19. mars 2012

Um hormónatengdar getnaðarvarnir

Umboðsmaður barna vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umræðu undanfarinna daga um frumvarp til breytinga á lyfjalögum nr. 93/1994 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 sem velferðarráðherra kynnti í seinustu viku á ríkisstjórnarfundi.

Umboðsmaður barna vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umræðu undanfarinna daga um frumvarp til breytinga á lyfjalögum nr. 93/1994 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 sem velferðarráðherra kynnti í seinustu viku á ríkisstjórnarfundi. Í því frumvarpi leggur velferðarráðherra til að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verði heimilt að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum að því skilyrði uppfylltu að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem fyrir hendi er heilsugæsla, kvenlækningar eða fæðingarþjónusta.

Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en nefndin lýsti yfir áhyggjum vegna fjölda þungana og fóstureyðinga meðal stúlkna undir 18 ára aldri hér landi. Í skýrslu nefndarinnar er bent á að ástæða fyrir þessu  geti verið skortur á þekkingu um kynheilbrigði, aðgengi að getnaðarvörnum og ráðgjafarþjónustu um kynheilbrigði og jafnframt lagt til að úr þessu verði bætt.

Í umræðunni undanfarna daga hefur mikið verið rætt um hversu gamlar stúlkur þurfi að vera til þess að geta fengið ávísaða hormónatengda getnaðarvörn án samþykkis og vitundar foreldra. Í lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingu og ófrjósemsiaðgerðir nr. 25/1975 er kveðið á um rétt einstaklinga til ráðgjafar og færðslu varðandi kynlíf og barneignir og til aðstoðar við útvegun getnaðarvarna. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um lágmarksaldur þess sem getur óskað eftir ávísun fyrir getnaðarvarnarpillunni. Þá er ekki að finna ákvæði í öðrum lögum, við hvaða aldur börn mega byrja að stunda kynlíf. Í 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er að finna almennt ákvæði sem leggur refsingu við samræði eða öðrum kynferðismökum við barn yngra en 15 ára, hvort sem verknaður er gerður með eða gegn vilja barnsins. Má því ætla að löggjafinn telj að börn undir 15 ára aldri hafi hvorki andlegan né líkamlegan þroska til þess að lifa kynlífi og ákvæðið því sett þeim til verndar.

Umboðsmaður barna telur að af ákvæðinu sem er að finna í almennum hegningarlögum megi draga þá almennu ályktun að hafi barn náð 15 ára aldri ráði það því sjálft hvort það hafi kynmök, enda sé það gert með samþykki þess og af fúsum og frjálsum vilja. Með vísan til þessa og réttar barns til að njóta friðhelgi einkalífs verður að telja að réttur barns til að óska eftir getnaðarvörnum án afskipta foreldra, eftir að barn hefur náð 15 ára aldri, gangi framar rétti foreldra til að ráða yfir persónulegum högum barnsins að þessu leyti. Stúlkur á aldrinum 15-18 ára eiga því að geta leitað til læknis, og hjúkrunarfræðinga verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum, og óskað eftir getnaðarvarnarpillu til að koma í veg fyrir ótímabæra þungun. Eiga stúlkur rétt á því að fá slíka þjónustu án þess að haft sé samráð við foreldra eða þeim tilkynnt um beiðni hennar, óski hún þess. Umboðsmaður barna leggur þó ríka áherslu á að foreldrar séu meðvitaðir um skyldu sína til að skapa traust og hafa frumkvæði að umræðu um þessi málefni til þess að barn vilji hafa samráð við foreldra sína. Einnig telur umboðsmaður það mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk ræði það við viðkomandi barn og hvetji til þess þegar við á, hvort ekki sé tilefni til að ræða við foreldra þess um getnaðarvarnir og kynlíf.

Umboðsmaður barna var fenginn í viðtal sem var sýnt í kvöldfréttum RÚV sl. laugardagskvöld en þá var farið rangt með staðreyndir. Í fréttinni var tekið fram að umboðsmaður barna teldi að stúlkur þyrftu að ná 16 ára aldri til þess að fá getnaðarvarnapilluna án vitundar foreldra. Það er ekki rétt og er skoðun umboðsmanns í samræmi við það sem áður hefur verið sagt. Leiðréttist það hér með.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica