1. nóvember 2011

Tryggingar og börn

Umboðsmanni barna barst ábending um að umsókn um tryggingu fyrir barn hefði verið hafnað af tryggingarfélaginu Sjóvá vegna raskana sem barnið hafði verið greint með. Ákvað umboðsmaður barna því að kanna hvaða reglur gilda og hvernig verklagi er háttað þegar kemur að tryggingum fyrir börn.

Umboðsmanni barna barst ábending um að umsókn um tryggingu fyrir barn hefði verið hafnað af tryggingarfélaginu Sjóvá vegna raskana sem barnið hafði verið greint með. Ákvað umboðsmaður barna því að kanna hvaða reglur gilda og hvernig verklagi er háttað þegar kemur að tryggingum fyrir börn. Umboðsmaður barna óskaði eftir upplýsingum frá sex tryggingarfélögum sem starfa á íslenskum tryggingamarkaði. Svör bárust frá þeim öllum. Spurningar umboðsmanns lutu að því hvort tryggingarfélög hafi hafnað umsóknum fyrir börn og ef svo er á hvaða grundvelli slík höfnun væri byggð. Einnig var spurt hvort skilmálar trygginga væru mismunandi eftir stöðu og heilsufari barna. Óskaði umboðsmaður eftir því að skilmálarnir yrðu sendir til upplýsinga. Þriðja spurningin laut að því hvort verð trygginga væri mismunandi eftir stöðu og heilsufari barna. Óskaðist verðskrá send til upplýsinga. Að lokum óskaði umboðsmaður eftir frekari upplýsingum sem mikilvægt væri að embættið hefði vitneskju um til að fá heildstæða mynd af þeim tryggingum sem bjóðast börnum.

Við úttekt á svörunum kom í ljós að í einu tilfelli var munur á iðgjöldum drengja og stúlkna vegna trygginga. Umboðsmaður barna velti því fyrir sér hvort slíkt stæðist jafnréttislög. Hann kom því ábendingu um þetta á framfæri við Jafnréttisstofu í þeirri von um að Jafnréttisstofa myndi kanna málið eða taka það til meðferðar.

Þegar sótt er um barnatryggingar er foreldrum skylt að gefa upp viðamiklar upplýsingar um barnið sem um ræðir, s.s. sjúkdómasögu, greiningar sem barnið hefur og fleira. Umboðsmaður barna setti einnig spurningamerki við að upplýsingum um börn sé safnað saman með þessum hætti og vakti því athygli Persónuverndar á málinu. Börn hafa í flestum tilfellum lítið með það að gera að sótt er um tryggingu fyrir þau og að safnað sé nákvæmum upplýsingum um þau og sjúkrasögu þeirra. Einnig má velta fyrir sér hvernig síðan er farið með þær upplýsingar sem safnað er og hvort tryggingarfélög hafi þær enn undir höndum þegar börnin eru orðin fullorðin og ætla að sækja um tryggingu hjá hlutaðeigandi tryggingarfélagi. Mörg flókin álitamál sækja að varðandi þetta mál eins og t.d. hvort eðlilegt sé að börn séu flokkuð með þessum hætti, hvort jafnræði sé tryggt í málsmeðferð tryggingarfélaga og hvaða þýðingu þetta hefur til framtíðar fyrir börn.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica