8. desember 2023

Um forsjárdeilur og aðfaragerðir

Töluvert hefur verið fjallað um aðfarargerðir í forsjármálum á seinustu vikum og mánuðum og hafa umboðsmanni barna borist þó nokkrar ábendingar og erindi vegna þeirra mála. Af því tilefni telur umboðsmaður rétt að ávarpa almenn réttindi barna í forsjárdeilum þar sem til greina kemur að koma á forsjá með aðfarargerð. 

Með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa embættinu átti umboðsmaður barna fund með dómsmálaráðherra, sbr. bréf þess efnis dags. 1. nóvember sl., til þess að ræða hvort endurskoða þurfi verklagsreglur um aðfarargerðir er varða börn og hvort þörf væri á því að taka viðeigandi lagaákvæði sem um þetta gilda til endurskoðunar.

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og er í öllum sínum störfum bundinn af ákvæðum þeirra laga. Umboðsmaður barna hefur ekki heimildir til þess að endurskoða ákvarðanir stjórnvalda eða niðurstöður dómstóla í einstaka málum, né getur umboðsmaður tekið til meðferðar mál sem varða ágreining á milli einstaklinga, t.d. þegar um er að ræða umgengnis- eða forsjárdeilur á milli foreldra. Hins vegar getur umboðsmaður barna, á grundvelli áðurnefndra laga, óskað eftir öllum þeim upplýsingum frá stjórnvöldum sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti sinnt því hlutverki sínu að vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar og aðrir taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna, m.a. með því að setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Þá ber umboðsmanni barna að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur, sem og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu.

Mikilvægt er að nefna að í þeim meginreglum sem fram koma bæði í Barnasáttmálanum og íslenskri löggjöf á sviði barnaréttar er fjallað um skyldur og ábyrgð foreldra hvað varðar velferð barna sinna og að stjórnvöld skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur beggja foreldra. Í málum sem þessum, þar sem foreldrar deila um forsjá eða umgengni hefur lagaumhverfið og stjórnsýslan lagt höfuðáherslu á að foreldrar nái sáttum og er í allri ákvarðanatöku og við meðferð slíkra mála, jafnt á stjórnsýslustigi sem og fyrir dómstólum, lagt kapp á að aðstoða foreldra við að ná samkomulagi með hagsmuni barnsins í huga. Hins vegar er raunin sú að í of mörgum tilfellum ná foreldrar ekki sáttum og þurfa þá stjórnvöld eða dómstólar að skera úr. Við slíkar ákvarðanir þarf að fara fram mat á því sem barni er fyrir bestu í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Þegar mat er lagt á bestu hagsmuni barns ber einnig að uppfylla skilyrði 12. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um rétt barns til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varðar og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur barnsins og þroska.

Beiting aðfarargerða er verulega vandasöm með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Áður en ákvörðun er tekin um að heimila aðför ber dómara að leggja mat á hvað sé barninu fyrir bestu og ber honum einnig að gæta að ákvæði 43. gr. laganna, sem kveður á um rétt barns til að tjá sig um mál og koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Dómari felur þannig sérfróðum matsmanni að kynna sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það. Líkt og fram hefur komið er það að fá fram vilja barns og afstöðu hluti af því að leggja heildstætt mat á bestu hagsmuni barnsins, niðurstaða máls ræðst hins vegar ekki af því einu. Í almennu áliti barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14 sem fjallar um mat á bestu hagsmunum barns kemur fram að í niðurstöðum í málum barna eigi að greina frá því til hvaða atriða var litið við mat á bestu hagsmunum barns og ef niðurstaða máls er ekki í samræmi við vilja barns þarf að tilgreina ástæðu þess með skýrum hætti.

Langvarandi átök milli foreldra geta verið börnum mjög þungbær og haft skaðlegar afleiðingar á heilsu og þroska barna, ekki síst þegar slík átök eru útkljáð fyrir dómstólum. Því er mikilvægt að stjórnvöld og aðrir sem koma að slíkum málum veiti foreldrum aðstoð við að koma í veg fyrir og leysa átök sem fyrst og stuðli í hvívetna að því sjónarmiði í allri ákvarðanatöku. Rannsóknir hafa sýnt að hagsmunum barns er almennt best borgið ef foreldrum tekst að ná samkomulagi og eykur það líkur á að barn nái fullum líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og að barnið fái notið þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn kveður á um.  

Þá þykir umboðsmanni barna tilefni til að ávarpa að opinber umræða um svo viðkvæm málefni er varða einkalíf barna, og fjallað er um hér að framan, vegur að rétti barna til friðhelgi einkalífs skv. 16. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013, og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica