21. febrúar 2018

Tillaga um að nýtt markmið í 19. kafla fjármálaáætunar um fjölmiðla

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd hafa sent eftirfarandi bréf til menntamálaráðherra þar sem lagt er til að sett verði inn í 19. kafla fjármálaáætlunar um fjölmiðla, sérstakt markmið sem taki til verndar barna í fjölmiðlum.

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd hafa sent eftirfarandi bréf til menntamálaráðherra þar sem lagt er til að sett verði inn í 19. kafla fjármálaáætlunar um fjölmiðla, sérstakt markmið sem taki til verndar barna í fjölmiðlum. 

 

Menntamálaráðherra

Lilja Alfreðsdóttir

Menntamálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

 

 

Reykjavík, 19. febrúar 2018

 

 

Efni: Tillaga um að nýtt markmið í 19. kafla fjármálaáætlunar um fjölmiðla

 

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd leggja til að sett verði inn í 19. kafla fjármálaáætlunar um fjölmiðla, sérstakt markmið sem taki til verndar barna í fjölmiðlum, m.a. aldursmats á myndefni, miðlalæsis og haturstals.

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd telja að móta þurfi heildstæða stefnu um börn og fjölmiðla, en engin slík stefna stjórnvalda liggur fyrir. Þá þurfi að skilgreina aðgerðaáætlun sem byggir á stefnu stjórnvalda.

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd hafa tekið saman yfirlit yfir stöðu mála er varða aldursmat á myndefni, miðlalæsi og álitaefni er varða haturstal.

 

Um lög nr. 62/2006 og niðurlagningu Kvikmyndaskoðunnar

Með lögum nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum var Kvikmyndaskoðun lögð niður og aldursmat á kvikmyndum, tölvuleikjum og sjónvarpsefni fært til ábyrgðaraðila, þ.e. þeirra sem framleiða kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki eða hafa slíkt efni til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni hér á landi. Samkvæmt lögunum eiga slíkir ábyrgðaraðilar að setja sér verklagsreglur um framkvæmd mats sem styðst við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Í verklagsreglunum skal m.a. tekið mið af sjónarmiðum um vernd barna. Verklagsreglurnar skulu vera opinberar á vefsíðu og skulu ábyrgðaraðilar færa niðurstöður mats á sýningarhæfni kvikmynda, sjónvarpsþátta og tölvuleikja í sérstakan gagnagrunn sem almenningur hefur aðgang að. Fjölmiðlanefnd er síðan gert að hafa eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt og er í því skyni heimilt að láta fara fram úttekt á verklagsreglum og framkvæmd þeirra skv. 1. mgr. 5. gr. laganna.

 

Fjölmiðlanefnd benti á það í bréfi sínu til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 12. nóvember 2012 að nefndinni væri samkvæmt 2. mgr. 5. gr. heimilt að mæla fyrir um stöðvun sýningar og dreifingar kvikmyndar og tölvuleiks fái hún vitneskju eða rökstudda ábendingu um að niðurstaða mats á sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks sé í andstöðu við 1. mgr. 2. gr. eða óásættanleg með hliðsjón af sjónarmiðum um vernd barna. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. skal þá fara fram sameiginlegt endurmat ábyrgðaraðila og fjölmiðlanefndar á sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks og ræður afstaða fulltrúa fjölmiðlanefndar komi til ágreinings.

 

Þá var jafnframt í bréfinu bent á að þar sem lög nr. 62/2006 taka jafnt til kvikmynda, sjónvarpsþátta, ítarefnis og kynningarefnis í sjónvarpi, mynddiska, þáttasölusjónvarps, kvikmyndahúsa o.fl. væri ljóst að ef grunur léki á að mat á aldursmerkingu væri röng eða hefði ekki farið fram og efni væri talið hafa skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska barna skv. 1. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 væri nauðsynlegt fyrir fjölmiðlanefnd að geta endurmetið umrætt skaðvænlegt efni. Við þær aðstæður þurfi fjölmiðlanefnd að meta efnið (láta fara fram endurmat) skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 62/2006 um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Þannig tengjast ákvæði um vernd barna með beinum hætti í lögum nr. 62/2006 og lögum um fjölmiðla. Ákvæði 2. mgr. 5. gr. skírskotar þannig  til 1. og 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla þar sem kveðið er á vernd barna.

 

Í bréfinu upplýsti fjölmiðlanefnd jafnframt um að hún sæi sér ekki fært að uppfylla ákvæði 28. gr. um vernd barna gegn skaðlegu efni skv. lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 í þeim fjölmörgu tilvikum þegar nauðsynlegt er að láta fara fram endurmat á efni ábyrgðaraðila. Fjölmiðlanefnd yrði að fá fjárveitingar til að gera samning við hollenska fyrirtækið NICAM um alþjóðlega Kijkwijzer skoðunarkerfið til að hægt verði að nota alþjóðlega skoðunarkerfið þeirra við endurmat á hljóð- og myndefni, enda er alþjóðlega viðurkennt skoðunarkerfi forsenda fyrir mati á efni skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 62/2006. Erindið hefur verið ítrekað nokkrum sinnum síðan.

 

Í bréfi dags. 14. febrúar 2014 til mennta- og menningarmálaráðuneytis benti nefndin síðan á að samkvæmt fjárlagafrumvarpi því sem lagt var fram á Alþingi haustið 2013 væri gert ráð fyrir fimm milljóna króna millifærslu vegna laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 sem átti að fylgja verkefninu þegar það var fært frá Barnaverndarstofu til fjölmiðlanefndar. Sú fjárhæð hvarf í meðförum fjárlaganefndar og hefur engin fjárveiting verið ætluð til verndar börnum gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum og tölvuleikjum hjá íslenskum stjórnvöldum frá árinu 2013. Er það mat umboðsmanns barna og fjölmiðlanefndar að löngu tímabært sé að fara í heildarenduskoðun á lögum 62/2006 auk þess sem nefndin bendir á að engir fjármunir hafa verið settir í eftirlit með lögunum í sjö ár, eða frá því fjölmiðlanefnd var sett á laggirnar árið 2011. 

 

Miðlalæsi

Á Íslandi er notkun snjalltækja með því mesta sem þekkist í heiminum. Það á einnig við um börn og ungmenni og hefur talsvert verið rætt að undanförnu um hvert setja eigi reglur um notkun t.d. skjátíma ungra barna. Þá hefur mikið verið rætt um þróun og möguleika tækninnar og ýmislegt er varðar netöryggi. Kunnátta á snjalltæki er þó ekki nóg. Það er ekki síður mikilvægt að kenna börnum og ungmennum að nota internetið og fjölmiðla á gagnrýninn hátt, að kenna þeim að umgangast þessa miðla og að vera þáttakendur sem upplýstir borgarar. Hingað til hefur mikil áhersla verið lögð á þætti eins og nettengingar, tölvubúnað í skólum og bókasöfnum og ýmislegt sem varðar netöryggi barna. Það er mat umboðsmanns barna og fjölmiðlanefndar að koma verði miðlalæsi barna og ungmenna á pólitíska dagskrá og að mikilvægt sé að stjórnvöld marki sér stefnu um málaflokkinn.

Með hugtakinu miðlalæsi er átt við að börn og ungmenni skilji hlutverk fjölmiðla og samfélagsmiðla í lýðræðisríkjum. Jafnframt að þau skilji mikilvægi þess að fjölmiðlar geti rækt skyldu sína í samfélaginu og orðið að gagni til að miðla réttum upplýsingum og út frá mörgum sjónarhornum. Börn og ungmennt verða að geta með gagnrýnum hætti notað ólíka miðla og skilið hvaða hagsmunir liggja að baki upplýsingum og/eða sjónarmiðum sem komið er á framfæri. Þar með talið hlutverk áhrifavalda sem oft eru óbeint að auglýsa vörur og þjónustu. Þá verða þau að læra að nota miðlana til að koma skoðunum sínum á framfæri og vera þátttakendur í lýðræðislegri umræðu.

 

Það er mat umboðsmanns barna og fjölmiðlanefndar að líta skuli til Norðurlanda, sérstaklega Finnlands þegar unnin er stefnumótun um miðlalæsi. Í finnskri stefnumótun var ákveðið að búa til stefnu um vernd barna og miðlalæsi, þ.e. að horfa á allan málaflokkinn í heild. Reynslan sýnir að það er ekki nóg að gefa börnum og ungmennum kost á að læra að nýta nýja tækni án þess að þeim sé kennt að nýta tæknina þannig þau hafi ekki skaðleg áhrif á einstaklingana sjálfa, aðra eða samfélagið í heild. Við stefnumótun í Finnlandi var litið svo á að miðlalæsi tengdist menningu og menningarstefnu með skýrum hætti þar sem miðlalæsi er þáttur í því að viðhalda menningu, treysta menningu og skapa menningu og er sem slík undirstaða undir þess að geta viðhaldið samfélagi og tryggt lýðræði.

 

Í Finnlandi og á Norðurlöndunum öllum er talið að góðar rannsóknir og þekking á fjölmiðlum, fjölmiðlamarkaði og gildi fjölmiðla sé forsenda þess að hægt sé að móta stefnu og fara eftir henni. Markmið stefnumótunarinnar er fjórþætt. Í fyrsta lagi þarf stefnan að ná til barna og ungmenna sérstaklega. Þetta er spurning um að raddir barna og ungmenna fái að heyrast í samfélaginu. Því er mikilvægt að leyfa börnum og ungmennum að taka þátt í því að móta stefnuna. Í öðru lagi er talið mikilvægt að ábyrgð á framkvæmd eftir að stefnan hefur verið mótuð sé hjá einhverjum sem er miðlægur, hefur fjárveitingar og starfsfólk, hjá stofnun þar sem þekking byggist upp og er viðhaldið. Á Norðurlöndunum er reynslan sú að allskyns félagasamtök hafa gert frábæra hluti er varðar miðlalæsi. Vandamálið er hinsvegar að þegar fjármunir eða styrkir eru á þrotum hætta verkefnin, dýrmæt þekking glatast og þá þarf að byrja aftur upp á nýtt. Félagasamtök og aðrir sem hafa litla fjármuni og þurfa styrki hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að viðhalda verkefnum og þróa þau áfram. Þannig þarf framkvæmdin að vera með þeim hætti að ekki sé hætta á því að þekking glatist og að mikilvæg verkefni séu lögð niður. Finnar ákváðu að leysa þetta með því að setja á fót stofnun, þar sem málaflokkurinn í heild ætti heima. Í þriðja lagi er mikilvægt að hlustað sé á alla sem hafa þekkingu á miðlalæsi og á þá sem eru að vinna í málum tengdum miðlalæsi. Þannig hafa verið búin til tengslanet í Finnlandi sem er viðhaldið af miðlægri stofnun (KAVI) með góðum árangri. Það er talið skipta máli að einhver sem hefur þekkingu geti tekið saman niðurstöður rannsókna og miðlað þeim áfram. Í fjórða lagi þarf að koma miðlalæsi ofar á forgangslistann og stjórnvöld þurfa að líta á miðlalæsi sem mikilvægan málaflokk  og lið í því að viðhalda og halda áfram að byggja upp lýðræði og menningu.

 

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd telja að mikilvægt sé að Ísland feti í fótspor Norðurlandanna og að sett sé metnaðarfull stefna um miðlalæsi og að henni verði markvisst fylgt eftir.

 

 Haturstal

Á Norðurlöndunum hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að því að sporna við haturstali. Fjölmiðlaeftirlit á Norðurlöndunum hafa fengið það verkefni að kortleggja hatursorðræðu á netinu. Komið hefur í ljós að vandinn er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða hatursorðræðu sem beinist gegn ákveðnum hópi eða hópum manna. Slík orðræða er skaðleg samfélaginu þar sem hún elur á fordómum. Fordómar geta síðan leitt til tortryggni gegn ákveðnum hópum sem síðan getur haft skaðleg áhrif á lýðræði og samheldni í sérhverju samfélagi. Í verstu tilvikum getur slík orðræðan sem látin er óátalin leitt til aukins ofbeldis í samfélaginu. Það er því talið vera að hluta til á ábyrgð samfélagsins að vinna gegn hatursorðræðu og að sporna gegn því að öfgafullir hópar fái þrifist. Mikilvægt er að kortleggja hatursorðræðu, hverjir viðhafa slíka umræðu, að hverjum hún beinist og finna leiðir til að sporna gegn henni. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að sumir einstaklingar eru móttækilegri fyrir hatursfullum boðskap en aðrir og eru jafnvel tilbúnir til að ganga til liðs við öfgahópa og vinna óhæfuverk. Því þarf að skoða sérstaklega hvaða einstaklingar þetta eru og hvað er til ráða.

 

Á Norðurlöndunum hefur því sérstaklega verið rannsakað hvaða öfgahópar það væru sem ynnu að því að fá til liðs við sig ungt fólk. Orðræða og aðferðafræði þessara hópa hefur verið skoðuð auk þess sem stofnunum er ætlað að kortleggja hvaða einstaklingar það eru sem eru líklegastir til að aðhyllast slíkar skoðanir. Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd benda á að á Íslandi sé ekki sú staða komin upp að verið sé kerfisbundið að fá ungmenni til að ganga til liðs við öfgahópa. Það er þó full ástæða til að hafa varann á, enda verður þróunin á Íslandi iðulega svipuð og í nágrannaríkjum þó að hlutirnir gerist hægar. Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd telja mikilvægt að unnin verði stefna til að sporna gegn haturstali. Í því sambandi má sem dæmi nefna að fyrir skemmstu réð danska lögreglan foreldrum unglinga þar í landi frá að heimsækja félaga sína til Íslands vegna hatursfullrar orðræðu sem hafði átt sér stað í aðdraganda ferðarinnar á lokaðri síðu á Facebook. Þessar fréttir endurspeglar litla meðvitund í íslensku samfélagi um hvað felist í haturstali og alvarleika þess. Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd telja því mikilvægt að unnin verði stefna til að vekja ungmenni til umhugsunar um haturstal og sporna gegn því eftir fremsta megni. 

 

Að lokum

Umboðsmaður barna og fjölmiðlanefnd vilja benda á mikilvægi þess að stefna sé mótuð, að aðgerðaráætlun verði markviss og að fjárveitingar verði tryggðar til framangreindra verkefna. Þannig telja umræddar stofanir mikilvægt að ákvæði verði bætt inn í 19. kafla fjármálaáætlunar um fjölmiðla.  Ákvæðinu verði ætlað að taka til fjárveitinga til að hafa eftirlit með aldursmati á myndefni, framkvæma stefnumótun um miðlalæsi og auka þekkingu á skaðlegum áhrifum haturstals.

 

Virðingarfyllst,

 

 

 

                        Salvör Nordal                                                 Elfa Ýr Gylfadóttir

                        umboðsmaður barna                                       framkvstjr. Fjölmiðlanefndar

 

 

 

 

Afrit sent forsætisráðherra


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica