12. september 2014

Tillögur starfshóps um málefni frístundaheimila í grunnskólum að lagabreytingum á grunnskólalögum nr. 91/2008

Umboðsmanni barna gafst tækifæri til að koma með athugasemdir um tillögur starfshóps menntamálaráðuneytisins um málefni frístundaheimila í grunnskólum að lagabreytingum á grunnskólalögum nr. 91/2008. Umsögn sína sendi umboðsmaður í tölvupósti dags. 12. september 2014

Umboðsmanni barna gafst tækifæri til að koma með athugasemdir um tillögur  starfshóps menntamálaráðuneytisins um málefni frístundaheimila í grunnskólum að lagabreytingum á grunnskólalögum nr. 91/2008. Umsögn sína sendi umboðsmaður í tölvupósti dags. 12. september 2014

Umsögn umboðsmanns barna

 

Efni: Tillögur starfshóps um málefni frístundaheimila í grunnskólum að lagabreytingum á grunnskólalögum nr. 91/2008 

Komdu sæll Guðni

Við erum búin að fara yfir ofangreindar tillögur. Umboðsmaður barna átti ekki beina aðkomu að hópnum, þó að tveir fulltrúar úr ráðgjafarhópi hans hafi átt þar sæti. Við litum svo á að hlutverk þeirra væri að koma á framfæri röddum barna og höfðum við því lítil afskipti af þeirra vinnu. Við viljum því gjarnan nýta þetta tækifæri og koma með nokkrar athugasemdir frá embættinu.
 
Við fögnum því mikið að verið sé að leggja til skýrari lagaumgjörð um frístundastarf barna. Við erum að mörgu leyti ánægð með tillögurnar og þá sérstaklega almennu skýringarnar sem fylgja með.
 
Við hefðum þó viljað sjá enn skýrara lagaákvæði um frístundaheimili. Við veltum fyrir okkur hvernig skólastjóri á að geta borið einn ábyrgð á nánari útfærslu á samþættingu skóla- og frístundastarfs, sbr. 1. gr. í ofangreindum tillögum. Þetta getur verið flókið í sveitarfélögum þar sem frístundastarf og grunnnskólar heyra ekki undir sama svið eða ráð (nefnd) Í framkvæmd er það yfirleitt verkefnastjóri hvers frístundaheimilis eða félagsmiðstöðvar sem skipuleggur starfið. Er því spurning hvort ekki sé ástæða til að nefna og útfæra hlutverk og skyldur verkefnastjóra frístundastarfs í grunnskólalögum. Sem dæmi má nefna hvort ekki sé ástæða til að gera ákveðnar kröfur um menntun og hæfni þeirra sem sinna slíkum stöðum. Þá væri hægt að kveða á um að skólastjóri og verkefnastjóri eða stjórar beri ábyrgð á nánari útfærslu á samþættingu skóla- og frístundastarfs.
 
Við teljum ástæðu til að kveða skýrar á um að grunnskólalögin og þær reglugerðir sem hafa verið settar á grundvelli þeirra taki til frístunda- og félagsstarfs, eftir því sem við á, sbr. 3. mgr. 2. gr. í ofangreindum tillögum. Sem dæmi má nefna að reglugerð 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og öryggishandbókin þegar hún kemur út (skv. 8. gr. reglugerðar 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða) ættu að gilda líka fyrir frístundaheimilin. Þá veltum við fyrir okkur hvers vegna einungis „öryggi og velferð nemenda, tilkynningarskylda og ráðningarbann á grundvelli sakarvottorð“ séu talin upp í ákvæðinu. Við hefðum til dæmis einnig viljað nefna aðbúnað og öryggi, skyldur starfsfólks, réttindi nemenda og réttindi barna með sérþarfir. Ennfremur er spurning hvort ástæða sé til að þau viðmið eða reglur sem ráðuneytið mun vinna í samvinnu við Samband íslenska sveitarfélaga verði bindandi en ekki leiðbeinandi, sbr. 4. mgr. 2. gr. Væri þá hægt að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika í reglunum sjálfum þannig að hægt sé að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað.

Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti ákveðið að reka ekki frístundaheimili ef gildar staðbundnar ástæður eru fyrir hendi, sbr. 5. mgr. 2. gr. Mikilvægt er að þetta verði túlkað þröngt, enda ber að leitast við að bjóða öllum börnum sömu þjónustu óháð búsetu. Myndum við því vilja að hægt væri að skjóta ákvörðun um að bjóða ekki upp á frístundaheimili til ráðuneytisins.
 
Það er ánægjulegt að sérstaklega sé tekið fram að öllum grunnskólanemendum skuli gefinn kostur á að taka þátt í frístunda- og félagsstarfi, sbr. 1. mgr. 2. gr. Við hefðum viljað árétta þetta enn frekar með því að taka fram að í öllu frístundastarfi skuli tekið mið af þörfum, þroska og áhuga allra barna og að börnum með fötlun eða sérþarfir skuli ávallt veittur stuðningur við hæfi. Loks væri ástæða til að taka sérstaklega fram að nemendur eigi rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að taka skuli tillit til vilja þeirra við þróun frístundastarfs.
 
Hér fyrir neðan má sjá hvernig umboðsmaður barna myndi vilja sjá orðalag 2. gr. – sem breytir 33. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008.

Öllum grunnskólanemendum skal gefinn kostur á að taka þátt í frístunda- og félagsstarfi þar sem tekið er mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins. Veita skal börnum með fötlun og aðrar sérþarfir sérstakan stuðning til þess að geta tekið þátt í slíku starfi. Með frístunda- og félagsstarfi í lögum þessum er annars vegar átt við starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur í yngri árgöngum grunnskóla og hins vegar félagsstarf fyrir alla árganga.
Frístunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi, þar sem leitast skal við að samþætta skóla- og frístundastarf, eða utan venjulegs skólatíma. Sveitarfélög ákveða með hvaða hætti staðið er að skipulagi starfsins, með þarfir og hagsmuni barna að leiðarljósi. Við allar ákvarðanir skal þó gefa nemendum færi á að tjá sig og taka skal réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. 
Í frístunda- og félagsstarfi gilda ákvæði grunnskólalaga og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra, eftir því sem við á. Á það til dæmis við um öryggi og velferð nemenda, skólahúsnæði og aðbúnað, réttindi nemenda, skyldur starfsfólks, réttindi nemenda með sérþarfir, tilkynningarskyldu og ráðningarbann á grundvelli sakarvottorðs. 
Ráðuneytið útbýr að höfðu samráði við Samband íslenska sveitarfélaga reglur um gæði frístundastarfsins, markmið, inntak, stjórnun, menntun starfsfólks og aðstöðu. 
Sveitarfélög geta ákveðið að reka ekki frístundaheimili ef gildar og brýnar staðbundnar ástæður eru fyrir hendi. Ákvörðun um að reka ekki frístundaheimili er kæranleg til ráðuneytisins. 
Sveitarfélögum er heimild að taka gjald fyrir frístundastarf samkvæmt gjaldskrá sem þau setja og birta með þeim hætti sem venja er fyrir í sveitarfélaginu. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar eftir fyrirmælum 47. gr. 

 
Ef eitthvað er óljóst biðjum við þig endilega að hafa samband.
 
Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica