4. desember 2015

Tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum, 338. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 338. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 3. desember 2015.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 338. mál.  

Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 3. desember 2015.

Skoða tillöguna.
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd Alþingis

 

Reykjavík, 3. desember 2015
UB:1512/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 338. mál. 

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 18. nóvember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu

Umboðsmaður barna telur brýnt að stuðla að bættri geðheilsu fólks og bæta þjónustu við þá sem glíma við geðraskanir. Hann telur því jákvætt að unnin hafi verið stefna og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum. Hann vill þó ítreka eftirfarandi ábendingar sínar.

Þó að í umræddum drögum sé að finna ýmsar góðar tillögur sem varða börn og fjölskyldur þeirra hefði að mati umboðsmanns barna verið full ástæða til að útbúa sérstaka stefnu um geðheilbrigði barna eða að minnsta kosti tileinka afmarkaðan hluta stefnunnar sérstaklega málefnum barna. Mikilvægt er að huga að sérstöðu barna og tryggja eins og hægt er að hvert og eitt barn nái sem bestum mögulegum andlegum, líkamlegum og félagslegum þroska, sbr. meðal annars 6. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd og umönnun umfram hina fullorðnu. Jafnframt eru börn þó fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Ef þau fá þann stuðning sem þau þurfa og tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu skilar það sér margfalt til baka.

Umboðsmaður barna telur sérstaklega jákvætt að stefnt sé að því að auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu og innleiða fjölskyldubrúna á heilsugæslustöðvum, sbr. tillögur A.3 og A.4. Umboðsmaður hefur í nokkur ár bent á mikilvægi þess að öll börn hafi  aðgang að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, sjá t.d. frétt hér frá 12. apríl 2012. Ennfremur fagnar hann því að fyrirhugað sé að fjölga geðheilsuteymum, sbr. tillögu A.2 og tryggja að foreldrar geti fengið stuðning frá þverfaglegu teymi fagfólks í nærumhverfi, sbr. tillögu B.1. Umboðsmaður saknar þess þó að vikið sé sérstaklega að bættri þjónustu við börn og ungmenni í nærumhverfi þeirra. Eins og staðan er í dag starfa til dæmis sérhæfð teymi fyrir börn sums staðar á landinu og hefur það reynst vel. Á öðrum stöðum er slík þjónusta ekki í boði og er börnum því mismunað eftir búsetu að þessu leyti. Umboðsmaður barna telur brýnt að stefna og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum miði að því að tryggja öllum börnum með geð- og hegðunarraskanir gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu, fjölskylduráðgjöf og aðgang að sérhæfðu fagteymi í nærumhverfi sínu. 

Mikilvægt er að tryggja börnum þá þjónustu sem þau þurfa eins fljótt og hægt  er, til þess að koma í veg fyrir að þau þrói með sér enn alvarlegri vanda. Er því jákvætt að stefnt sé að því að skima fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum  grunnskóla og viðeigandi stuðningur veittur fyrir þau börn sem teljast í áhættuhópi, sbr. lið B.3. Ljóst er að börn á öllum aldri verða fyrir áföllum og upplifa kvíða og þunglyndi. Telur umboðsmaður barna því ekki ástæðu til að takmarka skimanir við elstu bekki grunnskóla, heldur er þvert á móti mikilvægt að fylgst sé með líðan barna á öllum skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að auka hlutverk skóla þegar kemur að forvörnum og viðbrögðum við vanlíðan barna. Hann fagnar því tillögu B.2 um að settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum. Hann hefði þó viljað sjá styttri tímamörk í tillögunni, þannig að hægt verði að vinna úr niðurstöðunum sem fyrst.

Umboðsmaður barna hefur margoft bent á nauðsyn þess að fjölga úrræðum fyrr börn með hegðunar- og geðraskanir, en í dag þurfa þessi börn að bíða í marga mánuði eða jafnvel einhver ár eftir greiningu og þjónustu við hæfi. Með þessum langa biðtíma er brotið á réttindum barna, en þau eiga rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, sbr. m.a. 24. gr. Barnasáttmálans. Fagnar umboðsmaður því sérstaklega tillögu A.6. sem miðar að því að efla þjónustu göngudeildar BUGL og koma í veg fyrir að börn þurfi að bíða eftir slíkri þjónustu. Umboðsmaður hefði þó viljað sá enn víðtækara orðalag, þannig að stefnt væri að því að stuðla jafnframt að því að útrýma biðlistum á legudeild BUGL.

Umboðsmaður barna vill þó benda á að ekki er nóg að efla starfsemi BUGL, enda sinnir BUGL einungis litlu broti barna með geðraskanir eða þeim sem glíma við alvarlegasta vandann. Er því mjög brýnt að setja fram sambærilega tillögu um aðra biðlista fyrir börn með hegðunar- og geðraskanir, svo sem biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Eins  og staðan er í dag eru 394 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðinni og um 250 mál á einhverju stigi í vinnslu.  Svo virðist sem ásókn í þjónustu stöðvarinnar sé að aukast og því er sérstaklega mikilvægt að bregðast við þessum mikla vanda.

Umboðsmaður barna telur miður að ekki sé fjallað um börn með tví- eða fjölþættan vanda í stefnunni, enda hefur hegðunar- og vímuefnavandi mikil áhrif á geðheilbrigði barna og ungmenna og öfugt. Umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á að verulega skortir úrræði fyrir börn sem eiga við geðræn vandamál að stríða og stefna eigin velferð í hættu vegna hegðunar- og vímuefnavanda. Þessi börn falla oft á milli kerfa, þar sem þau fá hvorki viðeigandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu né á vegum barnaverndar. Í bréfi til velferðarráðuneytisins dags. 30. janúar 2015 óskaði umboðsmaður barna eftir svörum um það hvernig ráðuneytið hygðist bregðast við þessum vanda. Í bréfinu er sagt frá máli barns, en foreldrar barnsins treystu sér ekki til þess að hafa það á heimilinu, þar sem það átti við alvarlegan vanda að stríða, hafði beitt fjölskylduna ofbeldi og þurfti því nauðsynlega að komast í úrræði við hæfi. Neyðarvistun Stuðla neitaði að taka við barninu, þar sem starfsfólk taldi það þurfa vera undir höndum lækna. Þá höfnuðu bæði  BUGL og bráðamóttaka geðdeildar að taka við barninu. Önnur úrræði komu ekki heldur til greina vegna vímuefnaneyslu barnsins. Í gögnunum kemur orðrétt fram að það „eina í stöðunni væri [að barnið] færi heim til foreldra, ef að þeir vildu ekki taka við [barninu], væri lítið sem væri hægt að bjóða“. Enn hafa engin svör borist við bréfinu.

Umboðsmaður barna telur brýnt að tekið verði á framangreindum þáttum í geðheilbrigðisstefnu og markvisst stefnt að því að tryggja að öll börn með geðrænan vanda fái greiningu, meðferð og þjónustu við hæfi án tafar. Umboðsmaður hefur margoft bent stjórnvöldum og Alþingi  á að þeim sé skylt að setja hagsmuni barna í forgang, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans, og tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á. Aðstæður í ríkisfjármálum geta ekki réttlætt brot á grundvallarmannréttindum barna. Það kostar samfélagið mjög mikið til lengri tíma að veita börnum ekki þá þjónustu sem þau eiga rétt á, fyrir utan þá þjáningu sem það hefur í för með sér fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.  Er því ljóst að það skilar sé margfalt til baka að fjárfesta í geðheilbrigði barna og ungmenna.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica