæmt 30. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 er hverjum skóla skylt að setja skólareglur, en slíkar reglur eru veigamikill þáttur í umgjörð alls skólastarfs. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólareglna og kynningu þeirra og skulu þær unnar í samráði við skólaráð, þar sem nemendur og foreldrar eiga m.a. fulltrúa. Þó að skólum sé veitt töluvert svigrúm við að móta sínar reglur verða þeir þó að fara eftir fyrirmælum í lögum og reglugerð um skólareglur. Sömuleiðis þurfa skólareglur ávallt að taka mið af því sem er nemendum fyrir bestu og vera í samræmi við réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Þegar skólareglur eru mótaðar er nauðsynlegt að hafa í huga að agi og agaviðurlög við brotum nemenda eru einn þáttur í menntun þeirra. Samkvæmt 28. gr. Barnasáttmálans ber að halda uppi námsaga með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og öðrum réttindum samkvæmt sáttmálanum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sömuleiðis lagt áherslu á að agaúrræði í skólum miði að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu nemenda. 

Þar sem viðurlög við brotum nemenda eiga að vera þáttur í menntun þeirra en  ekki „refsing“ þarf við mótun þeirra að huga að almennum markmiðum menntunar. Þannig ber agaviðurlögum meðal annars að stuðla að áhuga barna á menntun sinni og reyna koma í veg fyrir að börn hverfi frá námi. Einnig má hafa hliðsjón af þeim ákvæðum Barnasáttmálans sem fjalla um brot ungmenna. Þau ákvæða ganga út frá því að viðbrögð við brotum ungmenna eigi fyrst og fremst að hafa það markmið að styrkja sjálfsmynd þeirra og hafa uppbyggileg og jákvæð áhrif.

Samkvæmt því sem að framan greinir er mikilvægt að veita nemendum sem sýna af sér slæma hegðun eða lélega ástundun viðeigandi stuðning og reyna að koma skólagöngu þeirra í rétt horf. Mikilvægt er að samræmi ríki á milli þess agabrots sem nemandi gerist sekur um og þeirra viðurlaga sem liggja við því og að meðalhófs sé ávallt gætt. Er því aldrei heimilt að beita þyngri viðurlögum en nauðsyn ber til. Harkaleg viðbrögð innan grunnskólans geta haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd nemanda og dregið úr viljanum til bættrar hegðunar.

Ósveigjanleg agaviðurlög henta almennt illa innan grunnskólans, enda eru nemendur mjög ólíkir. Þó að agaviðurlög þurfi að sjálfsögðu að vera fyrirsjáanleg mega þau ekki vera þannig að ekki sé tekið tillit til aðstæðna hvers og eins. Eftir því sem agaviðurlög eru meira íþyngjandi fyrir nemendur þeim mun meiri þörf er á því að meta hvert tilfelli fyrir sig. Foreldrar eru misvel í stakk búnir að fylgjast með skólagöngu barna sinna og sinna skyldu sinni í þeim efnum. Umboðsmaður barna telur ekki sanngjarnt að nemendur séu látnir gjalda fyrir heimilisaðstæður sínar.

Félagsstarf innan grunnskólans er hluti af menntun barna og getur skipt miklu máli fyrir félagsþroska þeirra. Sú regla að útiloka nemendur sjálfkrafa úr félagsstarfi vegna slæmrar mætingar samræmist því illa ofangreindum sjónarmiðum. Slík regla er að mati umboðsmanns barna ekki til þess fallin að hafa uppbyggileg áhrif heldur getur hún þvert á móti stuðlað að neikvæðum viðhorfum til skólans. Auk þess er mikilvægt að hafa í huga að ástæðan fyrir slæmri skólasókn getur meðal annars tengst andlegri vanlíðan eða félagslegum erfiðleikum. Útilokun úr félagsstarfi er frekar til þess fallin að auka á slík vandamál nemenda en bæta úr þeim. Getur umboðsmaður barna því ekki séð að útilokun úr félagsstarfi eingöngu vegna mætingar sé í samræmi við það sem er nemendum fyrir bestu, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica