4. nóvember 2009

Um lánveitingar til barna

Vegna umræðu um lánveitingar Glitnis til barna frá eins árs aldri til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr fyrir tveimur árum vill umboðsmaður barna árétta að lánveitingar til barna eru ekki heimilar nema að fengnu leyfi yfirlögráðanda (sýslumanns) og þá aðeins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Vegna umræðu um lánveitingar Glitnis til barna frá eins árs aldri til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr fyrir tveimur árum vill umboðsmaður barna árétta að lánveitingar til barna eru ekki heimilar nema að fengnu leyfi yfirlögráðanda (sýslumanns) og þá aðeins að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Upplýsingar um ákvæði laga um fjármál barna er að finna í í pistli dags. 4. nóvember sem birtur er undir Fróðleikur á síðu umboðsmanns barna og í sérstökum kafla um fjármál barna undir liðnum Málaflokkar.

Um þetta mál segir í frétt á vefsíðu Sýslumannsins í Reykjavík:

Á árinu 2007 bárust til yfirlögráðandans í Reykjavík nokkur erindi þess efnis að samþykkt yrði að ófjárráða börn myndu kaupa stofnfé í Byr fyrir lánsfé frá Glitni, með veði í hinu keypta stofnfé. Um verulegar upphæðir var að ræða og ótvírætt að til slíkra ráðstafana þurfti samþykki yfirlögráðanda samkvæmt 69. gr. lögræðislaga 71/1997. Umsækjendur, sem voru lögráðamenn barnanna, áttu þess kost að uppfylla tiltekin skilyrði fyrir að erindi fengist samþykkt, þar á meðal það að lánveitandinn lofaði að ekki yrði gengið að lántaka, þ.e. barninu, umfram andvirði hins veðsetta. Málin voru felld niður þar sem skilyrðin voru ekki uppfyllt og erindunum var ekki fylgt eftir. Komið hefur í ljós að bankinn veitti einhverjum ólögráða börnum lán vegna stofnfjárkaupa í Byr, þó ekki sé vitað um hvort það eru sömu börnin. Sá gjörningur er óskuldbindandi fyrir hin ófjárráða börn þar sem samþykki yfirlögráðanda skorti.

Þær fréttir bárust í gær að Íslandsbanki, sem er arftaki Glitnis sem sá um stofnfjáraukninguna fyrir hönd Byrs á sínum tíma, hafi ákveðið að allir gerningar varðandi börnin og stofnféð verði látnir ganga til baka. Þetta þýðir að lántakendur skila Byr stofnfjárhlutunum og Byr skilar þeim á móti kaupverði bréfanna. Foreldrar barnanna skila láninu til baka til Íslandsbanka en arðgreiðslur sem inntar hafa verið af hendi og hafa runnið til greiðslu lánanna koma þar til frádráttar.

Umboðsmaður barna vill minna á að í forsjárskyldum foreldra felst að fara með lögráð barna sinna.

Lögráðamaður ber ábyrgð á þeim fjármunum barns sem hann hefur umráðarétt yfir samkvæmt lögræðislögum. Meginskylda lögráðamanna ófjárráða barna er að varðveita eignir þeirra tryggilega og gæta þess að þær séu ávaxtaðar eins og best verður á kosið á hverjum tíma. Foreldri á sem sagt að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og haga ákvörðunum sínum í þágu þess. Lögráðamanni ber einnig að hafa samráð við barnið eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til.

Foreldrar skulu ávallt halda fjármunum barna sinna aðskildum frá sínum eigin fjármunum. Ef lögráðamaður veldur ófjárráða barni tjóni, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi, ber honum að bæta það.

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, telur eðlilegt er að gerðar séu ríkar kröfur til þeirra sérfræðinga í fjármálastofnunum sem taka ákvarðanir um lánveitingar. Þeir ættu að þekkja ákvæði lögræðislaga og haga störfum sínum samkvæmt því.

Eins og Margrét María hefur sagt í fjölmiðlum, hvetur hún fólk sem kann að hafa upplýsingar um fleiri mál af þessu tagi að hafa samband við embættið.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica