21. mars 2017

Tillaga til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 3. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 17. mars 2017.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 3. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 17. mars 2017.

Skoða tillöguna. 
Skoða feril málsins.

 

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 17. mars 2017

Efni: Umsögn um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum, 3. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndarsviði Alþingis, dags. 2. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Umboðsmaður barna telur afar brýnt að til staðar sé sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum og fagnar því ofangreindri þingsályktunartillögu. 

Börn og ungmenni eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd og umönnun umfram hina fullorðnu. Það er því mikilvægt er að tryggja börnum og ungmennum  þá þjónustu sem þau þurfa eins fljótt og hægt er, til þess að koma í veg fyrir að þau þrói með sér enn alvarlegri vanda. Ef þau fá þann stuðning sem þau þurfa og tækifæri til þess að vera virkir þátttakendur í samfélaginu skilar það sér margfalt til baka. Umboðsmaður barna telur því rétt að tryggja sjálfstæðan rétt barna um aðgengi að gjaldfrjálsri ráðgjöf og aðstoð fagaðila, svo sem sálfræðingum, í barnvænlegu umhverfi eins og framhaldsskólum. 

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, viðurkenna aðildarríki rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar, sbr. 1. mgr. 24. gr. Aðildarríkjum er því skylt að kappkosta við að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu. Umboðsmaður hefur beitt sér ítrekað fyrir því að stjórnvöld sinni skyldum sínum varðandi börn og setji hagsmuni barna í forgang, sbr. meðal annars 3. gr. laga nr. 19/2013, og tryggi öllum börnum þá þjónustu sem þau eiga rétt á enda mikilvægt að huga að sérstöðu barna og tryggja eins og hægt er að hvert og eitt barn nái sem bestum mögulegum andlegum, líkamlegum og félagslegum þroska, sbr. 6. gr. laga nr. 19/2013. 

Umboðsmanni barna hafa borist upplýsingar um að frá árinu 2010 hafi líðan ungmenna farið versnandi. Um þetta hefur verið mikil umræða í samfélaginu. Færri ungmenni meta andlega líðan sína góða eða mjög góða árið 2016 en árin á undan og tölur sýna að hátt hlutfall þeirra ungmenna sem hætta í skóla er vegna andlegra veikinda. Hugsanir um sjálfskaða og sjálfskaði hefur aukist meðal stúlkna síðustu ár og vond líðan almennt hefur farið vaxandi á meðal stúlkna í grunnskólum. Almennt líður þó ungmennum sem ekki eru í skóla verr en þeim sem eru í skóla. Umboðsmaður barna telur því mjög áríðandi að einnig verði hugað að þörfum ungmenna sem eru utan skóla varðandi aðgang að sálfræðiþjónustu.

Umboðsmaður barna vill að gefnu tilefni benda á umsögn sem hann sendi velferðarráðuneytinu í tilefni af þingsályktunartillögu um geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun 20. ágúst 2015 þar sem umboðsmaður benti á hve brýnt væri að útbúa sérstaka stefnu um geðheilbrigði barna.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica